Meistaravellir Heimavöllur KR-inga er einn af sjö grasvöllum sem leikið verður á í úrvalsdeild karla 2022. Svona leit hann út í gær. Spurning er hvernig hann kemur undan vetri og hvort um snjóalög verður að ræða í aprílmánuði.
Meistaravellir Heimavöllur KR-inga er einn af sjö grasvöllum sem leikið verður á í úrvalsdeild karla 2022. Svona leit hann út í gær. Spurning er hvernig hann kemur undan vetri og hvort um snjóalög verður að ræða í aprílmánuði. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Grasvellir Víðir Sigurðsson Bjarni Helgason Keppnistímabilið í íslenska fótboltanum lengist um 45 daga, hálfa sjöundu viku, ef breytingar sem lagðar verða til á ársþingi KSÍ í febrúar verða samþykktar.

Grasvellir

Víðir Sigurðsson

Bjarni Helgason

Keppnistímabilið í íslenska fótboltanum lengist um 45 daga, hálfa sjöundu viku, ef breytingar sem lagðar verða til á ársþingi KSÍ í febrúar verða samþykktar.

Þá verður leikjum í úrvalsdeild karla fjölgað úr 132 í 162 og leikið frá 18. apríl til 29. október, í stað 30. apríl til 25. september eins og gert var á þessu ári.

Lenging tímabilsins hefur lengi verið baráttu- og áhugamál þeirra sem vilja sjá íslenska fótboltann vaxa og dafna og standast sívaxandi kröfur á alþjóðavettvangi. Íslenska tímabilið er það stysta í Evrópu.

En stærsta áhyggjuefnið við lengingu tímabilsins er án efa ástand íslensku grasvallanna og hvort þeir þoli það álag að keppni hefjist upp úr miðjum apríl og ljúki ekki fyrr en í lok október. Grasvellirnir í deildinni eru ekki með hitalagnir, eins og t.d. Kópavogsvöllurinn var með áður en hann var lagður gervigrasi.

Þá fjölgar grasvöllunum í deildinni á milli ára. Á þessu ári fór meirihluti leikjanna fram á gervigrasi, sex lið voru með gras og sex með gervigras, en KA þurfti að spila hluta sinna heimaleikja á gervigrasvellinum á Dalvík.

Nú er hinsvegar ÍBV komið í deildina á ný með gras á Hásteinsvelli, sem verður reyndar fjarlægt eftir tímabilið 2022, á meðan gervigrasliðin HK og Fylkir féllu úr deildinni. Þar með eru sjö graslið en fimm gervigraslið í deildinni 2022.

Þetta þýðir meðal annars að a.m.k. einn leikur í fyrstu umferðinni 18. apríl þyrfti að fara fram á grasi, nema KA verði úthlutað heimaleik og hann fari fram á Dalvík.

Sama er að segja um lokaumferðina en ein af leiðunum til að vinna gegn þessu vandamáli er að raða mótinu upp þannig að í fyrstu einni til tveimur umferðunum væri nær eingöngu leikið á gervigrasvöllum, sem og í lokaumferðinni.

En hvað segja vallarstjórarnir, starfsmenn félaga og bæjarfélaga sem hafa ekkert ákvörðunarvald varðandi Íslandsmótið og verða að sjá til þess að vellirnir verði í standi ef af þessu verður?

Morgunblaðið ræddi við fimm vallarstjóra grasvalla, einn framkvæmdastjóra og einn formann, til að fá stöðuna og sjónarmiðin hjá þeim sjö félögum þar sem leikið verður á grasi keppnistímabilið 2022.

Samnefnarinn í þeirra máli er sá að um gríðarlega áskorun verði að ræða að vera með grasvellina í nothæfu ástandi í apríl og október, og þar þurfi fyrst og fremst að treysta á hagstæða veðráttu.

Játum okkur sigraða

Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA:

„Nýja fyrirkomulagið leggst mjög vel í okkur en þessu fylgja líka ákveðin vandamál þegar horft er til vallaraðstæðna. Við munum væntanlega ræða við vini okkar á Dalvík um að spila á þeirra velli enda alveg ljóst að það verður enginn grasvöllur fyrir norðan tilbúinn um miðjan apríl. Við vitum heldur ekki hvernig grasvellirnir verða um miðjan október þannig að þetta verður áhugavert. Framtíðin fyrir norðan felst í gervigrasvöllum og við þurfum bara að játa okkur sigraða í þeim efnum. Það verður mikil áskorun að halda vellinum í góðu ásigkomulagi og við, eins og önnur lið sem spila á grasi, verðum í basli í byrjun móts. Það er komið inn í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar að við verðum komnir með gervigrasvöll árið 2023 og spurningin er núna í raun bara hvort sá völlur verði klár vorið 2023.“

Átta gráðu frost í apríl

Sigmundur Pétur Ástþórsson, vallarstjóri FH:

