Ellen Margrethe Guðjónsson, fæddist 20. febrúar 1925. Hún lést 27. október 2021. Útförin fór fram í kyrrþey.

Það er svolítið skrýtið að þú sért allt í einu farin frá okkur, farin frá okkur og komir ekki aftur nema í minningum en þar er af nægu að taka. Í Hvassaleiti var yfirleitt allt í föstum skorðum hjá ykkur afa, verkaskiptingin var skýr en það var líka alveg skýrt hver það var sem réði! Heimilið hafði svolítið danskt yfirbragð, í hádeginu varst þú gjarnan búin að smyrja danskt rúgbrauð með hinu og þessu áleggi auk þess sem oft var boðið upp á súpu, og stöku sinnum fékk afi pilsner með!

Það brást ekki að þú mundir alltaf eftir öllum afmælum í fjölskyldunni, bæði börnum og barnabörnum, og alltaf hringdir þú daginn áður, til þess að trufla nú örugglega ekki neinn á afmælisdaginn.

Þegar við fórum saman til Danmerkur 2011 varstu sannarlega í essinu þínu, Jens var búinn að panta hjólastól til þess að keyra þig úr flugvélinni á Kastrup, þú tókst náttúrlega ekki í mál að fara í hann, enda eldhress. En í Danmörku varstu sannarlega á heimavelli og hrókur alls fagnaðar, þér þótti svo gaman að hitta alla ættingjana og verja með þeim stund. Sagðir okkur alls kyns sögur úr uppvextinum og hvernig hlutirnir voru þegar þú varst ung.

Síðustu mánuði hittumst við að minnsta kosti einu sinni í viku, ýmist fórum við og fengum okkur kaffibolla einhvers staðar, fórum á rúntinn eða kíktum á langömmubörnin þín eða bara spjölluðum á Grundinni. Alltaf spurðir þú frétta af þínu fólki og vildir fylgjast vel með öllu, sérstaklega barnabörnum. Elsku amma – takk fyrir allt.

Andrés Ívarsson.

Ég var ákaflega heppin að fá að kynnast Ellen og njóta samvista við hana í rúman áratug, þrátt fyrir töluverðan aldursmun urðum við strax vinkonur. Fljótlega eftir að hafa ruglað reytum við Andrés sonarson hennar bauð hún okkur í mat, auðvitað í danskan julefrokost með öllu tilheyrandi. Þar var stórfjölskyldan saman komin á heimili hennar, nema hvað. Ellen var allt í senn að elda, dekka borð og spjalla við fólkið sitt, miðpunkturinn og hrókur alls fagnaðar en ég undraði mig á hve kvik hún var og virtist fara létt með allt þetta umstang þrátt fyrir háan aldur.

Ellen var ein af þeim sem maður verður ríkari af samskiptum við, hún var dönsk en bjó á Íslandi í rúmlega sjötíu ár. Hún var sannkallaður heimsborgari, framúrstefnuleg í hugsun, opin og einlæg, einstaklega viðræðugóð og létt í lund. Hún var sterkur persónuleiki sem fylgdist vel með sínu fólki og sýndi í orðum og verki að henni þótti virkilega vænt um afkomendur sína. Hún hafði góðan húmor og laðaði fram það besta í öllum sem hún umgekkst. Fáguð og flott, ávallt fín og vel tilhöfð, hafði næmt auga fyrir fallegum hlutum og blómum sem hún færði fólkinu sínu við ýmis tækifæri. Í mannlegum samskiptum var hún meistari sem vildi kynnast fólki og fannst gaman að spjalla við unga sem aldna jafnt á dönsku og íslensku eða bara allt í bland ef því var að skipta. Hún var næm á fólk og mannlegt eðli og nálgaðist fólk af kærleik og alúð.

Frá fyrstu kynnum hringdi Ellen alltaf í mig kvöldið fyrir afmælið mitt, það gerði hún til að trufla ekki upptekið afmælisbarnið á sjálfan afmælisdaginn, hún spurði alltaf hvað ég væri nú gömul núna, skellihló svo og sagði nei, nei, það getur ekki verið! Hún vissi hvenær allir áttu afmæli í fjölskyldunni, skráði það niður í sérstaka afmælisdagabók sem hún hafði alltaf við höndina. Hún hafði einlægan áhuga á barnabarnabörnum og vildi fá að sjá og heyra um allt sem á daga þeirra dreif. Um tíma bjuggum við úti á landi, þá skrifaði ég henni bréf með sögum af börnunum og ljósmyndum, þetta fannst henni alveg frábært og hringdi glöð í bragði strax eftir lesturinn til að þakka fyrir þennan óvænta glaðning. Við urðum aldrei uppiskroppa með umræðuefni, spjölluðum um heima og geima, gjarnan börnin og hvað væri enn gott og gilt í umönnun og uppeldi barna og hvað væri allt öðruvísi frá því hún eignaðist sín börn. Minningum um einstaka konu, ömmu og langömmu munum við halda á lofti um ókomna tíð.

