Flestir komast við, þegar föðurlandsins er minnst, og standa berhöfðaðir, þegar þjóðsöngur þeirra er sunginn. En hvert á að senda reikninginn?
Flestir komast við, þegar föðurlandsins er minnst, og standa berhöfðaðir, þegar þjóðsöngur þeirra er sunginn. En hvert á að senda reikninginn? — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Morgunblaðið var á þessum degi fyrir réttum níutíu árum í föður(lands)legum stellingum – og ábyggilega verið tilefni til. „Föðurlandsást er göfug tilfinning,“ stóð í frétt blaðsins.

Morgunblaðið var á þessum degi fyrir réttum níutíu árum í föður(lands)legum stellingum – og ábyggilega verið tilefni til. „Föðurlandsást er göfug tilfinning,“ stóð í frétt blaðsins. „Það sjest meðal annars á því, hve undarlegar götur hún fer. Flestir eru fúsir að tala um föðurlandið, komast við, þegar þess er minst, og standa berhöfðaðir, þegar þjóðsöngur þeirra er sunginn. Alt vilja menn gera fyrir ættjörðina, – nema eitt. Menn vilja ekki tapa á henni.“

Ennfremur kom fram í fréttinni að ekkert væru menn jafn fúsir til að gera fyrir ættjörðina, eins og það að þiggja af henni greiða – taka við fé frá henni. „Þegar menn gefa ættjörðinni sinni reikning, og til þess eru flestir fúsir, leiðir ættjarðarástin þá út í heilabrot um það, á hvern hátt sje hægt að hafa reikninginn sem hæstan. Við aðrar reikningsgjafir þarf ekki um annað að hugsa, en að hafa reikninginn rjettan, nægir ekki þessi einfalda viðskiftaaðferð?“ spurði Morgunblaðið og bætti við: „Menn vilja ekki gera ættjörðina jafna óbreyttum viðskiftamönnum.“