Stemning Gestir á frumsýningu Dýrsins í London settu upp lambagrímur fyrir sýningu. Myndinni var vel tekið og er nú komin í almennar sýningar.
Stemning Gestir á frumsýningu Dýrsins í London settu upp lambagrímur fyrir sýningu. Myndinni var vel tekið og er nú komin í almennar sýningar. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta hefur eiginlega verið ævintýraleg sigurganga til þessa,“ segir Hrönn Kristinsdóttir, annar framleiðandi kvikmyndarinnar Dýrsins sem var sett í sýningar í kvikmyndahúsum í Bretlandi í gær. Hrönn og aðrir aðstandendur myndarinnar voru viðstaddir hátíðarfrumsýningu á Dýrinu í London á miðvikudag en fyrr í vikunni hafði Pete Bradshaw, gagnrýnandi The Guardian, farið lofsamlegum orðum um myndina í fjögurra stjörnu dómi. „Það var fullt hús og góð stemning. Gestirnir voru allir með lambagrímur sem var mjög skemmtilegt,“ segir Hrönn um frumsýninguna sem var í hinu fornfræga Ritzy-bíói.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta hefur eiginlega verið ævintýraleg sigurganga til þessa,“ segir Hrönn Kristinsdóttir, annar framleiðandi kvikmyndarinnar Dýrsins sem var sett í sýningar í kvikmyndahúsum í Bretlandi í gær. Hrönn og aðrir aðstandendur myndarinnar voru viðstaddir hátíðarfrumsýningu á Dýrinu í London á miðvikudag en fyrr í vikunni hafði Pete Bradshaw, gagnrýnandi The Guardian, farið lofsamlegum orðum um myndina í fjögurra stjörnu dómi. „Það var fullt hús og góð stemning. Gestirnir voru allir með lambagrímur sem var mjög skemmtilegt,“ segir Hrönn um frumsýninguna sem var í hinu fornfræga Ritzy-bíói.

Áður en kom að sýningunni í London höfðu aðstandendur Dýrsins verið í Bandaríkjunum með sýningar og móttökur fyrir Óskarsakademíuna en myndin verður sem kunnugt er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna í ár. „Dreifingarfyrirtæki okkar í Bandaríkjunum, A24, setti upp flotta herferð og telur að við eigum séns að komast á listann,“ segir Hrönn en 21. desember kemur í ljós hvaða 10-15 myndir eiga möguleika á tilnefningu sem besta erlenda myndin á Óskarnum. Í febrúar er svo tilkynnt hvaða fimm myndir hljóta tilnefningu.

Dýrið hefur notið mikillar velgengni í Bandaríkjunum frá því myndin var frumsýnd þar í landi í október. Myndin hefur tekið inn um 2,7 milljónir dollara í miðasölu og yfir 2,8 milljónir dollara á heimsvísu. Það jafngildir um 365 milljónum íslenskra króna. „Það er óvenjulegt fyrir skandinavískar myndir og myndir sem eru ekki á ensku að fá slíka aðsókn í Bandaríkjunum. Þetta eru ekki peningar sem renna beint til okkar. Það er markaðskostnaður og ýmislegt annað sem gengur fyrir,“ segir Hrönn. Dýrið var sýnd í 578 sölum í Bandaríkjunum í upphafi en gekk svo vel að sölunum var fjölgað í 800. Hún er nú aðgengileg á efnisveitum. „Við vorum í góðum félagsskap með James Bond og Dune í bíóunum. Við vorum ánægð með það.“

Um sex þúsund sáu Dýrið í kvikmyndahúsum á Íslandi og játar Hrönn aðspurð að hún hefði gjarnan viljað að þeir væru fleiri. Myndin er nú komin á efnisveitur hér.

Fram undan eru svo frumsýningar í fleiri löndum. „Frakkar ætla að gera hana að jólamynd og frumsýna 29. desember. Pólland opnar á nýársdag sem er mjög góður tími. Hún er í sýningum á Spáni núna og svo leiðir eitt af öðru. Það er nú þegar búið að selja hana um allan heim, nema til Kína. Það kemur kannski síðar,“ segir Hrönn enn fremur.