Listamaður Þórir Baldursson fyrir miðju, ásamt bæjarstjóra Kópavogs, bæjarfulltrúum og fulltrúum í lista- og menningarráði bæjarins.
Listamaður Þórir Baldursson fyrir miðju, ásamt bæjarstjóra Kópavogs, bæjarfulltrúum og fulltrúum í lista- og menningarráði bæjarins.
Þórir Baldursson tónlistarmaður hefur verið útnefndur heiðurslistamaður Kópavogsbæjar fyrir framlag sitt til lista- og menningarmála.

Þórir Baldursson tónlistarmaður hefur verið útnefndur heiðurslistamaður Kópavogsbæjar fyrir framlag sitt til lista- og menningarmála. Karen Elísabet Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar, tilkynnti valið við hátíðlega athöfn í Gerðarsafni sl. fimmtudag.

„Þórir Baldursson á að baki stórmerkilegan feril sem lagahöfundur, hammond-orgelleikari og útsetjari, hérlendis og erlendis, og hefur sungið sig inn í hjörtu þjóðarinnar með aragrúa vinsælla sönglaga og útsetninga,“ segir m.a. í tilkynningu frá Kópavogsbæ. Fyrir tíu árum hlaut Þórir heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Við athöfnina í Gerðarsafni flutti djasstríó, skipað Unu Stef söngkonu, Agnari Má Magnússyni á hammond-orgel og Scott McLemore trommuleikara, tvö af ástsælustu sönglögum Þóris, lögin Leyndarmál og Kling Klang.

Heiðurslistamaður Kópavogs hefur verið útnefndur á tveggja til fjögurra ára fresti frá 1988.