Selfoss Fjórbýlishúsið við Fagurgerði 12, sem ekki er með gilt byggingarleyfi. Nágranninn býr í húsinu fjær.
Selfoss Fjórbýlishúsið við Fagurgerði 12, sem ekki er með gilt byggingarleyfi. Nágranninn býr í húsinu fjær. — Morgunblaðið/Sigmundur Sigurgeirsson
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar um að samþykkja byggarleyfi fyrir fjórbýlishús á Selfossi.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar um að samþykkja byggarleyfi fyrir fjórbýlishús á Selfossi. Húsið er fullbyggt, íbúðirnar seldar og fólkið flutt inn. Bæjarstjóri vonast til að hægt sé að leysa úr málinu án þess að gerð verði krafa um niðurrif nýbyggða hússins. Úrskurðarnefndin hefur áður látið deilumál við götuna til sín taka.

Í skipulagi hverfisins er fyrst og fremst gert ráð fyrir einbýlishúsum. Verktaki sem keypti lóðina Fagurgerði 12 óskaði í byrjun síðasta árs eftir leyfi til byggingar fjórbýlishúss á lóðinni og var það samþykkt í bæjarstjórn að loknu skipulagsferli og grenndarkynningu. Eigandi næsta húss gerði athugasemdir við áformin á ýmsum stigum og kærði deiliskipulagsbreytingu og útgáfu byggingaleyfis. Úrskurðarnefndin vísaði frá kröfunni um ógildingu deiliskipulagsbreytingar en úrskurðaði að felld skyldi úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar um að gefa út byggingarleyfi fyrir fjórbýli. Rökin voru einkum þau að sveitarstjórn hafi ekki samþykkt byggingaleyfið eins og áskilið sé en það var samþykkt á afgreiðslufundi byggingafulltrúa með þeim fyrirvara að brugðist yrði við athugasemdum kæranda. Því sé byggingaleyfið ekki í samræmi við gildandi skipulag.

„Leiðinlegt mál“

Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri segist eiga eftir að fara betur yfir niðurstöðu málsins með lögfræðingum og byggingarfulltrúa. Hann segist þó ekki hafa átt von á þessari niðurstöðu. „Þetta er leiðinlegt mál. Það urðu hjá okkur mistök í stjórnsýslunni við að afgreiða málið og svara erindum kæranda sem gerir málið verra. Ástæða er til að biðja hlutaðeigendur afsökunar á því,“ segir Gísli Halldór.

Spurður um leiðir til lausnar segir bæjarstjórinn að vonandi verði hægt að vinna úr málinu á sem mildilegastan hátt. Vísar hann með því til þess að umsóknin verði unnin upp á nýtt, eins og húsið væri óbyggt. Segir hann að á síðustu árum hafi verið horfið frá því að gera kröfur um niðurrif mannvirkja þótt mistök hafi verið gerð. Segir hann að leitað verði samráðs við stjórnvöld um það hvernig bænum sé heimilt að bregðast við.

Deiliskipulag við Fagurgerði hefur áður komið til kasta sömu úrskurðarnefndar. Á árinu 2010 felldi hún úr gildi ákvörðun Árborgar um að heimila stækkun á húsi númer 1 og heimila byggingu húss á lóð númer 3. Taldi nefndin að skort hefði lagaskilyrði til þess að gera deiliskipulag fyrir lóðirnar án þess að jafnhliða væri að lágmarki unnið og samþykkt deiliskipulag fyrir götureitinn í heild.