Halldóra Kristín Björnsdóttir fæddist 3. apríl 1922. Hún lést 13. október 2021.

Jarðarförin fór fram 29. október 2021.

Elsku amma mín, núna ertu farin frá mér og ég er alveg viss um að þú ert með besta sæti á himnum með Munda þínum, þú varst allavega búin að vinna þér það inn hér.

Virðing, orðið virðing kemur fyrst upp í hugann þegar ég hugsa til þín, þú komst alltaf fram við alla af virðingu og þú hlaust virðingu hvar sem þú komst. Þú varst hin fullkomna amma, hlý, blíð, glöð og alltaf ríkti gleði í kringum þig. Þú vissir alltaf besta svarið, ég gat alltaf verið viss um að ef ég færi eftir ráðum þínum þá yrði útkoman góð.

Þú tókst við mér þegar ég var aðeins um 18 mánaða gömul, mikið vann ég í lottóinu þá elsku amma mín, að fá að vera hjá þér í öll þessi ár og alltaf vorum við bestu vinkonur, aldrei þurftir þú svo mikið sem skamma mig nokkurn tímann, allar minningarnar okkar einkennast af gleði, hlýju og ró, tja, nema þegar við sungum Bella símamær!

Jólin voru tíminn okkar, við elskuðum jólaljósin, skrautið, kertin og kakóið. Ég er svo oft búin að setja fallegt jólaskraut, helst með ljósum, í körfuna til að gefa þér en þú ert farin og ég get ekki komið með þetta til þín, þar sem þú tekur á móti mér með brosi og fallegum orðum og segir svo: „Nei, af hverju ertu að þessu Linda mín!“ Þú elskaðir ljósið og friðinn.

Ég vil þakka þér enn og aftur fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og ég veit að þú vissir hvað ég elskaði þig mikið og ég veit líka hvað þú elskaðir mig mikið. Við áttum svo kærleiksríkt og gott samband alla tíð, hvort sem við vorum í sama landi eða ekki, þú varst alltaf til staðar fyrir mig elsku amma mín. Ég er svo endalaust þakklát fyrir þig, besta gjöf sem ég hef fengið og betri gjöf er ekki hægt að fá en svona fallega æsku með þér.

Takk elsku amma mín, þangað til næst.

Þín

Linda Rós.