Hannes Hólm Hákonarson fæddist 31. október 1952 í Brekkukoti Reykholtsdal. Hann lést á Landspítalanum 23. nóvember 2021.

Foreldrar Hannesar voru Hákon Hólm Leifsson, f. 28. apríl 1931, d. 8. maí 1994, og Ingveldur Hannesdóttir, f. 13. des. 1932, d. 20. ágúst 2011.

Bræður Hannesar eru: Kristmundur, f. 1956, Leifur Ólafur, f. 1965, og Kristinn Sigurður, f. 1967.

Hinn 9. desember 1972 kvæntist Hannes Jóhönnu Margréti Guðlaugsdóttur, f. 1952. Börn þeirra eru: 1) Bára Konný, f. 1973, og á hún dæturnar Sorayu Yasmin, f. 2006, og Ariönu Selmu, f. 2010. 2) Heiðar Bragi, f. 1977, og á hann börnin Arnar Gauta, f. 2006, og Hildi Elvu, f. 2009. 3) Valdimar Hannes, f. 1981, og á hann Sölva Snæ, f. 2000, og Kára Stein, f. 2006.

Hannes var bifreiðastjóri alla tíð og rak sitt eigið fyrirtæki með sendibíla og hópferðabíla.

Útför fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Minn elsku eiginmaður og besti vinur er búinn að kveðja þennan heim eftir erfið veikindi og eftir situr sár söknuður. Efst í huga mér er þakklæti fyrir allar gleðistundirnar sem við áttum saman í gegnum lífið, alla umhyggjuna og ástina.

Minningar sem munu ylja mér um hjartarætur alla mína daga.

Sumir hverfa fljótt úr heimi hér

skrítið stundum hvernig lífið er,

eftir sitja margar minningar

þakklæti og trú.

Þegar eitthvað virðist þjaka mig

þarf ég bara að sitja og hugsa um þig,

þá er eins og losni úr læðing

lausnir öllu við.

Þó ég fái ekki að snerta þig

veit ég samt að þú ert hér

og ég veit þú munt elska mig

geyma mig og gæta hjá þér.

Og þó ég fengi ekki að þekkja þig

þú virðist alltaf getað huggað mig

það er eins og þú sért hjá mér

og leiðir mig um veg.

Þó ég fái ekki að snerta þig

veit ég samt að þú ert hér,

og ég veit að þú munt elska mig

geyma mig og gæta hjá þér.

Og þegar tími minn á jörðu hér,

liðinn er þá er ég burtu fer,

þá ég veit að þú munt vísa veg

og taka á móti mér.

(Ingibjörg Gunnarsd.)

Þín

Margrét.

Elsku pabbi. Ólýsanlegur söknuður og sorg fyllir hjarta mitt og ég trúi ekki að þú sért farinn. Þegar ég var lítil varstu alltaf í mínum augum stærstur og sterkastur af öllum, „pabbi getur allt“, sagði ég. Það breyttist í rauninni ekki mikið á fullorðinsárum. Þú varst einstaklega góðhjartaður, skilningsríkur, hjálpsamur og traustur pabbi og vinur. Líf þitt snerist um mömmu og okkur systkinin, þú vannst myrkranna á milli til að gefa okkur sem best líf en gleymdir samt aldrei að gefa þér líka tíma í að hafa gaman með okkur, kenna okkur lífsreglurnar, kyssa okkur og knúsa. Þú trúðir alltaf á mig og stóðst með mér í öllu því sem ég tók mér fyrir hendur jafnvel þó þú vissir að kannski væri betra að gera hlutinn öðruvísi því þú vissir að ég yrði að gera mistök og læra af þeim, að þessu mun ég búa alla ævi og reyna að miðla til minna barna. Þegar ég var lítil man ég alltaf eftir því hvað mér þótti vænt um hvað þið mamma voruð samrýnd og mikill kærleikur á milli ykkar, þið kvöddust alltaf með kossi þegar annað ykkar var að fara eitthvað og fram á þinn síðasta dag hefur þessi kærleikur og nánd haldist á milli ykkar. Það voru mikil lífsgæði og forréttindi að alast upp með foreldra eins og ykkur.

Þegar þú eignaðist barnabörnin var sama sagan, þú baðaðir þau í ást og umhyggju og tókst þátt í þeirra daglega lífi og tómstundum, enda varstu í þeirra augum „besti afi í heimi“. Ég mun að eilífu vera þér þakklát fyrir hvað þú varst yndislegur við dætur mínar, gekkst þeim að miklu leyti í föðurstað og varst alltaf til staðar fyrir þær. Við mæðgur vorum mikið með ykkur mömmu og þið hjálpuðuð mér óendanlega mikið með stelpurnar. Í dag er ég þakklát að eiga allar þessar minningar um allt það sem við gerðum saman, samtölin, sumarbústaðaferðirnar, matarboðin, ferðalögin, og alla hversdagslegu hlutina, heill banki af yndislegum minningum. Þú tjáðir þig kannski ekki mikið tilfinningalega en sýndir ást þína í gjörðum, varst alltaf mættur fyrstur á svæðið.

Það er ekki hægt að minnast þín án þess að tala um að þú varst handlaginn hvort sem það hafði með hluti eða bíla að gera og ekki fór það framhjá barnabörnunum þínum sem töldu alltaf best að hringja í afa ef eitthvað þurfti að laga. Þú undir þér þó best í sumarbústaðnum sem þið mamma áttuð og það eru ófáar minningar og listaverk sem hafa fengið að rísa þar, það síðasta var sólstofa sem þú dundaðir þér við í miðri lyfjameðferð og náðir næstum að klára. Þetta var þín afslöppun.

