Ef ég fer ekki að átta mig á í hvaða fegurðarflokki ég er, er þetta dauðadæmt.

Nú þegar desember er genginn í garð og pör sitja ástfangin yfir kertaljósi á kaffihúsum borgarinnar, eða leiðast hönd í hönd niður Laugaveginn með rauða nebba, kárnar gamanið hjá okkur einhleypingum. Nú fer hver að verða síðastur að ná sér í jólakærasta/-kærustu. Einhvern til að kúra með yfir Love Actually, drekka kakó á Mokka eða kyssast undir mistilteini eins og í sykursætri jólabíómynd.

Í hinu hnausþykka og flotta jólablaði Moggans mátti lesa áhugavert viðtal við Davíð Örn Símonarson, stofnanda stefnumótaforritsins Smitten, sem segir alla geta fundið sér maka um jólin. Þar nefnir hann að tölfræðin segi að konur séu mun vandfýsnari en menn þegar kemur að því að „læka“ hitt kynið í þessu appi og öðrum sambærilegum. Sextíu prósent karla læka allar þær konur sem þeir sjá, en aðeins tíu prósent kvenna geri hið sama við menn.

Fleira áhugavert kom fram í viðtalinu. Samkvæmt einhverjum rannsóknum, sem ekki voru tilgreindar, teljum við okkur 20% myndarlegri en við erum í raun og veru.

„Þetta gerir það að verkum að við segjum oft já upp fyrir okkur sem gerir suma dapra á stefnumótaforritum, þegar þeir eru að fá já frá fólki sem þeim finnst ekki í sínum fegurðarflokki,“ segir Davíð í viðtalinu.

Þetta vakti mig verulega til umhugsunar. Er þetta gott eða slæmt? Jú, er ekki bara fínt að maður haldi að maður sé sætari eða myndarlegri en maður er í raun? Þá er að minnsta kosti sjálfstraustið í lagi. Og hvað er að vera fallegur?

Hins vegar getur þetta greinilega verið slæmt við makaval. Davíð talar um að „segja já upp fyrir okkur“. Hann segir að 10% kvenna læki ALLA menn sem þær sjá. En hvað læka konur marga yfirhöfuð? Ég ákvað að kíkja á þetta nýja app; skoða úrvalið og giska á að ég hafi sett já við 5% karlmanna sem þar sjást á misgóðum ljósmyndum. Viðbrögðin voru lítil sem ég nú skil. Þeir eru greinilega allir í fegurðaflokki fyrir ofan mig! Ef ég fer ekki að átta mig á í hvaða fegurðarflokki ég er, er þetta dauðadæmt. Enginn jólakærasti fyrir mig þetta árið! Það verður bara að hafa það.