Fagmaður frá Neskaupstað sér um síldina sem þykir algjört lostæti.
Fagmaður frá Neskaupstað sér um síldina sem þykir algjört lostæti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjávarfangið skipar mikilvægan sess bæði í aðdraganda jóla og yfir hátíðirnar allar og má segja að desember sé hálfgerð vetrarvertíð hjá fiskverslunum landsins. Það á einnig við um Hafið fiskverslun en þar rýkur út jólasíld, humarsúpa og reyktur og grafinn lax.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Jólavertíðn fer mjög vel af stað,“ segir Pétur Örn Pétursson hjá fiskversluninni Hafinu. Salan á jólasíldinni, humarsúpunni, graflaxinum og reykta laxinum hefur farið hraðar í gang nú en áður, útskýrir hann. „Það hefur verið mjög gott start í þessu og farið alveg á flug.“

Sem sérstakur áhugamaður um grafinn lax reynir blaðamaður að komast að því hvert leyndarmálið er á bak við góðan graflax. „Það er rétta uppskriftin, sem er leyndarmál Hafsins, rétta bragðið og ekki síst rétti tíminn. Hann má ekki vera of stutt eða of lengi grafinn. Svo er það kryddið sem gerir gæfumuninn. Þá má ekki gleyma punktinum yfir i-ið sem er graflaxsósa með nógu af dilli,“ svarar Pétur sem segir erfitt að lýsa aðferðinni sem annaðhvort list eða vísindum. „Þetta er góð blanda af hvoru tveggja. Það þarf að sinna hreinlæti og til að hafa vöruna upp á tíu þarf að gera allt með mikilli nákvæmni.“

Þegar kemur að jólasíldinni skiptir einnig máli að hafa allt á hreinu og býr Hafið yfir leynivopni að austan að sögn Péturs. „Bjarki Gunnarsson, verslunarstjórinn okkar í Hlíðarsmáranum, hann hefur séð um síldina fyrir okkur. Hann er frá Neskaupstað og hefur verið að garfa í þessu frá unga aldri, meðal annars unnið hjá Síldarvinnslunni.“

Humarsúpan er vinsæl að sögn Péturs, sem segir stoltur frá því að fjöldi lærðra matvinnlumanna starfi hjá fyrirtækinu. „Þau hafa unnið á flottustu stöðum bæjarins þannig að það er gífurleg reynsla í okkar herbúðum. Þetta er alveg einstök súpa sem er löguð af ást og umhyggju af matreiðslumönnum Hafsins. Það er allt gert frá grunni – sjóða humarsoðið, steikja grænmetið – þetta er mikið og langt ferli að baki humarsúpunni. Það er vandað til verka og það er það sem gerir hana svona góða.“

Töluvert magn

Um er að ræða töluvert magn sem viðskiptavinir fiskverslunarinnar kaupa. „Humarsúpan selst alltaf rosalega vel í desember. Þetta eru fimm til sex þúsund lítrar af súpu. Svo eru þetta nokkur tonn af reyktum laxi og graflaxi. Við erum þegar búin að grafa um þrjú tonn af laxi og desember er rétt að byrja og mun meira magn en var í fyrra,“ útskýrir Pétur.

Hafið

*Fiskverslunin var stofnuð árið 2006 af þeim Eyjólfi Pálssyni og Halldóri Halldórssyni. Fyrst um sinn eingöngu til húsa í Hlíðasmára 8 Kópavogi.

*Árið 2013 opnuðu þeir vinir annað útibú í Spönginni Grafarvogi.

*Heildverslun fyrirtækisins, fiskvinnsla og skrifstofur eru á bryggjunni á Fornubúðum 1 í Hafnarfirði.

*Hafið fiskverslun selur ferskan fisk til neytenda, mötuneyta, grunnskóla og annarra fiskverslana.