Ole Anton Bieltvedt
Ole Anton Bieltvedt
Eftir Ole Anton Bieltvedt: "Hvernig getur fjötrun ótaminnar hryssu, ofbeldi við að koma nál í háls hennar og tappa af henni fimm lítrum af blóði farið fram með friði og spekt?"

Sjónvarpsstöðin Hringbraut átti nýlega viðtal við Hrönn Ólafíu Jörundsdóttur, forstjóra MAST, þar sem blóðmerahald og þær skelfilegu hliðar þess sem nýlega hafa komið upp á yfirborðið – þökk sé erlendum dýraverndunarsamtökum – var rætt.

Forstjórinn sagði það vera mat MAST að hægt væri að framkvæma blóðtöku af fylfullum merum án þess að ógna velferð dýranna.

Fyrir mér illskiljanlegt mat. Skorti forstjórann hér nauðsynlegar upplýsingar og þekkingu eða var einhvers konar meðvirkni enn í gangi?

Hvernig á að vera hægt, með góðum og dýravænum hætti, að koma ótömdum, villtum hryssum sem búið er að rífa folaldið frá úr útigangi inn í þröngan blóðtökubás, þar sem hryssan er njörvuð niður og höfuð strengt upp með reipum – dýrið bókstaflega neglt – til að hægt sé að opna slagæð á hálsi og tappa þar af blóði í 15 langar mínútur! Heil eilífð fyrir dýrið. Hvernig getur forstjórinn ímyndað sér að þessi fjötrun ótaminnar hryssu og það ofbeldi sem beita þarf dýrið til að koma nál í háls og tappa fimm lítrum af blóði af því geti farið fram með friði og spekt!

Rétt er að leggja áherslu á að hér er langmest um villtar, ótamdar merar að ræða sem eru í útigangi allt árið og eru auðvitað styggar og fælnar. Ætti forstjóranum því að vera ljóst að mannúðlegt og dýravænt blóðmerahald í þessu formi er ómögulegt!

Dýralæknar á hálum ís

Forstjóri MAST vildi líka gera nokkuð með það að dýralæknar væru alltaf við, við hverja einustu blóðtöku, eins og hún sagði. Þeir voru þá líka við í öllum þeim tilfellum þar sem gögn AWF og TSB-dýraverndunarsamtakanna sýna meiðingar, misþyrmingar og ofbeldi við dýrin! Þessi athugasemd sýnir því fremur að ekkert er á marga þessara dýralækna að treysta heldur en hitt að viðvera og meint eftirlit og handleiðsla þeirra komi dýrunum að nokkru gagni.

Þá segir forstjórinn þetta: „MAST er búið að hafa samband við (erlendu) dýraverndunarsamtökin sem birtu umrætt myndefni til að fá myndefnið, á hvaða bæjum þessar myndir voru teknar.“

Fyrir mér er það ekki traustvekjandi eða sannfærandi að MAST skuli þurfa að nýta sér rannsóknir erlendra aðila til að átta sig á dýrahaldi sem MAST sjálft á að hafa eftirlit með og á sjálft að bera ábyrgð á að fari fram af mannúð á grundvelli dýravelferðar og standist umfram allt lög landsins.

Brást fagráðið skyldum sínum?

25. apríl 2016 fundaði fagráð um velferð dýra. Fundarboðandi var Þóra J. Jónasdóttir dýralæknir gæludýra og dýravelferðar. Fundarstjóri var Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir. Aðrir fundarmenn voru m.a. Katrín Andrésdóttir, fulltrúi Dýralæknafélagsins, dr. Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma, og Jón Kalmann, fulltrúi Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Fagráðið gerði sér lítið fyrir og gaf grænt ljós á þann ófögnuð og það dýraníð sem sannast hefur að blóðmerahaldið er og allt þetta fólk hefði átt að vita að svo sé hefði það viljað eða reynt að kynna sér það. Fyrir mér brást fagráðið hér algjörlega skyldum sínum! Bókunin var stutt og einföld: „Fagráðið er jákvætt gagnvart nýju leyfi með þeim fyrirvörum sem fram komu í umræðum, sbr. texta.“ Hver hefði trúað svona vinnubrögðum upp á þetta mæta fólk, sem maður hefði haldið að það væri.

Lagagrundvöllur í lausu lofti

20. júní 2016 gaf MAST svo út „leyfi til blóðsöfnunar úr hryssum...“ til Ísteka. Byggði MAST þetta leyfi á reglugerð nr. 279/2002 en þessari reglugerð er þó eingöngu ætlað að tryggja velferð dýra við tilraunir á þeim! Athygli vekur að Þóra J. Jónasdóttir, sem heita á dýralæknir gæludýra og dýravelferðar, gaf út leyfið en hún var líka fundarboðandi þegar fagráðið gaf grænt ljós á þessa óiðju. Hún virðist því leika allstórt hlutverk hjá MAST. Sér um mál frá gæludýrum upp í fjöldaframleiðslu á blóði og frjósemishormónum!

Í markmiði reglugerðar 279/2002 stendur: „Markmið reglugerðarinnar er að tryggja velferð dýra sem notuð eru í tilrauna- eða vísindaskyni eða alin í þeim tilgangi.“

Hvernig í ósköpunum er hægt að tengja velferð tilraunadýra saman við stórfellda fjöldaframleiðslu á blóði, 170 tonn á ári? Við þessa lagatúlkun þurfti virkilega frjótt ímyndunarafl, sveigjanleg afstaða og hömlulítil meðvirkni MAST með blóðmerahaldi að koma til að mati undirritaðs. Undirritaður spurði yfirlögfræðing MAST hvort hann hefði veitt stjórn MAST leiðsögn um notkun þessarar reglugerðar við leyfisveitingu. Hann sagðist ekki minnast þess.

Önnur lög, nr. 55/2013, hefðu átt að koma í veg fyrir þessa leyfisveitingu, þessa óiðju, en markmið þeirra hljóðar svo: „Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur.“ Og hver á að sjá um framkvæmd þessara laga? Sú stofnun heitir einmitt Matvælastofnun; MAST!

Ráðherra ræður för

Fyrir tæpum tveimur árum veltum við Jarðarvinir upp þeim ófögnuði sem blóðmerahaldið er og skoruðum á yfirdýralækni, stjórnendur MAST og ekki síst á þáverandi landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, að þessi óiðja yrði stöðvuð, m.a. annars vegna þess að hún bryti í bága við lög. Ráðherra gerði ekkert með málið frekar en fjölmörg önnur dýraverndunar- og dýravelferðarmál. Ekki hans sterka hlið.

Nú er kominn nýr ráðherra, Svandís Svavarsdóttir. Vinstri-græn. Vonandi stendur hún undir nafni og lætur ekki hagsmunaaðila vaða yfir sig!

Höfundur er stofnandi og formaður Jarðarvina.