Ása Pálsdóttir 19. janúar 1935. Hún lést 2. nóvember 2021. Hún var jarðsungin 19. nóvember 2021.

Elsku amma mín.

Ég hef í marga daga reynt að finna réttu orðin sem lýsa því hversu mikils virði þú ert mér og hversu mikið ég á eftir að sakna þín. Það hefur reynst mér erfitt að finna þessi orð, að hluta til held ég að það sé vegna þess að ég hef ekki að fullu meðtekið það að þú sért farin á vit nýrra ævintýra.

Í þínum fallega fíngerða líkama var þessi risastóri og stórkostlegi persónuleiki, kona með bein í nefinu sem lá ekki á skoðunum sínum og fussaði og sveiaði á þær mannvitsbrekkur sem vissu hreinlega ekki betur. Þú varst kvenskörungur mikill og ég hef alltaf verið stolt af því að skapgerð okkar hafi verið keimlík.

Þú varst hlý og góð amma og langamma, allar stundirnar sem við áttum saman þegar ég var yngri. Það var ekkert skemmtilegra en fimmtudagskvöld hjá ömmu að horfa á Dr. Quinn, kalda kókið í ísskápnum sem við fengum alltaf af og súru gúrkurnar eða apatyppin hans Gunnars sem okkur þótti alltaf jafn fyndið. Þú kenndir mér að bera virðingu fyrir öllum dýrum og þá sérstaklega kisum. Þú varst kattarhvíslari og allar kisur elskuðu þig því þú sýndir þeim svo mikla alúð og umhyggju.

Það var svo spennandi að fá að afgreiða í sjoppunni og læra hvernig átti að sjóða sjoppupylsur rétt með smá pilsner í vatninu. Allar krossgáturnar, spilakaplarnir, fegrunarráðin og bíltúrarnir í Gripið og greitt með henni Blíðu í aftursætinu. Öll áramótin í Sævangi þar sem þú áttir alla þessa flottu áramótahatta og grímur. Jólaöl í flottu álglösunum og skreytingarnar á borðinu. Endalaust af góðum minningum og ást.

Elsku amma mín, nú ertu komin aftur heim í Landsveitina þar sem þú ert umkringd þínum nánustu. Þar er þitt draumaland. Hvíldu í friði.

Þín

Sunna Ella.