[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jólin eru tími hefða og því verða þau oft eins ár eftir ár. Einstaka sinnum gerist þó eitthvað sem veldur því að jólin verða sérstaklega eftirminnileg.

Jólin eru tími hefða og því verða þau oft eins ár eftir ár. Einstaka sinnum gerist þó eitthvað sem veldur því að jólin verða sérstaklega eftirminnileg. Jól í útlöndum og magaveiki, myglað laufabrauð, Jesús í Mjóddinni og erfiðar jólaseríur er það sem viðmælendur blaðsins minntust. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Jólin eru tími hefða og því verða þau oft eins ár eftir ár. Einstaka sinnum gerist þó eitthvað sem veldur því að jólin verða sérstaklega eftirminnileg. Jól í útlöndum og magaveiki, myglað laufabrauð, Jesús í Mjóddinni og erfiðar jólaseríur er það sem viðmælendur blaðsins minntust.

Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Gæs og myglað laufabrauð

Við fjölskyldan, Torfi maðurinn minn ásamt börnunum Helgu Kristínu og síðar Jónasi Má, bjuggum í Lundi í Svíþjóð á árunum 1993 til 2003 meðan við vorum bæði tvö í sérnámi og doktorsnámi í læknisfræði. Á þeim tíma var ekki eins sjálfsagt og auðvelt og nú að fara milli landa og koma heim um jól eða áramót. Eins var algengt að annað hvort okkar þyrfti að vera á vöktum um hátíðarnar,“ segir Alma Möller landlæknir og lýsir einum jólum í Svíþjóð fyrir margt löngu.

Hangikjöt og ómissandi laufabrauð

„Við héldum því jafnan jól í Svíþjóð en með þeim hefðum sem við þekktum að heiman. Þannig var gæs með öllu tilheyrandi á aðfangadagskvöld. Það var auðvelt að útvega góða gæs því í Suður-Svíþjóð er hátíð í nóvember þar sem borðuð er gæs og gæsablóðssúpa. Eftir að við fluttum aftur heim borðum við hins vegar rjúpur sem húsbóndi, sonur, tengdasonur og hundar afla með ærinni fyrirhöfn og tilkostnaði, en hvað um það. Á jóladag var að sjálfsögðu hangikjöt og með því, þar á meðal hið ómissandi laufabrauð og soðnar makkarónur í jafningi,“ segir Alma.

Öllum brögðum beitt

„Ég kann ekki söguna á bak við makkarónurnar en þekki til fleiri fjölskyldna sem kannast við slíkt, en væntanlega hefur jafningurinn einhvern tímann verið notaður til að drýgja kjötið. Við höfum gert því skóna að þetta hafi verið fyrsti pastarétturinn á Íslandi. Þetta er allavega einn minn uppáhaldsmatur,“ segir Alma og segir að oft hafi þurft að beita ýmsum brögðum en alltaf tókst að ná í hangikjöt, grænar baunir, malt, appelsín og annað sem þurfti.

„Laufabrauðskökur fengum við jafnan tilbúnar þannig að við bara skárum út og steiktum.“

Vænn stafli af dýrindis laufabrauði

„Hinn 25. nóvember 1996 fæddist Jónas okkar. Undirbúningur jólanna það ár var því seinni en ella. Laufabrauðið kom samt í byrjun desember og ég vissi ekki annað en það biði þolinmótt í frystinum. Það dróst svo fram á sjálfa Þorláksmessu að skera út og steikja en þegar til átti að taka kom í ljós að húsbóndinn hafði sett kökurnar í ísskáp en ekki frysti og þær höfðu myglað. Nú voru góð ráð dýr. Hringt var í Jónu systur mína, sem er með svart belti í laufabrauðsgerð. Hún gaf uppskrift og leiðbeindi nákvæmlega um hvert skref. Svo fór Þorláksmessukvöld í að hnoða í laufabrauð, fletja, skera út og steikja. Þetta er eins og margir vita svolítið fyrirtæki en gekk allt vel og þegar komið var vel fram yfir miðnætti vorum við komin með vænan stafla af sérlega vel heppnuðu laufabrauði,“ segir hún og var að vonum ánægð með afraksturinn.

Dásamleg og ísköld jól

„Það er minnisstætt að mikið frost var í Suður-Svíþjóð um þetta leyti, mínus 25-30 gráður, og því fremur kalt í eldhúsinu á meðan við steiktum laufabrauðið með opið út í garð,“ segir Alma.

