Nýbyggingin Svona sjá arkitektarnir fyrir sér að hið nýja 54 íbúða fjölbýlishús við Grensásveg muni líta út.
Nýbyggingin Svona sjá arkitektarnir fyrir sér að hið nýja 54 íbúða fjölbýlishús við Grensásveg muni líta út. — Tölvumynd/Atelier arkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Reykjavíkurborg hefur borist fyrirspurn um það hvort heimilað verði að byggja fjölbýlishús með allt að 54 íbúðum á lóðinni Grensásvegi 50.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Reykjavíkurborg hefur borist fyrirspurn um það hvort heimilað verði að byggja fjölbýlishús með allt að 54 íbúðum á lóðinni Grensásvegi 50. Á lóðinni, sem er efst við götuna, standa hús sem verða rifin, ef áformin ná fram að ganga. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa.

Það er Björn Skaptason, arkitekt hjá Atelier arkitektum, sem sendi fyrirspurnina til borgarinnar. Fram kemur í greinargerð að á lóðinni séu kjöraðstæður til að bjóða upp á skemmtilegar íbúðir með útsýni yfir borgina.

Verði kennileiti á hæðinni

Lóðin sé staðsett í landhalla við Grensásveg og er nýbyggingunni ætlað að vera nokkurs konar kennileiti á hæðinni.

Íbúðir verða fjölbreyttar að stærð og gæði höfð í fyrirrúmi. Bílastæði verða bæði ofanjarðar og í bílageymslu í kjallara. Útivistarsvæði einkennast af gróðri og skjóli.

Efstu hæðir nýbyggingar muni ekki hafa umtalsverð áhrif á skuggavarp nærliggjandi byggðar, þar sem aðalskuggavarp muni falla norðanmegin á bílastæði.

Á neðri hæðum verða minni íbúðir en stærri eignir á efri hæðum. Byggingin er brotin upp í einingar og stallast 4-6 hæðir og rís hæst á Grensásvegi, 10 hæðir. Húsið verður alls rúmlega 8.400 fermetrar. Meðalstærð íbúða verður 97 fermetrar.

Segja má að svæðið einkennist þegar af ólíkum byggingum, segir í fyrirspurninni. Fjölbýlishúsin sunnanmegin á hæðinni eru stórir og ílangir byggingarmassar, steinsteypt fjölbýlishús frá því um 1970, 2-4 hæðir auk kjallara. Norðanmegin afmarkast svæði af einbýlishúsum við Heiðagerði með kjallara, 1-2 hæðir/ ris. Austanmegin er Grensásvegur og handan hans íbúðarbyggð sem tilheyrir Smáíbúðahverfinu.

„Fjölbýlishús, átta hæða, eru við Espigerði ofar á hæðinni og fjölmörg dæmi í borginni þar sem byggt hefur verð í stærri mælikvarða að lágreistari byggð,“ segir í fyrirspurninni.

Reiknað er með að eldri hús verði rifin á lóðinni Grensásvegi 50.

Ekki hafi reynst hagkvæmt að breyta núverandi húsnæði í íbúðir þar sem burðarvirki hússins, þar á meðal lyftustokkar og útveggir, bjóði ekki upp á þá hagkvæmni. Einnig yrði erfitt að uppfylla bílastæða- og hjólastæðakröfur ásamt dvalarsvæði.

Þriggja hæða hús á lóðinni

Núverandi atvinnuhúsnæði er þrjár hæðir og kjallari á Grensasvegi en í Skálagerði tvær hæðir. Húsið teiknaði Skúli Norðdahl arkitekt árið 1970. Byggingar á lóðinni eru samtal 965,0 fermetrar. Burðarvirki er að mestu steyptar súlur með léttum útveggjum. Margvísleg starfsemi er í fremra húsinu en í bakhúsinu er starfrækt dýralæknastofa.

Mikil uppbygging hefur verið á Grensásvegi undanfarin misseri. Stór fjölbýlishús eru að rísa á lóðinni Grensásvegi 1 og í Furugerði, á mótum Grensásvegar og Bústaðavegar, er verið að reisa 30 íbúðir í lágreistum byggingum.