Helgi Bjarnason helgi@mbl.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Forysta Bændasamtakanna hefur áhyggjur af því að ef áburður hækkar jafn mikið í verði og nú stefnir í, eða um 150-200% frá síðasta vori, muni það leiða til samdráttar í framleiðslu og hafa í för með sér áhættu fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar. Kemur þetta fram í umsögn Bændasamtakanna við fjárlagafrumvarp næsta árs.

Bændur eru vanir að panta áburð fljótlega upp úr áramótum. Mikil óvissa er í þessum málum um þessar mundir og hafa áburðarsalar ekki treyst sér til að gefa út verðskrár. Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, hefur eftir áburðarsölum að eins og er sé útlit fyrir 160% verðhækkun.

Hvatt til mótvægisaðgerða

„Það myndi hafa gríðarleg áhrif á rekstrarafkomu íslenskra bænda. Spurning er hvort þeir muni draga saman framleiðsluna eða fara í aðrar alvarlegar aðgerðir til að mæta þessu,“ segir Gunnar, spurður um afleiðingarnar. Sem dæmi má nefna að ef áburðarverð hækkar um 50% mun heildarkostnaður við áburðarkaupin hækka um 1,3 milljarða frá síðasta ári.

Telur Gunnar þetta tímabundin áhrif vegna gríðarlegra hækkana á orkuverði í Evrópu og vill að stjórnvöld og Bændasamtökin meti saman heildarmyndina, hver áhrifin verða hér á landi. Í umsögn Bændasamtakanna við fjárlagafrumvarpið er hvatt til þess að heimild verði veitt til þess að ríkið geti komið með mótvægisaðgerðir vegna mögulegrar hækkunar áburðarverðs m.t.t. fæðuöryggis. Engar fjárhæðir eru nefndar enda segir Gunnar að atvinnuvegaráðuneytið hafi verið hvatt til að gera úttekt á málinu. Stjórnvöld í Noregi hafa greitt út stuðning á ræktað land til að mæta áburðarverðshækkunum.

Bændasamtökin hvetja til þess að gerðar verði ráðstafanir til þess að áfram verði hægt að framleiða gæðaafurðir á Íslandi. Bændur eru hvattir til að nýta búfjáráburð sem mest og best, til að reyna að draga úr notkun tilbúins áburðar.

Kjarnfóðurverð hækkar

Áburðarmálið var rætt á stjórnarfundi Bændasamtakanna í gær. Gunnar segir að þar hafi einnig verið rætt um hækkanir á kjarnfóðri sem þegar séu farnar að raungerast. Verð á þeim getur, eins og hækkanir á áburði, orðið til þess að bændur dragi úr framleiðslu. Gunnar segir að vegna hækkunar áburðarverðs stefni í að korn verði enn dýrara næsta haust og ekki síst ef við það bætist að orkan við að þurrka kornið verður í sömu hæðum og nú er. Það muni koma fram í enn hærra kjarnfóðurverði næsta vetur.