„Þessi jól voru dásamleg, við Torfi kúrðum heima með Helgu fjögurra ára og Jónas nýfæddan milli þess sem allur þessi góði matur var borðaður. Ég minnist líka gönguferða í kuldanum með barnavagninn, ekki síst á jóladag, það var einstaklega fallegur dagur, mikið frost og trén hrímuð. Þá vígði Helga fyrstu skíðin sem hún fékk í jólagjöf,“ segir Alma að lokum og vill óska öllum gleðilegra jóla.

Jólaserían og heilafrost

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður Farsóttarhúsa, átti heldur betur óvenjuleg jól aldamótaárið 2000.

Jólaljósin skyldu upp!

„Þetta áttu að vera jól ljóss og friðar, svo heimilisfaðirinn skellti sér í betri brækurnar og skundaði í verslun til að kaupa jólaljós sem setja ætti utan á húsið. Ég var í seinna fallinu, komið vel fram í desember og úti var frost og kalt. Í versluninni var bóngóður starfsmaður tilbúinn að ráðleggja þessum unga föður hvaða ljós væru best og hvernig væri best að festa þau í þakskeggið svo þau myndu nú ekki sveiflast til í köldum desembervindinum. Stoltur af eigin frumkvæði og spenntur yfir því að sjá í andlitum barna minna sanna gleði yfir fallega skreyttu húsi hélt ég heim á leið og byrjaði að skrúfa inn krækjur í þakskeggið umhverfis húsið. Vindurinn blés, það var myrkur og það var ískyggilega kalt, en upp skyldu ljósin,“ segir Gylfi og var fljótt farinn að sjá eftir þessu.

Hélaður af snjó

„Eftir nokkra klukkutíma í mannskaðakulda og trekki hugsaði ég með mér að ég hefði aldrei átt að kaupa svona stórt hús; serían, sem var 60 metrar að lengd, þurfti ansi marga króka til að haldast uppi og kuldinn náði inn að beini. Rétt upp úr miðnætti voru þó allir krókar komnir á sinn stað og þá fannst mér sem eftirleikurinn yrði auðveldur. Seríurnar voru þá teknar úr kössunum og byrjað að þræða þær upp í þakskeggið og var þetta mikið vesen; snúrurnar langar og myrkrið algert. Ég steig á tvær perur sem sprungu undan þunga mínum, sem þarna var orðinn töluvert meiri en venjulega sökum þess hversu hélaður ég var af snjó og frosti. Upp skyldi þetta bölvaða drasl sem enginn hafði beðið um. Krakkarnir voru miklu frekar að spá í hvað jólasveinninn myndi gefa þeim í skóinn, sem ég í þessu bölvaða bjartsýniskasti hafði alveg gleymt að hugsa út í,“ segir Gylfi.

Borað í höfuðkúpuna

„Ég var orðin pirraður, kaldur og fúll út í sjálfan mig, bæði fyrir að hafa dottið það í hug að einhverjum þætti fallegt að vera með perur hangandi á húsinu og ekki síst vegna þess að nú þurfti ég að fara á bensínstöð sem var opin allan sólarhringinn með frosið skottið á milli lappanna til að kaupa í skóinn fyrir börnin. Loksins eftir sex tíma bras komst serían upp, skellt í samband – en engin ljós kviknuðu. Fleiri en tvær perur höfðu brotnað í látunum morguninn eftir. Mætti ég úrillur, ósofinn og orðinn fárveikur eftir þrældóm næturinnar í verslunina og tók ekki undir kveðju bóngóða afgreiðslumannsins, sem í mínum bókum vissi ekkert hvað hann var að tala um miðað við alla þá vinnu sem ráðleggingar hans höfðu kostað mig. Hrifsaði ég af honum perurnar og þegar hann kallaði á eftir mér „gleðileg jól“ muldraði ég fyrir munni mér orð sem ekkert hafa með jólaandann að gera. Tveimur dögum síðar var ég kominn upp á spítala með stíflaðar ennis- og kinnbeinsholur, og það svo rosalega að mín beið aðgerð. Borað var í höfuðkúpuna við augabrún til að dæla út stíflunni og þurfti læknirinn að sprauta vatni inn um rör í höfðinu á mér en gleymdi að hita það svo ískalt vatnið sló mig út í þó nokkurn tíma. Alvöru „brain freeze“ þar. Vaknaði ég síðar með fullt af fólki yfir mér og adrenalín í æð og var á spítala í viku. Ljósin lifðu og þegar ég var loksins kominn heim nokkrum dögum fyrir jól kom jólaskapið aftur, og ég hugsaði: Mikið er þetta fallegt hús og gaman að sjá ljósin lýsa upp skammdegið! Þar til klukkan sló sex, það var eins og við manninn mælt: Serían dó.“

Jesús í Mjóddinni

Davíð Már Stefánsson handritshöfundur lumaði heldur betur á óvenjulegri jólasögu.

