Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort breyta ætti reglum í handknattleiknum til að opna fyrir þann möguleika að hægt væri að fá tvö mörk fyrir að skora af löngu færi. Hvort sniðugt væri að búa til línu eins og þriggja stiga línuna í körfuknattleiknum.
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort breyta ætti reglum í handknattleiknum til að opna fyrir þann möguleika að hægt væri að fá tvö mörk fyrir að skora af löngu færi. Hvort sniðugt væri að búa til línu eins og þriggja stiga línuna í körfuknattleiknum.

Þriggja stiga línan breytti körfuknattleiknum mjög og til batnaðar að flestra áliti. Möguleikinn á að vinna upp forskot þarf að vera fyrir hendi til að viðhalda spennu hjá áhorfendum.

Ég hef farið fram og til baka í huganum um hvort þetta væri sniðugt í handboltanum. Afstaðan hefur sveiflast til eftir því hvernig liggur á manni.

Dr. Hassan Moustafa, sem ávallt virðist ná endurkjöri sem forseti Alþjóðahandknattleikssambandsins, hefur ekki óskað eftir því að ég skoði reglubreytingar í handboltanum. En ég geri það nú samt.

Mér dettur í hug að áhugavert væri að gefa tvö mörk ef skorað er frá eigin vallarhelmingi. Miðlínan er til staðar hvort sem er og framkvæmdin einföld hvað það varðar. Þessi breyting myndi gera það að verkum að það væri stærri ákvörðun fyrir þjálfara að kippa markverðinum úr markinu. Á síðustu árum hefur orðið algengara að menn grípi til þess ráðs. Sumir spila einfaldlega sóknir sjö á móti sex en einnig er algengt að markvörðurinn fari út af í sókn til að draga úr áhrifum af tveggja mínútna brottvísun.

Persónulega finnst mér óspennandi þegar langir kaflar í leikjum snúast um hvort mönnum takist að skora í opið mark. Breyting sem þessi myndi væntanlega draga úr að markverðir séu teknir út af án þess þó að verið sé að banna liðum að beita þessu. Þau væru einfaldlega að taka meiri áhættu en áður.

Eina sem ég hef gert við þessa hugmynd þar til nú er að bera hana undir kunningja minn sem er með handboltaáhuga á lokastigi. Honum leist nokkuð vel á og skammaði mig alla vega ekki fyrir þetta.