„Það er algjörlega háð veðrinu hvort völlurinn verði tilbúinn um miðjan apríl. Í apríl á síðasta ári var átta gráðu frost þannig að það er erfitt að segja hvernig þetta muni þróast. Stundum er gott veður á Íslandi á vorin og stundum ekki og maður tekur því bara eins og það er. Ég hef minni áhyggjur af haustleikjunum enda oft á tíðum hlýtt hérna á þeim tíma þannig að maður hefur meiri áhyggjur af þessum vormánuðum. Ég er alls ekki rólegur með þetta og þetta verður klárlega mikil áskorun að halda vellinum í góðu standi.“

Gæti sloppið, gæti farið illa

Halldór Brynjar Þráinsson, vallarstjóri ÍA:

„Við höfum aldrei spilað keppnisleik á vellinum um miðjan apríl sem segir allt sem segja þarf um það hvenær völlurinn er venjulega tilbúinn. Veðrið stjórnar þessu algjörlega og við höfum litla stjórn á því og völlurinn var sem dæmi ekki tilbúinn núna í vor, þótt menn hafi verið byrjaðir að spila á honum á þeim tíma. Það var ekki komin gróska í hann fyrr en mánuði eftir að mótið byrjaði og þetta verður mjög erfitt ef kuldinn og rakinn verður mikill. Það er klárt mál að ef völlurinn fer illa í upphafi þá verður hann lengi að jafna sig. Það eru stórar spurningar í þessu; þetta getur sloppið en þetta getur líka farið illa og það verður mikil áskorun að takast á við þetta.“

Snýst algjörlega um veðurfar

Magnús Valur Böðvarsson, vallarstjóri KR:

„Það er alltaf erfiðara að byrja fyrr þar sem völlurinn er ekki með undirhita. Við vonumst auðvitað til þess að veðrið verði þokkalega gott svo við getum haft vellina klára á þessum tíma. Fyrir tveimur árum var völlurinn tilbúinn á þessum tíma en þetta snýst algjörlega um veðurfar og hvernig okkur tekst til að koma völlunum upp. Grasvellirnir á Íslandi eru orðnir gamlir og illa uppbyggðir þannig að þetta verður alltaf mikil áskorun og það stefnir í erfiðan aprílmánuð. Ég á von á því að ég verði byrjaður að vinna í vellinum í byrjun mars, svo framarlega sem það verður ekki snjór eða klaki eða þess háttar á vellinum.“

Aldrei til um miðjan apríl

Sævar Leifsson, vallarstjóri Keflavíkur:

„Svona er bara staðan og við þurfum að vinna með hlutina eins og þeir eru. Það fer algjörlega eftir veðrinu á vorin hvenær grasvellirnir byrja að taka við sér en sjálfur á ég von á því að það verði ekki byrjað að spila á grasi fyrr en í byrjun maí í fyrsta lagi og að mótið verði sett upp þannig. Í gegnum tíðina hefur völlurinn ekki verið tilbúinn um miðjan apríl. Við ætluðum einu sinni að spila bikarleik á vellinum á þessum tíma en enduðum á að færa hann inn í Reykjaneshöllina vegna snjókomu. Við þurfum bara að bíða og sjá hvernig þetta þróast en þetta verður klárlega áskorun þegar þar að kemur.“

Komast í gegnum næsta ár

Bergvin Haraldsson, fyrrverandi vallarstjóri ÍBV(hætti í haust):

„Það er hægt að setja stórt spurningarmerki við það hvort Hásteinsvöllur verði klár á tilsettum tíma. Í ár var völlurinn sem dæmi þakinn snjó um miðjan maímánuð og núna á að byrja mótið mánuði fyrr þannig að maður veit ekki hvernig þetta mun líta út í apríl á næsta ári. Þetta fer algjörlega eftir veðrinu og við höfum upplifað frábært veður á vorin í Vestmannaeyjum og þá hefur völlurinn verið í frábæru standi þegar mótið er að hefjast. Við höfum líka upplifað vont veður á vorin og þá er erfitt að hjálpa vellinum að ná sér góðum enda engin upphitun undir honum. Það verður klárlega minna mál að spila á vellinum næsta haust en næsta vor, en þar sem Hásteinsvöllur verður orðinn að gervigrasvelli árið 2023 er markmiðið núna að komast í gegnum næsta ár sem gerir verkefnið aðeins auðveldara og minna um sig. Þetta verður samt sem áður mikil áskorun.“

Okkar völlur tilbúinn seinna

Oscar Clausen, formaður Leiknis úr Reykjavík:

„Þetta verður krefjandi verkefni fyrir okkur í Leikni og í raun meira krefjandi en fyrir önnur graslið á höfuðborgarsvæðinu þar sem við stöndum hærra en önnur lið. Völlurinn okkar er því tilbúinn seinna en hjá öðrum liðum en grasið okkar er á sama tíma gott og það hjálpar okkur mikið. Það verður heljarinnar áskorun að byrja mótið svona snemma og það gæti vel farið svo að við þyrftum að spila fyrstu heimaleikina okkar á gervigrasi. Þetta er líka áskorun fyrir mótanefndina að stilla mótinu upp með það til hliðsjónar að spila fyrstu umferðirnar á gervigrasi, sérstaklega ef veturinn verður slæmur.“