Sigvaldi Egill Lárusson
Sigvaldi Egill Lárusson
Eftir Sigvalda Egil Lárusson: "Aukið frelsi og þjónusta við foreldra er það sem eykur og fjölgar gæðastundum fjölskyldna."

Leikskólinn Undraland var ekki opnaður aftur eftir sumarfrí í sumar. Um var að ræða einkarekinn leikskóla í Kópavogi sem hafði verið starfræktur frá árinu 1986. Við erum svo heppin að hafa náð að kynnast starfi og þjónustu Undralands síðasta starfsárið.

Undraland bauð upp á framúrskarandi þjónustu og virkilega flott og faglegt starf að öllu leyti. Þegar Undralandi er lokað kaupir Kópavogsbær húsnæði leikskólans og rekur þar leikskólann Urðarhól-Skólatröð.

Um leið og við þökkum eigendum og starfsfólki Undralands kærlega fyrir frábæra tíma og þjónustu viljum við vekja athygli á þeim mun sem foreldrar barna í þessum skólum upplifa núna, en leikskólagjöldin hafa hækkað og þjónustan verið skert.

Leikskólagjöldin hafa hækkað um allt að 8.444 kr. á mánuði sem er 101.328 kr. á ári. Vistunartíminn er styttri, ekki er boðið upp á morgunmat fyrir börnin, starfsdagar eru fleiri eða fimm talsins og ekki að fullu samræmdir með grunnskólum Kópavogs. Með fjögurra vikna sumarlokun leikskóla, fimm starfsdögum og nú síðast dögum vegna manneklu er ekkert eftir af sumarleyfi foreldra og sveigjanleikinn til að ráðstafa fríi með börnunum enginn. Við þetta bætist svo lengra sumarfrí, vetrarfrí og fleiri starfsdagar hjá foreldrum sem einnig eiga grunnskólabörn.

Starfið á Urðarhóli er mjög faglegt, við fjölskyldan erum ánægð með heilsustefnuna og börnin okkar fara glöð og kát í og úr leikskólanum og líður vel þar. Starfsfólk leikskólanna hefur unnið ákaflega gott starf við erfiðar aðstæður í Covid-19.

En spurningin er: Hvaða þjónustu viljum við bjóða upp á í Kópavogi? Viljum við ekki styðja við börnin og heimilin, veita þeim góða þjónustu í hröðu samfélagi og laða að okkur fjölskyldufólk?

Í Kópavogi eru 23 leikskólar og af þeim eru tveir einkareknir (8,7%).

Velur barnafólk Garðabæ?

Frá árinu 2015 hefur börnum á leikskólum Kópavogsbæjar fækkað um 218, en það gerir um 10% fækkun barna á leikskólum bæjarins. Á sama tíma hefur börnum á leikskólum Garðabæjar fjölgað um 177, sem gerir um 19% fjölgun barna á leikskólum bæjarins.

Það vekur einnig athygli að börn á leikskólaaldri (eins til fimm ára) voru 2.253 talsins í lok árs 2020 í Kópavogi en börn skráð á leikskóla í bænum eru 1.939. Það eru því 314 börn með lögheimili sitt í Kópavogi en eru ekki skráð á leikskóla í bænum. Í Garðabæ er þessu öfugt farið; börn með lögheimili í Garðabæ í lok árs 2020 voru 894 en börn skráð á leikskóla í bænum 1.089. Það eru því 194 börn sem ekki eru með lögheimili í Garðabæ skráð á leikskóla í bænum. Leikskólar Garðabæjar þjónusta þannig 22% fleiri börn en eru þar með lögheimili. Getur verið að foreldrar barna á leikskólaaldri í Kópavogi séu að velja það að fara með börnin sín á leikskóla í Garðabæ?

Í Garðabæ eru 15 leikskólar og af þeim eru fimm einkareknir (33,3%).

Gæðastundir

Orðið gæðastundir er mikið notað um þessar mundir, þá sérstaklega í tengslum við samskipti og samveru barna og foreldra. Þar er átt við stundir sem foreldrar og börn njóta þess að verja tíma sínum saman án utanaðkomandi áreitis, frá síma, vinnu eða öðru.

Í nútímasamfélagi þar sem hraðinn er mikill eru foreldrar stöðugt að reyna að finna tíma til að njóta gæðastunda með börnunum sínum. En fjölskyldur eru alls konar, störf foreldra eru mismunandi og fjölskyldusamsetningar nútímans margvíslegar.

Sumir leikskólar hafa gengið langt í að reyna að þröngva að gæðastundum með margvíslegum hætti, en yfirleitt er það með skertri þjónustu af einhverju tagi. Sem dæmi um þetta er að bjóða ekki upp á morgunmat fyrir börnin, hvetja með stöðugum tölvupóstum og samtölum til að foreldrar nýti styttingu vinnuvikunnar með börnum sínum. Að loka yfir sumartímann í sumarfríi. Nú þegar líður að jólum er það að foreldrar eigi að taka frí á milli jóla og nýárs og verja tíma með börnunum sínum. Slík er atlagan að foreldrar eru komnir með samviskubit ætli þeir sér að hafa börnin á leikskólanum á þessum tíma, sem þó er heil vinnuvika þessi jólin.

Þröngvaðar gæðastundir eru ekki til

Ég er þess fullviss að foreldrarnir sem ég hef séð í bílum sínum á morgnana fyrir utan leikskólann að gefa börnunum sínum að borða, í stresskasti að ná á réttum tíma í vinnuna, upplifa þetta ekki sem mikla gæðastund og hvað þá heldur börnin sjálf.

Eða þeir foreldrar sem farnir eru að kvíða því að setja börnin sín í leikskólann á milli jóla og nýárs af ótta við að vera dæmd af starfsmönnum eða öðrum foreldrum.

Að gefa frelsi með því að bjóða valkosti um tímasetningu sumarfrís sem raunverulega hentar foreldrum fjölgar gæðastundum og fækkar stundum þar sem börnin eru sett fyrir framan hvolpasveitina á meðan foreldrar vinna.

Það er hvorki hlutverk leikskóla né líklegt til árangurs að hann reyni að skikka fjölskyldur til gæðastunda. Aukið frelsi og þjónusta við foreldra er það sem eykur og fjölgar gæðastundum fjölskyldna.

Gæðastundir eiga að vera á milli foreldra og barna þegar þeim hentar en ekki þegar leikskólanum hentar.

Höfundur er fjármálastjóri og fjölskyldufaðir á Kársnesinu með börn í leikskóla og á grunnskólastigi. sigvaldi.egill@gmail.com

Höf.: Sigvalda Egil Lárusson