Miðað við vinnubrögðin í borgarstjórn finnst mér það álíka líklegt að þessi mál leysist í bráð og að ég geti búið til sjö stafa orð í Scrabble – eingöngu með samhljóðum.

Fyrirsögnina hef ég frá mömmu minni sem notaði þessi orð þegar henni var boðið eitthvað af góðum hug sem henni þótti fráleitt. Það virðist hafa gerst býsna oft í æsku minni því ég stend sjálfan mig að því að segja þetta reglulega. Um ýmislegt.

Og ég held að það sé kominn tími til að nota þetta einu sinni enn. Núna um hugmyndir um að ég fari að gera mig breiðan og bjóða mig fram sem borgarstjóra. Það er einmitt eitthvað sem er nefnt af góðum hug en mér finnst ekki heillandi hugmynd.

Fyrir nokkrum árum var stofnuð síða á Facebook sem hét: Persónulegt framboð Loga Bergmanns til borgarstjóra. Voða sniðugt grín en það virðist hafa komið þessari hugmynd að hjá fólki að ég væri einmitt maðurinn til að standa í þessu. Og ef ekki ég þá ástkær eiginkona mín.

Ég viðurkenni að ég hugsaði þetta í smá stund. Mátaði mig í huganum að stíga á svalirnar við ráðhúsið og horfa yfir veldi mitt. Klippa á borða og dusta rykið af hugmyndum um golfvöll í Viðey. Og gott ef ég skrifaði ekki líka pistil um þetta í blaðið mitt. En svo sneri ég aftur að raunveruleikanum og ákvað að þetta myndi ég aldrei gera.

Það hefur sem sagt ekki breyst.

En það kemur ekki í veg fyrir að í hverri viku nefni einhver þetta við mig, oft bláókunnugt fólk sem hringir eða sendir mér skilaboð. Vænsta fólk sem finnst geggjuð hugmynd að ég gangi í málið og mér þykir í raun og veru vænt um að það sýni mér þetta traust. Flestir hafa hugsað þetta raunsætt og benda mér á að ég þurfi að fara að spá í framboðsmál og undirbúa mig. Einn og einn virðist svo halda að ég geti bara mætt í ráðhúsið og sagt: Jæja, hvar er skrifstofan mín?

Mér finnst pólitík að mörgu leyti skemmtileg. Það er áhugavert að fá að takast á um hugmyndir og skipuleggja framtíð heillar borgar. Ég væri til í að endurvinnslumál væru í lagi og að við gætum komið börnum á leikskóla á þann hátt að dagurinn byrji ekki á 20 mínútna bíltúr í allt annað hverfi. Sennilega væri heppilegt ef borgin skuldaði ekki silljón trilljónir. Og það væri gaman ef það væri hægt að breyta samgöngumálum í Reykjavík. Miðað við vinnubrögðin í borgarstjórn finnst mér það álíka líklegt að þessi mál leysist í bráð og að ég geti búið til sjö stafa orð í Scrabble – eingöngu með samhljóðum.

Í grunninn er borgin eins og stórt húsfélag. Það þarf að takast á um ýmis mál. Á að fá menn til að þvo gluggana? Hvernig eiga jólaskreytingarnar að vera og hvenær eiga þær að fara upp? Eigum við að setja upp hleðslustöð og hvar á hún þá að vera? Þarf ekki að setja nýtt teppi á stigaganginn? Hvað eigum við að borga mikið í hússjóðinn á mánuði? Bara svona þetta helsta sem venjuleg húsfélög þurfa að eiga við. Sinnum tíu þúsund.

Nema þetta húsfélag virðist vera í frekar vondum málum. Fyrir okkur sem fylgjumst með væri ekki ólíklegt að einhver setti síldarflök í rafmagnstöfluna hjá nágranna sínum (svo vísað sé í frægt dómsmál). Það er hver höndin upp á móti annarri og sennilega féll einhvers konar met þegar flokkur með einn fulltrúa náði að klofna!

Þrátt fyrir allt þetta eru borgarmál mér hjartans mál eins og ég held að eigi við um flest okkar sem búum í Reykjavík. En þetta virkar bara alltof leiðinlegt, tímafrekt og óskilvirkt fyrir fólk sem hefur það markmið í lífinu að leita ekki uppi leiðindi.

Svo ég segi bara eins og mamma: Já takk, en nei takk.