Sovétríkin hrundu án þess að til vopnaðra átaka kæmi eða mannskæðra uppþota. Nú á 30 ára afmæli sovéska hrunsins minnir ástandið á það sem var í Kúbudeilunni.

Þess er nú minnst að 30 ár eru frá því að Sovétríkin urðu að engu. Upplausn ríkisins hófst árið 1988 þegar stjórnvöld í Eistlandi lýstu lýðveldið sjálfstætt innan sovéska sambandsríkisins. Litháar urðu hins vegar fyrstir til að segja skilið við Sovétríkin og lýsa yfir sjálfstæði 11. mars 1990.

Aðskilnaður Eystrasaltsríkjanna frá Sovétríkjunum hlaut viðurkenningu í september 1991. Síðan kom Belovezha-samningurinn 6. desember 1991. Með honum samþykktu Boris Jeltsin, forseti SFSR, Sovéska sósíalíska sambandsríkisins Rússlands, Leonid Kravtsjuk, forseti Úkraínu, og Stanislav Shushkevitsj, flokksformaður í Hvíta-Rússlandi, að koma á fót Samveldi sjálfstæðra ríkja (CIS) í stað Sovétríkjanna.

Öll fráfarandi lýðveldi Sovétríkjanna gengu í samveldið nema Eystrasaltsríkin og Georgía. Var Samveldi sjálfstæðra ríkja formlega stofnað með Alma-Ata-skjalinu 21. desember 1990. Í því voru Armenía, Azerbaijan, Hvíta-Rússland, Kazakhstan, Kirghizstan, Moldavía, Rússland, Tajikistan, Turkmenistan, Ukraína og Uzbekistan. Georgia gekk í samveldið 1993.

Mikhaíl Gorbatsjov, forseti Sovétríkjanna, sagði af sér 25. desember 1991 og fól Boris Jeltsín forsetavaldið ásamt lyklum að sovéskum kjarnorkuvopnum. Jeltsín varð þá forseti Rússneska sambandsríkisins. Að kvöldi sama dags var rauður fáni Sovétríkjanna dreginn niður á Kremlarkastala og að húni var dreginn þrílitur fáni Rússlands. Sovéska þingið staðfesti 26. desember 1991 sjálfstæði fyrrverandi sovésku lýðveldanna og Sovétríkin voru formlega úr sögunni. Kalda stríðinu var endanlega lokið.

Úkraína sagði skilið við stofnanir Samveldis sjálfstæðra ríkja árið 2018. Eystrasaltsríkin þrjú eru nú í NATO og Evrópusambandinu (ESB). Stjórnvöld Úkraínu, Georgíu og Moldavíu hafa lýst áhuga á að sigla í kjölfar Eystrasaltsríkjanna við mikla reiði ráðamanna í Moskvu.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti réðst inn í Georgíu árið 2008, lagði undir sig hluta Úkraínu árið 2014 og mikil togstreita er í Moldavíu vegna ítaka Rússa þar. Pútin og félagar eru í nánum samskiptum við ráðamenn Serbíu og stunda undirróður og óvinafagnað í ríkjum á Balkanskaga sem áður lutu stjórn Títós einræðisherra í Júgóslavíu.

Nágrannaþjóðir Rússa og Hvítrússa óttast valdabrölt og ögranir stjórnvalda landanna. Vegna NATO- og ESB-aðildar eiga Eystrasaltsþjóðirnar staðfasta bandamenn sem hafa skuldbundið sig með samningum og herafla til að leggja þeim lið á hættustund. Sama verður ekki sagt um Úkraínumenn sem sjá allt að 175.000 rússneska hermenn við landamæri sín og grunar að Pútin sendi þá gegn sér í upphafi næsta árs eða jafnvel fyrr. Frosin jörð auðveldar þungum vígdrekum að sækja fram á sléttunum.

Í byrjun vikunnar birtist hér í blaðinu grein eftir Carl Bildt, fyrrv. ráðherra í Svíþjóð. Þar dregur hann upp þá skuggalegu mynd að samtímis eða um svipað leyti gefi þeir fyrirmæli um hernað, Valdimir Pútin gegn Úkraínu og Xi Jinping Kínaforseti gegn Taívan. Báðir telja sig hafa ástæðu til valdbeitingar, Pútin til að halda Úkraínu á áhrifasvæði sínu og Xi til að tryggja framgang stefnunnar um eitt ríki – tvö kerfi.

Þegar Pútin komst til valda árið 2000 var óttinn við NATO ekki efstur á blaði í áróðri hans eins og nú. Stofnað hafði verið til samstarfs Rússa og NATO. Því var ekki slitið fyrr en nú fyrir skömmu.

Við brottför bandaríska varnarliðsins héðan árið 2006 svöruðu Bandaríkjamenn ábendingum um að viðbúnaður hér hefði gildi vegna Rússa á Norður-Atlantshafi á þann veg að kvíði af þessum sökum væri ástæðulaus: Rússar væru bandamenn NATO-þjóðanna og floti þeirra í rúst eins og ríkið sjálft.

Leiðtogar NATO-ríkjanna gáfu árið 2008 grænt ljós á aðild Georgíu og Úkraínu að bandalaginu án nokkurra tímasetninga. Pútin telur sig eiga að ákveða hvar ríkin skipa sér en hvorki stjórnendur þeirra né NATO. Rússar hafa þó ekkert neitunarvald um þetta efni.

Pútin hefur hvað eftir annað látið reyna á hve langt hann kemst. Honum líðst að herða tök á eigin þjóð með fangelsun andstæðinga sinna og takmörkunum á skoðana- og tjáningarfrelsi. Hann lætur nú reyna á staðfestu nýrrar ríkisstjórnar í Þýskalandi samhliða áreiti í garð Bandaríkjastjórnar og NATO.

Evrópuþjóðir eru háðar jarðgasi frá Rússlandi. Þegar utanríkisráðherrarnir Antony Blinken og Seigeij Lavror hittust hér í Hörpu í maí 2021 féll Blinken frá andstöðu við nýja rússneska gasleiðslu til Þýskalands, Nord Stream 2.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði við Pútin á fjarfundi 7. desember 2021 að stjórn sín gæti enn stöðvað Nord Stream 2. Þá mætti enn herða efnahagslegar refsiaðgerðir. Rússum kann að verða bannað að nota staðlaða samskiptakerfið SWIFT til alþjóðlegra færslna á milli banka.

Berlínarmúrin og Sovétríkin hrundu án þess að til vopnaðra átaka kæmi eða mannskæðra uppþota. Nú á 30 ára afmæli sovéska hrunsins minnir ástandið á það sem var í Kúbudeilunni fyrir tæpum 60 árum þegar spenna magnaðist vegna sovéskra kjarnaflauga á Kúbu í óþökk Bandaríkjastjórnar. Hvað gerist næst? spurðu menn með öndina í hálsinum. Deilan leystist friðsamlega á ögurstund og til varð samskiptakerfi milli austurs og vesturs sem stuðlaði að trausti og stöðugleika þrátt fyrir ágreining.

Hvað gerist næst? spyrja menn og líta til Pútins og liðsafla hans. Óvissan ein veldur kvíða og hættu – meiri en nokkru sinni undanfarin 30 ár.

Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is

Höf.: Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is