Elsku pabbi, sorgin að missa þig ristir óendanlega djúpt og tárin eru endalaus. Ég verð ævinlega þakklát að hafa átt þig sem pabba og mun hugsa til þín á hverjum degi. Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og börnin mín, allt það sem þú kenndir mér, ástina og umhyggjuna.

Elska þig alltaf.

Þín dóttir

Bára.

Elsku afi. Þú varst eins og pabbi okkar. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur og hjálpaðir okkur í gegnum svo margt. Hjörtun okkar eru brotin, við hugsum um þig á hverjum einasta degi og við munum ávallt minnast þín og segja öðrum fallegar minningar um þig. Takk fyrir að vera besti afi/pabbi í heiminum. Allt er svo tómlegt án þín og við trúum ekki að þú sért farinn. Við værum ekki þær manneskjur sem við erum í dag ef þú hefðir ekki verið til staðar. Við myndum gera allt til að fá að hitta þig aftur, knúsa þig og hlæja með þér. Vildum óska að þú hefðir getað verið hjá okkur lengur. Við munum varðveita minningu þína og segja börnunum okkar hvað langafi þeirra var góður afi.

Hvíldu í friði elsku afi og við elskum þig meira en allt.

Soraya Yasmin og Ariana Selma.

Elsku Hannes minn, það er erfitt að trúa því að þú sért farinn frá okkur allt of snemma. Ég ætla að hafa orð prestsins í huga og muna allar góðu og yndislegu minningarnar okkar saman. Hvernig ég frétti fyrst af þér var ansi skondið svo ekki sé meira sagt. Bréfið fræga frá vinkonunni sem hún sendi mér þegar ég var við vinnu í New York. Þá voru skrifuð sendibréf, engir GSM- símar í þá daga. Í bréfinu stóð að hún væri trúlofuð strák, næst kom fullt nafn sem mér fannst þvílíkt vel skáldað og að hann væri bílstjóri og keyrði út banana. Þetta var nú algjör lygasaga og ég trúði ekki orði af þessum skáldskap. Sendi snarlega svar til baka að ég vildi fá betri sögu í næsta bréfi. Reyndin varð nú önnur, heilagur sannleikur og ég varð að trúa öllu. Síðan var spennan mikil að hitta Hannes sem var búinn að stela vinkonunni frá mér. Ég hafði nú getað sleppt öllu stressi því alveg frá fyrstu stundu náðum við svo vel saman. Samverustundirnar eru yndislega margar í gegnum árin og þær hlýja manni inn að hjarta. Hannes var alltaf mjög duglegur og undi sér ekki öðruvísi en að vera að gera og græja, ekkert fyrir hangs. Það var alltaf gaman að koma í heimsókn í bústaðinn og sjá hvað hann var búinn að framkvæma. Hann ljómaði allur þegar hann sýndi okkur hvað var búið að gera og hvað átti að gera næst, næstu áform voru alltaf til staðar. Ég sagði oft við hann, farðu nú að slaka á og njóta en það passaði honum ekki. Takk fyrir allt. Ég vola ekki neitt meðan ég skrifa þetta því ég veit að þér líkar það ekki. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Þín vinkona,

Ingibjörg Þ.

Nú er komið að kveðjustund hjá okkur og besta vini okkar, Hannesi Hólm Hákonarsyni. Leiðir okkar og barnanna okkar hafa legið saman í hartnær 50 ár í gleði og sorg, svona eins og lífið hefur boðið upp á hverju sinni ásamt því að vinna og ferðast saman.

Mesta sameiginlega gleði okkar allra hlýtur þó að vera sú ákvörðun að hafa keypt okkur samliggjandi sumarbústaðarlönd fyrir 30 árum. Og það getum við svo sannarlega þakkað Hannesi sem tvínónaði aldrei við hlutina heldur framkvæmdi. Dag einn hringdi hann í Steina og sagðist vera búinn að taka frá tvær sumarbústaðarlóðir fyrir okkur, við höfðum jú oft talað um að gera þetta en nú var það orðið að veruleika og þær eru austur á Laugarvatni, sagði Hannes, við getum allavega farið og skoðað landið, það kostar ekkert. Og hvað gerðist; landið var skoðað, keypt, girt af og síðan byggt á því tveimur árum seinna. Svona var Hannes.

Þarna höfum við verið í sumarsælunni hverja stund sem gafst með okkar allra tryggustu vinum, Möggu og Hannesi.

Ekki hefur verið ónýtt að eiga svona stað í þessu covid-ástandi síðastliðið ár og mánuði. Þetta var mikið gæfuspor fyrir okkur öll, börnin og barnabörnin að geta komið í Sparikot og Sælukot til að leika og slaka á.

Og ekki má gleyma besta vininum honum Víkingi sem er varðhundurinn á staðnum en heldur sig vera aðalborinn og hegðar sér eftir því.

Elsku Hannes er búinn að vera mikið lasinn í sumar og haust en sagði samt alltaf ég hef það fínt, ef hann var spurður, sama hvernig honum leið.

Það er þyngra en tárum taki að sjá á eftir svo góðum vini, en við eigum minningar um góðar stundir þar sem við hlógum, töluðum, borðuðum saman eða bara vorum. Þessi tími er ómetanlegur.

En þó hann sé farinn eru enn til staðar Sparikot, Sælukot, Magga vinkona, Víkingur og allir hinir sem eiga þessa fallegu minningu um góðan dreng og stað þar sem verkin hans tala til manns hvar sem litið er í sveitinni.

Elsku Magga, Bára, Heiðar, Valdi og allir krakkarnir, megi guð og allar góðar vættir vera með ykkur. Við hjónin óskum vini okkar góðrar ferðar í sumarlandið.

Sjáumst seinna.

Margrét (Magga) og Steindór (Steini).