Vel mætt í fjallið Færið var með fádæma góðu móti í Bláfjöllum í gær.
Vel mætt í fjallið Færið var með fádæma góðu móti í Bláfjöllum í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Skíðasvæðið í Bláfjöllum opnaði í fyrradag og var þá einnig opið á svæðinu í gær. Einar Bjarnason, rekstrarstjóri skíðasvæðanna, segir tímabilið fara afar vel af stað en um tvö þúsund og fimm hundruð manns gerðu sér ferð upp í Bláfjöll í gær.

Skíðasvæðið í Bláfjöllum opnaði í fyrradag og var þá einnig opið á svæðinu í gær. Einar Bjarnason, rekstrarstjóri skíðasvæðanna, segir tímabilið fara afar vel af stað en um tvö þúsund og fimm hundruð manns gerðu sér ferð upp í Bláfjöll í gær.

„Við erum bara gríðarlega sátt við þetta svona miðað við að þetta er bara dagur tvö á tímabilinu og margir með hugann við jólin,“ segir Einar í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir færið hafa verið með eindæmum gott, bæði í gær sem og í fyrradag. Raunar svo gott að hann sagðist varla muna eftir sambærilegu færi hér á landi.

„Það er bara langt síðan það hefur verið svona gaman á skíðum, manni leið eiginlega bara eins og maður væri í Ameríku en ekki í Bláfjöllum.“

Vegurinn ófær um stund

Tilkynning barst frá skíðasvæðinu um áttaleytið í gær þess efnis að vegurinn upp að svæðinu væri ófær. Þá festist bíll á veginum, enda var afar hált og snjór á veginum. Einar segir þó að vel hafi gengið að leysa það og vegurinn því lokaður í einungis tíu mínútur. „Þetta hefði getað verið alveg ömurlegt en svo tók þetta ekki nema um tíu mínútur svo þetta slapp mjög vel.

Undirbúningsvinna fyrir skíðatímabilið hefst að jafnaði í maí að sögn Einars. Þá sé sumarið nýtt í viðgerðir á tækjabúnaði auk almenns viðhalds á húsum og slíku.

„Það þarf að smyrja allan búnað og viðhalda öllu svæðinu. Það gerum við almennt að sumri til, svo þegar fyrsti snjórinn fellur þá klárum við undirbúninginn. Við erum í raun í viðhaldsvinnu alla níu mánuðina sem alla jafnan er lokað.“

Sóttvarnir ekki til trafala

Bláfjöll hafa leyfi til þess að taka á móti 75% af þeim fjölda sem venjulega væri leyfi fyrir á svæðinu vegna takmarkana. Einar segir að sóttvarnaráðstafanir séu ekki til neinna trafala eins og stendur.

„Við bara biðjum fólk um að virða nándarreglur og bera andlitsgrímu þegar þess er þörf.“

Spurður hvort opið verði á svæðinu um helgina segir hann: „Við værum svo sannarlega til í það en ef marka má veðurspá þá mun enginn vilja vera hér á morgun, enda spáð hálfgerðu fárviðri á svæðinu.“