Með bumbu og tagl

„Það var fyrir einhverjum árum að ég var á leiðinni til foreldra minna á aðfangadag. Þau búa í Breiðholti, færðin var þung og ég átti eftir að kaupa einn pakka. Þannig að ég stoppaði í Mjódd. Í versta falli fyndi ég eitthvað í Nettó. Mig rak í rogastans þegar ég kom inn um ryðgaða rennihurðina. Þessi perla Reykjavíkur, sem er yfirleitt iðandi af lífi, var gjörsamlega tóm. Ég var eins og Palli sem var einn í heiminum. Búðirnar voru allar lokaðar og ég liðaðist hugsi um tandurhreina göngugötuna eins og eini eftirlifandi heimsendis. Og þá sá ég hann. Eina manninn í Mjóddinni fyrir utan sjálfan mig. Hann var með bás í göngugötunni að selja handverk. Ég kannaðist svo rosalega við hann en gat ómögulega komið honum fyrir mig. Hann var með bumbu og tagl. Svolítið sveittur á að líta. Ég gekk varlega nær og bauð manninum góðan daginn. Þegar hann bauð mér góðan daginn til baka, þá rann upp fyrir mér hvaðan ég þekkti hann. Hann var hvorki fúlskeggjaður né í kufli, hann var með undirhöku og í Rammstein-bol. Þetta var Jesús.“

Einhver mosagrár klumpur

„Ég hef aldrei verið neitt sérlega trúaður maður, þó ég hafi aldrei verið tilbúinn að afneita tilvist æðri máttarvalda með öllu. Enda er slíkt trúleysi ekkert nema óvísindaleg trúarbrögð út af fyrir sig. En það er önnur saga,“ segir Davíð.

„Og þarna var hann. Guð í mannsmynd. Sá messías sem Gamla testamentið sagði fyrir um. Ég sagði við hann að mér þætti hann harðduglegur að vinna svona langt fram á aðfangadagskvöld. Hann þakkaði fyrir það og sagði mér að hann ætti meira að segja afmæli á miðnætti. Því næst keypti ég af honum handverk. Þetta var einhver mosagrár klumpur sem ég held að hafi átt að vera skál. Á meðan Jesús var að pakka inn ljóta handverkinu tók ég eftir því hvað það var vond lykt af honum. Brennivín og harðfiskur. Ég velti því fyrir mér um stund hvort hann væri of upptekinn til að fara í sturtu. Eða kannski var hann nýbúinn að breyta vatni í vín. Svo voru að sjálfsögðu nokkrir lærisveinar hans fiskimenn.

Sjö þúsund krónur takk. Fyrir ljóta skál sem ég hefði getað gert í myndmennt í Breiðholtsskóla þegar ég var sex ára. En það var ekkert annað opið. Þannig að ég þakkaði fyrir mig og hélt heim til foreldra minna.“

Handverkið hans er drasl

„Það kom í hlut móður minnar að opna pakkann frá Jesú. Skálin hafði brotnað í þúsund mola sem í spegluðust vonsvikin augu móður minnar. Ég vildi ekki viðurkenna að ég hefði keypt gjöfina í göngugötunni í Mjódd á leiðinni til þeirra, þannig að ég laug að ég hefði búið skálina til sjálfur. Þá myndi mamma allavega ekki kunna við að segja að hún væri ljót. Hún brosti því óeinlægt og sagði að það væri hugurinn sem gilti,“ segir hann.

„Daginn eftir fór ég aftur í Mjóddina til að skila gjöfinni. En þar var enginn. Ég strunsaði göngugötuna fram og aftur en allir handverksbásarnir voru galtómir. Ef það má draga einhvern lærdóm af þessari lífsreynslu minni, þá er hann sá að ef þið sjáið Jesú í göngugötunni í Mjódd, þá skuluð þið ekki versla við hann. Handverkið sem hann er að selja er algjört drasl.“

Lék jólasvein á suðurpólnum

Aldrei hefði mig grunað hvað íslandið í suðri, sjálft suðurskautið, ætti eftir að leika stórt hlutverk í mínu jólahaldi sem fullorðin manneskja. Sjálf hef ég eytt tvennum jólum á ísnum og maðurinn minn, Ales, er þar nú sín þriðju jól,“ segir Vilborg Arna Gissurardóttir pólfari og ævintýramaður með meiru.

Ekki einmana á ísbreiðunni

Vilborg rifjar upp fyrri jól sín á suðurskautinu.

