Dróni Hér er dróni AHA að sendast með vörur til viðskiptavinar.
Dróni Hér er dróni AHA að sendast með vörur til viðskiptavinar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Alls hefur 1.181 fjarstýrt loftfar, dróni, verið skráð hjá Samgöngustofu á frá árinu 2017. Eingöngu þarf að skrá dróna sem eru notaðir í atvinnuskyni en drónar sem eru notaðir í einkaþágu eru ekki skráningarskyldir. Hægt er að skrá dróna rafrænt á heimasíðu Samgöngustofu (samgongustofa.is) og er ekki tekið gjald fyrir skráninguna. Langflestar skráningarnar hafa verið það sem af er þessu ári eða á fimmta hundrað talsins. Um 70% skráðra dróna hér eru í eigu erlendra aðila, samkvæmt lauslegri könnun. Nýjar Evrópureglur um dróna og drónaflug taka gildi á fyrri hluta næsta árs.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Alls hefur 1.181 fjarstýrt loftfar, dróni, verið skráð hjá Samgöngustofu á frá árinu 2017. Eingöngu þarf að skrá dróna sem eru notaðir í atvinnuskyni en drónar sem eru notaðir í einkaþágu eru ekki skráningarskyldir. Hægt er að skrá dróna rafrænt á heimasíðu Samgöngustofu (samgongustofa.is) og er ekki tekið gjald fyrir skráninguna. Langflestar skráningarnar hafa verið það sem af er þessu ári eða á fimmta hundrað talsins. Um 70% skráðra dróna hér eru í eigu erlendra aðila, samkvæmt lauslegri könnun. Nýjar Evrópureglur um dróna og drónaflug taka gildi á fyrri hluta næsta árs.

Tómstundadrónar skipta mörgum þúsundum. Einn sem þekkir til í drónaheiminum sló á að einkadrónar gætu verið í kringum tíu þúsund talsins og mögulega enn fleiri.

Skilgreind bannsvæði

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær fékk Isavia níu tilkynningar á síðustu tveimur árum um að drónum hefði verið flogið innan skilgreindra bannsvæða við flugvelli, flugvélar eða í stjórnuðu loftrými. Nýjasta tilvikið var í ágúst í sumar.

„Það eru alltaf alvarleg tilvik þegar drónar sjást úr flugvél,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri innanlandsflugvalla Isavia. Hún segir það hafa aðallega gerst við Reykjavíkurflugvöll og Keflavíkurflugvöll en einnig Akureyrarflugvöll.

„Við vitum að drónar eru framtíðin og við viljum hafa þá og möguleikana sem þeir gefa, en það verður að virða leikreglurnar í loftinu,“ segir Sigrún. Samgöngustofa hvetur notendur dróna til að uppfæra hugbúnað drónanna fyrir hvert flug.

– Hvers vegna þarf að gera það?

„Í hugbúnaði drónanna eru skilgreind svæði sem framleiðandinn veit að eiga að vera lokuð drónum, eins og flugvellir. Ef hugbúnaðurinn er ekki uppfærður eða er hakkaður á einhvern hátt getur dróninn mögulega farið of nálægt því loftrými sem við viljum vernda,“ sagði Sigrún.

Auðvelt að afla undanþágu

Hægt er að sækja um undanþágu á vef Isavia til að nota dróna á svæði sem alla jafna á að vera lokað drónaflugi. Sigrún segir það t.d. eiga við um Landspítalalóðina sem er nánast við hlið Reykjavíkurflugvallar. Drónar eru notaðir til að skrá framkvæmdirnar við Nýja Landspítalann og hefur verið sótt um undanþágu til þess. Eins geti þetta t.d. átt við um nágranna flugvallarins í Skerjafirði.

„Við viljum að fólk sæki um undanþágu ef það á að nota dróna við þessar aðstæður. Við getum þá varað loftför við því að það sé dróni í notkun á tilteknu svæði og tilteknum tíma. Við biðjum fólk að vinna með okkur,“ segir Sigrún.

Að hennar sögn eru langflestir þeirra sem gera út dróna í atvinnuskyni hér á landi í mjög góðri samvinnu við Isavia og flugmálayfirvöld. Hins vegar geta þeir sem ekki fara að reglum um notkun fjarstýrðra dróna skapað hættu fyrir önnur loftför.