[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handboltinn Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is FH fór í gær upp í toppsæti Olísdeildar karla í handbolta eftir 28:28-jafntefli gegn Selfossi á heimavelli.

Handboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

FH fór í gær upp í toppsæti Olísdeildar karla í handbolta eftir 28:28-jafntefli gegn Selfossi á heimavelli. Egill Magnússon skoraði jöfnunarmark FH á síðustu sekúndunni eftir að Selfoss hafði verið með 28:25-forskot þegar skammt var eftir.

FH-ingar neituðu hins vegar að gefast upp á meðan Selfyssingar voru klaufar hinum megin. Selfoss fór að verja forskotið, sem er hættulegur leikur gegn eins góðu liði og FH. FH-ingar gengu á lagið og náðu í verðskuldað stig. Markið var kærkomið fyrir Egil, en hann var aðeins með eitt mark úr tíu skotum fyrir lokaskotið. FH er með 18 stig eins og grannarnir í Haukum en FH vann leik liðanna á dögunum og er því í toppsætinu.

Ásbjörn Friðriksson skoraði níu mörk fyrir FH og Einar Örn Sindrason átta. Ragnar Jóhannsson gerði átta fyrir Selfoss og Hergeir Grímsson fimm.

Ótrúlegt jafntefli í Garðabæ

Það benti allt til þess að Afturelding gæti loks fagnað sigri eftir þrjá leiki í röð án þess að fá tvö stig. Mosfellingar voru með 22:12-forskot þegar 20 mínútur voru til leiksloka gegn Stjörnunni og allt í blóma. Þá tóku Stjörnumenn við sér og skoruðu 14 mörk gegn aðeins 4 á lokakaflanum og tryggðu sér ótrúlegt jafntefli. Afturelding hefur nú leikið fjóra leiki í röð án sigurs á meðan Stjarnan hefur leikið þrjá í röð án þess að tapa.

Leó Snær Pétursson skoraði tíu mörk fyrir Stjörnuna og Björgvin Þór Hólmgeirsson gerði níu. Árni Bragi Eyjólfsson og Blær Hinriksson skoruðu sjö hvor fyrir Aftureldingu.

Erfið fæðing hjá ÍBV

ÍBV er í þriðja sæti með 17 stig eftir torsóttan 27:23-sigur á nýliðum Víkings á heimavelli. Þegar skammt var eftir var staðan 21:21 en Eyjamenn voru sterkari á lokakaflanum. ÍBV lenti einnig í vandræðum með nýliða HK í síðasta leik, en þá skiptust liðin á stigum eftir 39:39-jafntefli. Leikmenn ÍBV ætluðu ekki að tapa stigum gegn öðrum nýliðum og dugði góður lokakafli til sigurs.

Gauti Gunnarsson og Kári Kristján Kristjánsson gerðu sex mörk hvor fyrir ÍBV á meðan Jóhannes Berg Andrason fór á kostum fyrir Víking og skoraði 13 mörk, þar af fimm úr vítum.

Valur getur jafnað toppliðin

Valsmenn eru tveimur stigum á eftir toppliðunum úr Hafnarfirði og með leik til góða eftir 25:24-sigur á Gróttu á heimavelli. Valsmenn hafa nú í tvígang lent í erfiðleikum með Gróttuliðið, en Valur vann einnig eins marks sigur á Seltjarnarnesi í október, 22:21. Grótta er í tíunda sæti og ætlar sér að vera með í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Arnór Snær Óskarsson skoraði sjö mörk fyrir Val og Tumi Steinn Rúnarsson gerði sex. Birgir Steinn Jónsson skoraði sjö fyrir Gróttu og þeir Ívar Logi Styrmisson og Igor Mrsulja fjögur hvor.

KA vann 33:30-sigur á HK á heimavelli. Mikið jafnræði var með liðunum stærstan hluta leiks og var staðan 28:27, KA í vil, þegar skammt var eftir. Heimamenn voru hins vegar sterkari á lokakaflanum og unnu að lokum þriggja marka sigur.

KA-menn virðast vera ná takti eftir erfiða byrjun en liðið hefur unnið tvo leiki í röð, eftir þrjú töp í röð þar á undan. HK er að spila betur en í upphafi móts og hafa nýliðarnir gert vel í að ná jafntefli gegn ÍBV í Vestmannaeyjum og standa í KA á Akureyri. Liðið þarf hins vegar að fara að safna stigum, en HK-ingar eru með eitt stig, sex stigum frá öruggu sæti.

Ólafur Gústafsson og Einar Rafn Eiðsson gerðu sjö mörk hvor fyrir KA og Óðinn Þór Ríkarðsson skoraði sex. Kristján Ottó Hjálmsson skoraði fimm fyrir HK.