Skipið mun vera fjórða uppsjávarskip Ísfélags Vestmannaeyja og kemur að góðum notum á loðnuvertíðinni.
Skipið mun vera fjórða uppsjávarskip Ísfélags Vestmannaeyja og kemur að góðum notum á loðnuvertíðinni. — Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er eftirvænting í loftinu í sjávarplássum þegar von er á nýju skipi. Það átti við í Vestmannaeyjum þegar ný Suðurey VE 11, nýtt skip Ísfélagsins, kom til heimahafnar um miðjan dag í gær. Ísfélagið fagnaði 120 ára afmæli 1. desember sl.

Það er eftirvænting í loftinu í sjávarplássum þegar von er á nýju skipi. Það átti við í Vestmannaeyjum þegar ný Suðurey VE 11, nýtt skip Ísfélagsins, kom til heimahafnar um miðjan dag í gær. Ísfélagið fagnaði 120 ára afmæli 1. desember sl. og má segja að þetta fjórða uppsjávarskip félagsins sé afmælisgjöfin sem ætlað er að efla félagið á komandi loðnuvertíð. Félagið er öflugt í loðnu og því mikið í húfi að allt verði klárt á sjó og í landi.

Ómar Garðarsson

skrifar frá Vestmannaeyjum

Á undanförnum árum höfum við endurnýjað uppsjávarflotann með Sigurði VE og Heimaey VE. Á móti höfum við selt eldri skipin sem voru komin á tíma. Við höfum ekki keypt skip í stað allra eldri skipa vegna lítils loðnukvóta en nú er loðnan á uppleið og keyptum við Álsey VE fyrir síðustu loðnuvertíð. Þegar þessi stóra úthlutun í haust varð staðreynd var ljóst að okkur vantaði fjórða skipið og það yrðum við að fá fyrir áramót,“ segir Eyþór Harðarson útgerðarstjóri Ísfélagsins.

Niðurstaðan var að kaupa sænskt skip, Ginneton, smíðað í Danmörku árið 2006 sem er heldur minna en hin skip félagsins. Lengdin er tæpir 63 m og tankaplássið ca 1.350 m³. „Við erum vissir um að Suðurey mun reynast vel og henta vel sem fjórða uppsjávarskipið.“

Skipið er gott og vel við haldið að sögn Eyþórs. „Aðalvélin er Man Alpha dísel, 4.078 hestöfl, nýupptekin og skipið stenst allar skoðanir án athugasemda. Nú er bara að flagga því inn, aðlaga það íslenskum reglum og gera klárt fyrir loðnuna, strax eftir áramótin.“

Eyþór segir að vissulega fylgi því eftirvænting að fá nýtt skip en nú spilli Covid fyrir. „Það er ekki hægt að bjóða bæjarbúum í veislu um borð og maður saknar þess. Það gera sér ekki allir grein fyrir því hvað nýtt skip skiptir bæjarfélög eins og Vestmannaeyjar miklu máli. Þetta er okkar stóriðja fyrir svo marga; áhöfn, starfsfólk, fyrirtækin, þjónustuaðila, sveitarfélagið og höfnina. Allir Eyjamenn gera sér grein fyrir mikilvæginu en því miður eru allt of margir sem sjá ekki ljósið í því sem við erum að gera,“ sagði Eyþór að lokum.

Skipstjórinn byrjaði hjá Bóba á Sigurði

„Ég byrjaði 1982 á sjó og fór í Stýrimannaskólann 1990, útskrifaðist 1992 og er búinn að vera 22 ár hjá Ísfélaginu. Hef verið á flestum skipunum þeirra. Byrjaði á gamla Sigurði með Bóba,“ segir Bjarki Kristjánsson sem verður skipstjóri á nýrri Suðurey.

Kristbjörn Árnason, Bóbi, er einn fengsælasti skipstjóri Íslandssögunnar. Byrjaði sína skipstjóratíð hjá Einari ríka 1963 og hélt sig við fjölskyldu hans nær óslitið. Kom með yfir milljón tonn að landi af síld og loðnu. „Það var skemmtilegur tími með Bóba og mikið fiskað. Er kominn hringinn því síðasta árið hef ég verið stýrimaður á nýja Sigurði. Báðir hörkuskip en tækninni hefur fleygt fram síðan sá gamli var smíðaður 1960. Þar áður var ég á Heimaey og líkar þetta vel.“

Bjarki segir ólíku saman að jafna, skipunum frá því hann byrjaði á sjó. „Ég var á Ísleifi VE í fjórtán vertíðir og það var svolítið mikið öðruvísi. Ekki hægt að líkja þessu saman; aðbúnaði áhafnar, vinnuaðstöðu og að ferðast undir farmi. Allt á kafi á Ísleifi þegar við vorum með fullfermi og stundum erfitt í brælu. Það voru líka fleiri í áhöfn, 15 karlar, og allt gert á höndum þegar nótin er lögð niður. Sigurður gamli var mikið skip og gott en var barn síns tíma. Arftakinn er nýtískuskip á allan máta, öflugt, vel búið tækjum og íbúðir áhafnar eins og á flottu hóteli. Já, heldur betur breyting.“

Bjarki er spenntur fyrir nýju skipi. „Það leggst mjög vel í mig. Flottur bátur, alveg eins og mubla segja þeir. Ber 1.400 tonn með fullkomnum kælibúnaði, sams konar pressur og í nýja Sigurði. Alveg sambærilegur við Heimaey og Sigurð nema hann er minni. Nú er maður bara að klára á Sigurði og hlakka til að taka á móti nýja skipinu,“ sagði Bjarki að síðustu.

Bakaði brauð fyrir Eyjamenn

„Ég kem úr Reykjavík. Kom til Vestmannaeyja til að baka brauð hjá Andrési bakara. Þaðan lá leiðin í Vélskólann sem ég kláraði árið 2005 þannig að minn ferill sem vélstjóri er ekki langur,“ segir Sigurður Sveinsson, vélstjóri á Sigurði, sem verður yfirvélstjóri á Suðurey.

„Á undan var ég vélstjóri á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK, frystitogara frá Grindavík, en bjó alltaf í Eyjum með henni Kollu minni. Mér líkaði vel á Hrafninum en maður verður að breyta til. Var heppinn að fá pláss á Sigurði og hefur líkað mjög vel. Það var mikið að læra en mjög gaman. Öflug aðalvél, mikill tækjabúnaður í vél, á dekki, í brú og lestum sem allar eru kældar. Öll veiðarfæri eru það stór að mannshöndin getur engu hnikað. Allt unnið á spilum og krönum og öllu fjarstýrt. Hrafninn er gott skip en kominn á fertugsaldurinn þannig að viðbrigðin voru talsverð.“

Sigurður ber 2.600 tonn og aðalvélin um 6.000 hestöfl. Suðurey er með rúmlega 4.000 hestafla vél og ber um 1.500 tonn. „Ég hef reynt að kynna mér vélbúnaðinn eins og hægt er. Vélin er nýupptekin og ég hlakka bara til. Það er margt líkt með búnaði í Suðurey og Sigurði þannig að maður veit nokk að hverju maður gengur,“ sagði Sigurður sem tók ásamt Bjarka fyrsta loðnutúrinn á Sigurði á vertíðinni.