[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðni Einarsson gudni@mbl.is Færeyska orkufyrirtækið SEV hefur virkjað sjávarfallastrauma í Vestmannasundi, milli Vogeyjar og Straumeyjar, í samvinnu við sænska fyrirtækið Minesto (minesto.com).

Sviðsljós

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Færeyska orkufyrirtækið SEV hefur virkjað sjávarfallastrauma í Vestmannasundi, milli Vogeyjar og Straumeyjar, í samvinnu við sænska fyrirtækið Minesto (minesto.com). Samstarf um tilraunaverkefnið hófst formlega haustið 2018 og framleiðsla rafmagns byrjaði 1. desember 2020. Þá fór 100 kW sædrekinn „Haffrúin“ að senda rafmagn inn á færeyska dreifikerfið. Síðar bættist annar sædreki við í Vestmannasundi. Talið er að hægt sé að virkja allt að 4 MW í Vestmannasundi.

Minesto þróaði tækni sem það kallar „Deep Green“. Sædrekinn er ekki ólíkur flugvél að sjá og er rafstöðin knúin af skrúfu, líkt og skipsskrúfu. Sú gerð sem nú framleiðir straum fyrir Færeyinga, DG100, er með fimm metra vænghaf og virkar ekki ólíkt í sjónum og flugdreki gerir í loftinu. Sædrekinn er tjóðraður við hafsbotninn og vængur hans og stél gera það að verkum að hann lyftist frá botni og siglir eftir ferli sem er eins og 8 í laginu. Hraði sædrekans verður mun meiri en hraði sjávarstraumsins. Tækni Minesto veldur því að orkuskiptin frá sjávarstraumnum yfir í raforku verða meiri og hagkvæmari en þekkist með annarri tækni, að sögn SEV. Straumurinn fer frá sædrekanum um kapalinn sem tjóðrar hann við hafsbotninn og þaðan í spennistöð uppi á landi nærri bænum Vestmanna.

Engin sjónmengun

Dr. Martin Edlund framkvæmdastjóri Minesto segir í ávarpi sem sjá má á YouTube-rás fyrirtækisins að sjávarfallaorkan sé áreiðanlegri en vindorka, því það verður sjaldan logn í sjónum nema rétt á liggjandanum. Hann segir að þessi tækni falli vel inn í þá blöndu orkugjafa sem þarf að virkja til að afla umhverfisvænnar orku. Þá bendir hann á að sjávarfallavirkjunin sé neðansjávar og valdi því ekki neinni sjónmengun. Auk þess þurfi ekki sérstakan geymslumiðil til að geyma raforkuna því raforkuframleiðslan sé mjög stöðug.

Umhverfisstofa Færeyja framlengdi nýlega starfsleyfi tilraunaverkefnisins í Vestmannasundi fram til 28. febrúar 2025. Stefnt er að því að setja niður fleiri Minesto-sædreka í Færeyjum, bæði litla, undir 250 kW og stærri gerð, Dragon Class, með 12 metra vænghaf og 1,2 MW afl.

Fréttastofa BBC sagði frá Minesto-verkefninu í Færeyjum 29. nóvember sl. Þar kom m.a. fram að hvor sædrekinn í Vestmannasundi sjái 50-70 heimilum fyrir rafmagni. Ætlunin er að setja niður stærri gerðina af sædrekum, Dragon Class, á næsta ári. Haft er eftir Martin Edlund að með kerfi Dragon Class-sædreka verði hægt að fullnægja orkuþörf helmings færeyskra heimila með sjávarfallaorku. Nú koma um 40% af raforkuþörf Færeyja frá vatnsaflsvirkjunum og um 12% frá vindorku. Nærri helmingur raforkunnar er í dag framleiddur með rafstöðvum sem knúnar eru jarðefnaeldsneyti. Það stefnir því í að Færeyingar verði sjáfum sér nógir með umhverfisvæna raforku, þökk sé sjávarfallastraumunum í sundunum á milli eyjanna.