[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Skráð atvinnuleysi á landinu var 4,9% í seinasta mánuði eða hið sama og í október en er þó nokkru lægra í nóvember en gert var ráð fyrir þar sem atvinnuleysi eykst yfirleitt á milli október- og nóvembermánaða. Hafði Vinnumálastofnun (VMST) spáð því að það yrði 5-5,3% í mánuðinum. Nú spáir Vinnumálastofnun að atvinnuleysi muni lítið breytast í desember og verða á bilinu 4,9% til 5,1%.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Skráð atvinnuleysi á landinu var 4,9% í seinasta mánuði eða hið sama og í október en er þó nokkru lægra í nóvember en gert var ráð fyrir þar sem atvinnuleysi eykst yfirleitt á milli október- og nóvembermánaða. Hafði Vinnumálastofnun (VMST) spáð því að það yrði 5-5,3% í mánuðinum. Nú spáir Vinnumálastofnun að atvinnuleysi muni lítið breytast í desember og verða á bilinu 4,9% til 5,1%.

Bent er meðal annars á það í vinnumarkaðsskýrslu Vinnumálastofnunar sem kom út í gær að fjölgun atvinnulausra í byggingargreinum hafi verið minni í nóvember en áður.

Alls voru 10.155 einstaklingar án atvinnu í lok nóvember, 5.719 karlar og 4.436 konur. Af þessum hópi höfðu alls 4.083 einstaklingar verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok nóvember en þeim fækkaði þó lítið eitt eða um 169 frá mánuðinum á undan. Langtímaatvinnulausir eru þó orðnir fleiri en á sama tíma fyrir ári þrátt fyrir að dregið hafi úr atvinnuleysi á landinu en þeir sem höfðu verið atvinnulausir lengur en í eitt ár voru 3.919 í lok nóvember á seinasta ári. „Þeim sem hafa verið atvinnulausir í 6-12 mánuði fækkaði talsvert frá október eða um 246 og voru 1.807 í lok nóvember en 2.053 í lok október. Í nóvember 2020 var þessi fjöldi 5.961,“ segir í skýrslu VMST.

Atvinnuástandið er sem fyrr mismunandi eftir landshlutum og svæðum. Atvinnuleysi minnkaði á höfuðborgarsvæðinu í nóvember en á sama tíma jókst það á landsbyggðinni um 5,5% að meðaltali. Atvinnuleysið mælist mest á Suðurnesjum þar sem það jókst í seinasta mánuði úr 9,2% í október í 9,5% í nóvember. Næstmest var atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu eða 5,1%. „Atvinnulausum fækkaði m.a. í opinberri þjónustu, í verslun, í sérfræðiþjónustu, í farþegaflutningum og í upplýsingatækni á bilinu rúmlega 1% til tæpra 7% frá október. Þeim fjölgaði hins vegar lítils háttar í sjávarútvegi, byggingariðnaði, gistiþjónustu og ýmiss konar þjónustustarfsemi,“ segir í skýrslu VMST.

Þá má sjá að atvinnulausum fækkaði í seinasta mánuði meðal sérfræðinga og fólks í þjónustustörfum og í sölu- og afgreiðslustörfum. Hins vegar fjölgaði atvinnulausum meðal verkafólks og iðnaðarmanna.

Atvinnuleysi á undanförnum misserum hefur komið sérstaklega niður á erlendum ríkisborgurum og voru 4.175 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu um seinustu mánaðamót. Þeim fjölgaði um 106 á milli mánaða. Þessi fjöldi samsvarar um 11,3% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara.

Ekki er allt sem sýnist

Samtök ferðaþjónustunnar vekja athygli á því í nýrri umsögn við fjárlagafrumvarp næsta árs að af rúmlega tíu þúsund atvinnulausum á landinu í október hafi rösklega tvö þúsund starfað við ferðaþjónustu. Nálægt 60% þeirra sem voru á hlutabótum höfðu starfað í ferðaþjónustu og voru síðastliðið vor á þriðja þúsund talsins. Sennilega taki hluti þeirra nú þátt í átakinu Hefjum störf sem gerði fyrirtækjum kleift að sækja um styrk fyrir starfsmenn sem fengu hlutabætur. „Það gefur til kynna að ekki sé allt sem sýnist í lágum tölum um fjölda atvinnulausra,“ segja Samtök ferðaþjónustunnar.