Dimebag Darrell var aðeins 38 ára þegar hann lést.
Dimebag Darrell var aðeins 38 ára þegar hann lést. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Næturklúbburinn The Alrosa Villa í Columbus, Ohio, hefur nú verið rifinn, sautján árum eftir að goðsögn í málmheimum, Dimebag Darrell Abbott, oftast kenndur við Pantera, var myrtur þar á sviðinu á miðjum tónleikum með nýju bandi sínu, Damageplan.

Næturklúbburinn The Alrosa Villa í Columbus, Ohio, hefur nú verið rifinn, sautján árum eftir að goðsögn í málmheimum, Dimebag Darrell Abbott, oftast kenndur við Pantera, var myrtur þar á sviðinu á miðjum tónleikum með nýju bandi sínu, Damageplan. Áform eru um að reisa fjölbýlishús á reitnum. Þar með er lokið tæplega hálfrar aldar sögu um tónleikahald en meðal banda sem tróðu á sinni tíð upp á The Alrosa Villa má nefna Slipknot, Korn, Buckcherry og Quiet Riot. Auk þess að bæta við íbúðaframboðið á svæðinu hefur verktakinn, Sinclair Apartments, skuldbundið sig til að hressa upp á götumyndina.

Flestum málmkunnugum er í fersku minni fréttin um morðið á Dimebag sem féll ásamt þremur öðrum fyrir hendi 25 ára gamals manns, Nathans Gales, á miðjum tónleikum 8. desember 2004. Gale var fyrrverandi hermaður í sjóher Bandaríkjanna og ruddist óvænt inn á tónleikana og hóf skothríð uppi á sviðinu með fyrrgreindum afleiðingum. Hann mun hafa klifrað yfir girðingu fyrir utan staðinn og brotið sér leið gegnum kjaftfullan salinn áður en hann fór upp á sviðið fyrir aftan stafla af mögnurum. Hann skaut Dimebag í höfuðið og hóf síðan skothríð á þá sem reyndu að skipta sér af honum. Gale var sjálfur skotinn til bana af lögreglumanninum James D. Niggemeyer sem fyrstur brást við útkalli vegna skothríðarinnar á The Alrosa Villa.

Aðrir sem létust í árásinni voru Jeffrey Thompson, rótari hjá Damageplan, Erin Halk, öryggisvörður á staðnum og tónleikagesturinn Nathan Bray. Christopher Paluska, umboðsmaður Damageplan, og John Brooks, tæknimaður bandsins, særðust báðir. Þegar Niggemeyer skaut Gale hélt hann byssu sinni að höfði Brooks.

Einhverjir sjónarvottar sögðu Gale hafa haft Dimebag og bróður hans, Vinnie Paul, trommuleikara Damageplan, í sigtinu og vangaveltur voru um að honum hefði verið í nöp við þá eftir að Pantera leystist upp tveimur árum áður. Ekkert slíkt fékkst þó staðfest við vitnaleiðslur og lögreglan í Columbus lokaði rannsókninni ári síðar. Fyrir liggur þó að Gale hafði glímt við andlega vanheilsu um tíma.

Mörgum harmdauði

Dimebag var mörgum harmdauði enda ekki aðeins óvenjulega fær og framsækinn tónlistarmaður, heldur ekki síður drengur góður og virtur og dáður langt út fyrir málmheima. Pantera er eitt af allra stærstu nöfnunum í málmsögunni og kyndilberar grúvmálmstefnunnar sem reis hæst á tíunda áratugi síðustu aldar. Nægir í því sambandi að nefna breiðskífur á borð við Cowboys from Hell, Vulgar Display of Power og The Great Southern Trendkill.

Vinnie Paul höfðaði mál á hendur eigendum The Alrosa Villa á grundvelli vanrækslu við öryggisgæslu en málinu lauk með sátt árið 2007 og hermt er að um lága fjárhæð hafi verið að ræða.

„Það sem átti sér stað hér 8. desember 2004 var harmleikur fyrir okkur öll og hugur okkar er hjá fórnarlömbunum og ástvinum þeirra,“ sagði Rick Cautela, þáverandi eigandi The Alrosa Villa, í tilefni af lögsókninni. „Það var ekkert sem við gátum gert til að koma í veg fyrir þetta.“ orri@mbl.is