Hvíldu í friði elsku Ellen og hafðu þökk fyrir góða viðkynningu og vináttu.

Þorbjörg Pálmadóttir.

Ellen fæddist á Jótlandi, hún flutti með sér siði og venjur frá æskuheimilinu og bjó sér og sinni fjölskyldu fallegt heimili sem hún stýrði af miklum myndarskap. Þar tók hún á móti fólki af umhyggju og mikilli ánægju.

Að loknu hjúkrunarnámi aflaði hún sér víðtækrar reynslu með störfum á fæðingardeild, barnaspítala og geðsjúkrahúsi í Danmörku og fór síðan til Englands þar sem hún starfaði við einkahjúkrun en einnig á stóru sjúkrahúsi í London. Í byrjun árs 1950 sneri hún aftur heim. Þá lágu leiðir þeirra Andrésar saman. Hann hafði nýlokið námi sem véltæknifræðingur frá tækniskólanum í Odense og var á leið heim til Íslands. Tilhugalífið var stutt, en þau vissu hvað þau vildu og giftu sig 9. desember 1950 og heim til Íslands komu þau stuttu fyrir jólin. Þau voru samheldin hjón og báru mikla virðingu hvort fyrir öðru.

Við komuna til Íslands var Ellen strax ákveðin í að Ísland væri hennar nýja heimaland. Hún hélt góðu sambandi við fjölskyldu sína í Danmörku og með dönskum vinkonum sínum á Íslandi ræktuðu þær allt sem danskt var og vinskapinn í Den danske Kvinneklub.

Ellen byrjaði að vinna sumarið 1951 á Landspítalanum og vann þar nokkur sumur en hóf svo fast starf þegar synirnir voru komnir á skólaaldur. Hún naut þess að hjúkra og sérstaklega var henni kært að vera ein af þeim sem tóku þátt í uppbyggingu hjúkrunarstarfsins á Borgarspítalanum. Hún vann á A-6 lyflækningadeild árin 1966-1979, í Hafnarbúðum öldrunardeild 1979-1986 og á Droplaugarstöðum 1986-1988.

Við vorum báðar ungar þegar við kynntumst, hún fyrirmyndarhúsmóðir sem ég leit upp til og lærði margt af en ég undir sterkum áhrifum kvenréttindabaráttunnar. Við vorum báðar hjúkrunarmenntaðar og sérstaklega seinni ár áttum við ánægjulegar stundir við spjall um starfið okkar og samtíðarfólk.

Hún var amma sonar míns sem var hennar fyrsta barnabarn. Ömmuhlutverkinu tók hún fagnandi og var frá fyrsta degi boðin og búin að passa drenginn. Þegar ekki þurfti að passa hann lengur kom hún á föstum vikulegum samverustundum þar sem dekrað var við hann og eldaður uppáhaldsmaturinn hans. Þannig tók hún seinna á móti fyrstu langömmustrákunum sem voru alltaf sérstaklega velkomnir á heimili þeirra Andrésar.

Ellen var lífsglöð og jákvæð og átti auðvelt með að finna björtu hliðarnar á tilverunni. Henni var sérstaklega annt um allt sitt fólk og fylgdist vel með.

Fáa hef ég þekkt sem hafa átt eins auðvelt með að hrósa fólki og fékk ég minn skerf af því og fyrir það er ég þakklát.

Eftir andlát Andrésar 2009 fór hún í dagþjálfun í Múlabæ, þrjá daga í viku og bjó ein á eigin heimili þar til hún varð 96 ára. Hún hældi starfsfólki Múlabæjar við hvert tækifæri og sama var að segja um starfsfólkið á Grund en þangað fluttist hún í febrúar sl.

Ég kveð mína kæru vinkonu og þakka henni alla hennar ást og umhyggju við mig og mína fjölskyldu.

Sigrún Kristjana Óskarsdóttir.