Bjarni Gunnarsson fæddist í Reykjavík 6. júní 1946. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 29. nóvember 2021.

Foreldrar hans voru Gunnar Vagnsson, f. 15. júlí 1918, d. 23. september 1977, og Sigríður Bjarnadóttir, f. 14. febrúar 1920, d. 24. mars 2006.

Systkini Bjarna eru Kristín, f. 7. apríl 1948, Gunnar Vagn, f. 11. ágúst 1950, og Margrét, f. 23. janúar 1965, d. 23. ágúst 2014.

Þann 8. janúar 1944 kvæntist Bjarni Dagbjörtu Gunnarsdóttur, f. 19. mars 1950. Foreldrar hennar voru Gunnar J. Ólason, f. 1903, d. 1973, og Kristín Bæringsdóttir, f. 1914, d. 2006.

Bjarni gekk hefðbundna skólagöngu og útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík 1966.

Því næst stundaði hann enskunám í Háskóla Íslands einn vetur en fór síðan til Írlands og innritaðist í Trinity Collage í Dublin þar sem hann lagði stund á ensku sem aðalfag, einnig þýsku og listasögu.

Eftir heimkomuna kenndi hann í Menntaskólanum í Reykjavík, einnig starfaði hann í menntamálaráðuneytinu sem ráðgjafi.

Hann fór þá til Bandaríkjanna og innritaðist í University of Southern Illinois Carpendale og útskrifaðist þaðan með meistaragráðu í ensku.

Eftir heimkomuna frá Bandaríkjunum réðst Bjarni til Menntaskólans í Reykjavík og kenndi ensku þar í 36 ár.

Eftir starfslok í Menntaskólanum sneri hann sér að þýðingum en hann hafði öðlast réttindi sem löggildur skjalaþýðandi og dómtúlkur. Við þetta starfaði hann meðan heilsa hans leyfði.

Frá barnæsku var Bjarni í tónlistarnámi, hann lærði á klarinett við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann lék um árabil með Lúðrasveitinni Svani og ýmsum fleiri hljómsveitum.

Einnig stundaði Bjarni söngnám í Söngskólanum í Reykjavík, og söng í ýmsum kórum, lengst í Langholtskórnum og Hljómeyki.

Á seinni árum lærði Bjarni á harmonikku og var í Félagi harmonikkuunnenda í Reykjavík.

Bjarni og Dagbjört bjuggu mestan sinn búskap í Bogahlíð 20 í Reykjavík.

Bjarni hafði unun af ferðalögum bæði innanlands og utan. Þau hjónin ferðuðust ófáar ferðir til Ítalíu, einnig til margra fleiri landa þar sem þau nutu tónlistar og annarrar menningar meðan heilsa Bjarna leyfði.

Útför Bjarna hefur farið fram.

Í annað sinn minnist ég þess er ég kom í Tjarnarflöt 4 til að kynnast fjölskyldunni sem þar bjó. Þar var hár og stæðilegur maður er gaf fast handtak og hlýtt hjarta. Bjarni var alla tíð opinn, góður grínisti og gaf af sér. Tónlist átti stóran þátt í lífi hans, hann spilaði á klarínett, gítar og nú seinni árin harmoniku. Fleiri hljóðfæri átti hann við en það var söngurinn sem gaf honum mikið. Hann lærði söng og söng með Langholtskórnum og Hljómeyki. Eftir lát tengdaföður míns komu þau tengdamóðir mín, Bjarni og Margrét systir hans mörg aðfangadagskvöld til okkar og þá var Bjarni hrókur alls fagnaðar. En það varð að bíða með matinn þar til Bjarni kom því hann söng í Langholtskirkju jólamessuna með kórnum. Eftir að Bjarni kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni fóru leiðir okkar að liggja saman í ferðalögum innanlands og margar góðar stundir áttum við saman á tjaldstæðum, í ættar- og fjölskylduferðum. Eins hafa þau ferðast mikið erlendis, t.d. á Ítalíu og farið á tónleika erlendis. Það var gaman að ræða við Bjarna, hann kynnti sér ótal málefni og oft bar hæst tæknimálin sem var áhugamál ásamt tónlistinni. Bjarna varð ekki barna auðið en hann sýndi börnum okkar og barnabörnum mikinn áhuga og þau hjón gáfu þeim vandaðar og góðar gjafir um hver jól. Hann lánaði þeim hljómplötur og ræddi um tónlistina við þau og sýndi ávallt áhuga á því sem þau voru að gera. Mörg undanfarin áramót hafa Bjarni og Dagbjört komið til okkar og fagnað með okkur nýju ári og kvatt það gamla. Oft var minnst á líðandi stundir en ekki síst hvað nýja árið bæri í skauti. En fljótt skipast verður í lofti því Bjarni veiktist snemma í sumar og ekki varð af neinum ferðalögum í sumar, en minning um góðan samferðafélaga mun ávallt lifa, og þar kemur að við njótum himneskrar tónlistar í hæstu hæðum.

Ólafur I. Jóhannsson.

Skólafélagi okkar og bekkjarbróðir, Bjarni Gunnarsson, er fallinn frá eftir erfið veikindi. Hann var skólabróðir minn fyrst rétt eftir miðja síðustu öld í Austurbæjarskólanum og síðan í Gagnfræðaskóla Austurbæjar, landsprófi og að lokum sessunautur í Menntaskólanum í Reykjavík. Þar vorum við í fámennum bekk, 6. D, sem taldi þrettán nemendur og lukum þar stúdentsprófi árið 1966. Nú eru tveir fallnir frá í fámennum hópi og er skarðið stórt.

Þegar Bjarna er minnst kemur fyrst í hugann ljúfur, kurteis, hláturmildur, fróður og skemmtilegur maður með svolítið góðan breskan húmor. Hann minnti að mörgu leyti á breskan séntilmann í tvídjakkafötunum sínum, nærgætinn og fágaður í framkomu. Í MR var hann góður námsmaður og afbragðs enskumaður. Að loknu námi í MR fór Bjarni til enskunáms við Trinity College í Dublin, þann virðulega, gamla háskóla. Hann starfaði lengst af sem enskukennari í MR en hann var einnig löggiltur skjalaþýðandi og tók að sér verkefni þegar krafist var sérstakrar kunnáttu og nákvæmni.

Að stúdentsprófi loknu tvístraðist bekkurinn, mismunandi framtíðarverkefni voru valin, flestir héldu í háskóla hér á landi en aðrir sóttu menntun utan landsteinanna og breytingar urðu á fjölskylduhögum. Tækifæri til að hittast urðu færri þar til fyrir nokkrum árum að við bekkjarfélagarnir ákváðum að hittast reglulega og eiga góða stund saman. Þar var Bjarni hrókur alls fagnaðar á sinn ljúfa og hógværa hátt.

Tónlist var Bjarna hugleikin og var hann með afar góða söngrödd sem hann nýtti í kórastarfi og á góðra vina fundum. Minnisstætt er þegar æfður var kór í MR til að flytja enska madrígala. Þar var Bjarni á heimavelli með sína góðu rödd og áhuga á breskri menningu. Hann var afar vel að sér um sígilda tónlist og sótti m.a. gjarnan tónleika Sinfó þar sem hann þekkti tónlistina manna best.

Farinn er góður drengur sem er sárt saknað og er Dagbjörtu og öðrum aðstandendum vottuð innileg samúð.

Fyrir hönd bekkjarbræðra í

6. D,

Guðmundur Ragnarsson.