Áslaug Margrét Gunnarsdóttir Blöndal fæddist 23. september 1957. Hún lést 7. október 2021.

Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Mig langar að minnast tengdamóður minnar með fáeinum orðum.

Áslaug var góður og sannur vinur, alltaf boðin og búin að hjálpa við hvað sem þurfti, sama á hvaða tíma sólarhringsins.

Hún var mikill húmoristi og það var alltaf stutt í grínið, allt fram á það seinasta. Ég gleymi því t.d. aldrei þegar við Björg vorum nýlega byrjuð saman og ég var heima hjá þeim mæðgum á Leifsgötunni þegar við Áslaug tókum okkur til og lugum því að aumingja Björgu að við værum skyld – það hitti að vísu ekki alveg í mark, en okkur Áslaugu þótti þetta mjög sniðugt djók.

Mér fannst alltaf svo aðdáunarvert hve vel Áslaug náði að varðveita sitt innra barn, hún hafði sérstakt lag á því að nálgast fólk á jafningjagrundvelli, óháð aldri og fyrri störfum, allt frá ungbörnum upp í háaldraða.

Hún var fordómalaus með öllu og átti einstaklega auðvelt með að setja sig í spor annarra. Það var kannski þess vegna sem öllum leið vel í nærveru hennar.

Þegar ég bjó hjá þeim mæðgum á Leifsgötunni kom gjarnan fyrir að maður var eitthvað að kveinka sér yfir timburmönnum á sunnudagsmorgnum. Þá átti Áslaug það gjarnan til að segja eitthvað á þessa leið: „Jæja, nú býð ég ykkur á Kenny“ og því næst lá leiðin á KFC þar sem við gæddum okkur á djúpsteiktum kræsingum með kransæðakremi.

Það eru ekki allir svona heppnir í tengdamömmulottóinu.

Áslaug var mikill músíkant í sér og kunni sannarlega að njóta tónlistar og hafði virkilega djúpan skilning á tónlist. Hún hafði gaman af því að hlusta þegar ég sat í stofunni og æfði mig, það skipti engu máli hversu ómstrítt og hávært. Hún bjó nefnilega yfir þeim eiginleika að geta fundið fegurðina í öllu.

Hún var stuðningsmaður og aðdáandi númer eitt þegar kom að tónlistinni. Hún mætti á alla tónleika hjá okkur Björgu og hjálpaði okkur oftar en ekki við að flytja græjur og magnara. Hún var líka dugleg að mæta þegar vinir okkar voru að halda tónleika. Hún tyllti sér iðulega á fremsta bekk og fagnaði hæst allra á milli laga og að tónleikum loknum. Ef henni virkilega líkaði það sem hún heyrði var hún vön að kalla: „Sjöföld gæsahúð!“ og þá vissi maður að tónleikarnir væru vel heppnaðir.

Löngu samtölin sem við áttum í eldhúskróknum á Leifsgötunni eru mér sérstaklega minnisstæð. Við spjölluðum um allt milli himins og jarðar, en oftar en ekki spjölluðum við um yfirnáttúrulega hluti og Áslaug sagði mér frá miðilsfundum og draumum. Hún grínaðist stundum með að hún væri galdranorn, eftir á að hyggja hefur einhver alvara fylgt því gríni, vegna þess að hún var vön að færa píanó þeirra mæðgna reglulega milli herbergja í íbúðinni ein síns liðs (það var ekki á hjólum). Ég skildi aldrei hvernig í ósköpunum hún fór að því.

Ég mun sakna allra þeirra góðu samverustunda sem við áttum og verð ævinlega þakklátur fyrir alla hjálpina, samræðurnar, einkahúmorinn og hvatninguna.

Elsku Áslaug, ég vona að dvölin í Sumarlandinu verði þér sem allra best. Minning þín mun lifa með okkur sem vorum svo heppin að fá að kynnast þér.

Þinn vinur og tengdasonur,

Þorkell Ragnar Grétarsson.

Ég var 5 ára, Guðmundur, bróðir minn, 3ja ára; foreldrar okkar koma heim með þriðja barnið, systur okkar. Frá fyrstu sýn elskuðum við hana, reistum henni skjaldborg bróðurkærleika og aðdáunar; í spartneskri hetjusýn soldátans, sem sté fram og kvartaði undan í því við fylkingarforingjann að sverð hans væri of stutt. Svar foringjans var einfalt: „Stígðu skrefi framar.“

Börn fæðast saklaus – óspillt; þau kunna ekki skil á skálmöld heimsins, blóðstríði, svikum né undirferli. Það lærist með aldri og árum. Eðlisávísun okkar bræðra var frá upphafi að stíga skrefi framar fyrir systur okkar. Við slógumst um hana fram yfir þroskaárin, næst tvöfaldan varnarvegg í anda Caesars er hann barðist gegn Göllum 52 f.Kr – og hafði sigur. Caesar reit frásögn sína (De Bello Gallicum) í þriðju persónu og telst sú frásögn enn í dag meistaraverk í pólitískum áróðri. Ég las þessa bók 13 ára og skildi hana svo, að ég yrði að vernda systur mína. Við bræður stóðum einir gegn óþekktum óvinum. Báðir vildu gera betur. Ég minnist þess við slógumst heiftarlega í svefnherbergi foreldranna hvorum þætti vænna um hana og ætti meira tilkall til hennar. Við beittum hnúum og hnefum í þessu mikla Gallastríði, brutum t.d. forláta snyrtiborð móður minnar og rústuðum töfraspeglinum „le miroir élégant“ en enduðum bæði sekir og saklausir. Mömmu mislíkaði stórum, enda snyrtifræðingur – og rofin hin helgu vé. Hún lét þó kyrrt liggja. Skömmu síðar kom spegill. Mamma minntist aldrei framar á þessa orrustu. Hún skildi forsenduna, þetta var gott stríð og hún var stolt af okkur. Þetta vakti frumskilning minn á móður, konu og meyju. Ég var 12, Guðmundur 10 og systir okkar sjö ára.

Konan er ekki eykt heldur eilífð. Án hennar er ekkert. Móðir, systir, eiginkona, dóttir og ættmóðirin, amma.

Lífið er fæstum skemmtisigling né lognsævi. Lífið er stríð og stormar. Ósjaldan fellur voldug eik í fárviðri. Sefið hneigir sig undan stormi en rís á ný. Áslaug var sefið. Hún stóð af sér stormana og dansaði þess á milli lífsdansinn við undirleik sumarsólar andans og lífsgleði hjartans. Glitvefur lífsþroskans er óumræðilegur í fegurstu mynd. Kærleiksfaðmur. Leiðarljós í myrkrinu. Tungutakið einfalt en voldugt; barnamál bjartsýni, reynslu, skilnings, huggunar og kjarks. Hún hlustaði og hugsaði áður en hún talaði.

Sem eldist þú og eflist

að árum

æ sjaldnar sinnir eigin

sárum

þín augu gráta annarra

tárum.

(Ingimar Erlendur Sigurðsson)

Endurminningin merlar æ

í mánasilfri hvað sem var,

yfir hið liðna bregður blæ

blikandi fjarlægðar,

gleðina jafnar, sefar sorg;

svipþyrping

sækir þing

í sinnis hljóðri borg.

(Grímur Thomsen)

Og ég sem drykklangt drúpi

höfði yfir

dauðans ró,

hvort er ég heldur hann, sem

eftir lifir,

eða hinn, sem dó?

(Steinn Steinarr)

Haraldur G. Blöndal, María Aldís, börn og barnabörn.