„Þótt ég hafi verið alein á ísbreiðunni var upplifunin langt frá því að vera einmanaleg. Ég var búin að vera á ferðinni í fimm vikur og færið var þungt og erfitt. Auðvitað hafði ég stundum orðið leið þegar ég vissi af fjölskyldunni eða vinum hittast fyrir jól að spila og gæða sér á gómsætum veitingum á meðan ég streðaði á móti vindinum. En ég hafði undirbúið jólin vel, tekið með mér smávegis góðgæti að heiman eins Búra-ost, þurrpylsur frá SS, malt og appelsín og eitthvað fleira. Tollurinn hafði reyndar tekið mest af íslenska góðgætinu en sást yfir nokkra bita og þeir voru sparaðir til hátíðanna.“

Hélt að hann heyrði raddir

Á undan mér á ísbreiðunni var maður að nafni Aron sem kom frá hinni sólríku Kaliforníu. Veðurvani Íslendingurinn ferðaðist aðeins hraðar yfir og nú var komin sú stund að ég myndi ná honum. Ég hafði verið að velta því fyrir mér hvort ég myndi hitta hann og heilsa eða leggja lykkju á leið mína til að forðast samskipti. Ég vissi ekkert hvort hann myndi vilja hitta mig á annað borð,“ segir hún.

„Klukkan var akkúrat sex á aðfangadag þegar ég kom auga á hann. Allt í einu var þetta engin spurning og ég skíðaði beinustu leið að tjaldinu hans. „Aaaarooon!“ gólaði ég upp í vindinn en hann heyrði ekkert. Ég hélt áfram eins og ég ætti lífið að leysa en alltaf gleypti vindurinn orðin mín. Þegar ég var komin alveg upp að tjaldinu rann á mig stríðnispúki og ég gala í gegnum örþunnan tjaldvegginn: „Ho, ho, ho, this is Santa.“ Aron stóð ekki á sama, honum snarbrá og hélt hann væri farinn að heyra raddir. Fyrst gerðist ekkert og ég sá svolítið eftir grikknum og kallaði mjóróma: „Aron, this is Villa.“

Jólatjaldbúðir og hreindýrakássa

„Hægt og rólega renndi hann niður rennilásnum og kíkti út. Svo fór hann að hlæja og við tókum tal saman. Við höfðum svo sannarlega um mikið að tala því það eru fáir sem geta skilið svona ferðalag nema ganga í gegnum það sjálfir. Og þarna vorum við inni í miðri baráttu okkar í mismunandi leiðöngrum á sömu slóðum, þekktumst ekki neitt en verðum alltaf tengd vegnar þessarar upplifunar og magnaðrar stundar,“ segir Vilborg.

„Eftir dágóða stund var kominn tími á mig að halda áfram, við kvöddumst og ég skíðaði góðan spöl áður en ég sló upp jólatjaldbúðum. Þetta kvöld gerði ég vel við mig með dýrindis hreindýrakássu, malti og appelsíni, smá „trít“ og símtöl heim í gegnum gervihnattasímann sem var jafnframt stútfullur af jóla-sms-um. Ég var svo sannarlega ekki ein í heiminum þótt ég væri ein í tjaldinu á ísbreiðunni.“

Fékk rómantíska flugu í hausinn

Þau eru eftirminnileg jólin 2014 þegar ég og konan mín vorum með fjölskyldunni hennar í New York yfir jólin,“ segir leikarinn Aron Már Ólafsson og rifjar upp aðfangadag í stórborginni.

Pulsa í jólamatinn

„Þetta voru fyrstu jólin okkar Hildar saman. Á aðfangadag var búið að panta borð fyrir alla í fimm rétta galakvöldverð í Rockefeller center. Ég fæ þá rómantíska flugu í hausinn; að sleppa þessum kvöldverði, leigja okkur hjól og hjóla um Central Park og fá okkur bara eina pulsu í alvöru New York-pulsuvagni. Við gerðum það og hjóluðum um garðinn, fórum á skauta, horfðum á götulistamenn leika listir sínar og fengum okkur loks pulsu í jólamatinn,“ segir Aron og segir fjölskyldu konunnar ekki hafa verið sérlega ánægða með þessa ákvörðun hjá turtildúfunum.

Bullandi magakveisa

„Þau voru smá fúl enda fengum við þessa hugmynd á síðustu stundu og beiluðum. En konan mín var meira en til í þetta. Við nenntum ekki stífu prógrammi í þessum kvöldverði,“ segir hann og aðspurður segist hann hafa viljað hafa jólin eins og gjarnan sést í kvikmyndum.

„Við vildum pakka saman öllum jólabíómyndum sem hafa gerst í New York og búa til úr þeim okkar eigin jól,“ segir Aron og hlær.

„En svo fengum við matareitrun eftir pulsuátið og vorum með bullandi magakveisu í marga daga á eftir, rúmliggjandi inni á hóteli. En fyrir utan matareitrunina var þetta æðislegur dagur.“