Alþingi Umsagnir við fjárlagafrumvarp næsta árs, bandormsfrumvörp og fjármálastefnu til ársins 2026 streyma inn til þingsins þessa dagana.
Alþingi Umsagnir við fjárlagafrumvarp næsta árs, bandormsfrumvörp og fjármálastefnu til ársins 2026 streyma inn til þingsins þessa dagana. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Heildarsamtök launafólks gagnrýna fjölmarga þætti fjárlagafrumvarps næsta árs í umsögnum til Alþingis. Í umsögn ASÍ segir að hætta sé á að stefna í ríkisfjármálum skapi ekki grundvöll fyrir stöðugleika á vinnumarkaði.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Heildarsamtök launafólks gagnrýna fjölmarga þætti fjárlagafrumvarps næsta árs í umsögnum til Alþingis. Í umsögn ASÍ segir að hætta sé á að stefna í ríkisfjármálum skapi ekki grundvöll fyrir stöðugleika á vinnumarkaði. Brýnt sé að ráðist verði í stórátak í húsnæðismálum og að velferð og félagslegur stöðugleiki verði ekki notuð sem hagstjórnartæki.

„Boðaðar breytingar á barnabótakerfi munu að óbreyttu lækka barnabætur meirihluta barna sem skýrist af þeirri stefnu að kerfið sé eingöngu stuðningur til hinna allra tekjulægstu,“ segir í umsögninni, sem hagfræðingar ASÍ hafa sent þinginu.

Þá er sagt ásættanlegt að skera niður nauðsynlegar fjárfestingar til að mæta tímabundnum sveiflum í hagkerfinu og fjallað er ítarlega um það nýmæli að persónuafsláttur og þrepamörk tekjuskatts séu hækkuð með tilliti til verðbólgu að viðbættri langtímaaukningu á framleiðni. Bendir ASÍ á að persónuafsláttur og þrepamörk tekjuskatts þurfi að hækka til jafns við laun. Að öðrum kosti þyngist skattbyrði. Skattbyrðin aukist hlutfallslega mest hjá þeim sem eru nálægt tilteknum þrepamörkum, t.d. nálægt skattleysismörkum.

Þá er sérstaklega gagnrýnt að ef boðaðar breytingar á barnabótum nái fram að ganga verði þær til þess að barnabætur með flestum börnum rýrna. Vegna hækkunar á skerðingarhlutföllum verði tekjuhærri foreldrar fyrir raunlækkun barnabóta. Einnig megi sjá að ef breytingar eru skoðaðar miðað við ólíkan fjölda barna komi í ljós að barnabætur einstæðra foreldra með tekjur yfir 600-750 þúsund kr. rýrni og sama gerist hjá sambýlisfólki með tekjur yfir 1.125-1.275 þúsund kr.

„Mikilvægt er að skoða breytingar með það í huga hvar börn búa m.t.t. tekjudreifingar. Um 60-70% barna einstæðra foreldra búa á heimilum með tekjur innan við 600-750 þúsund. Hjá sambúðarfólki búa 30-40% barna á heimilum með tekjur innan við 1.125-1.275 þúsund kr. [...]. Það gefur sterklega til kynna að barnabætur með flestum börnum muni rýrna á næsta ári.“ ASÍ gagnrýnir einnig að bætur almanna- og atvinnuleysistrygginga haldi ekki í við launaþróun.

Stöðnun í stað sóknar

Í ítarlegri umsögn BSRB er lýst áhyggjum af því að fjárlagfrumvarpið boði stöðnun í stað kraftmikillar sóknar til að vaxa út úr vandanum. Þrátt fyrir vaxandi eignaójöfnuð sé ekki gert ráð fyrir skattlagningu fjármagns og eigna eða frekari gjaldtöku vegna auðlindanotkunar, hvorki í fjárlagafrumvarpinu né fjármálastefnunni. „Engin breyting er boðuð á framlögum til almenna íbúðakerfisins þrátt fyrir að leigjendur séu sá hópur sem er líklegastur til að vera með íþyngjandi húsnæðiskostnað, sérstaklega einstæðir foreldrar,“ segir m.a. í umsögn BSRB, sem segir einnig að hækkun elli- og örorkulífeyris dragi ekki úr þeirri kjaragliðnun sem átt hafi sér stað á kjörtímabilinu. Lengja þurfi bótatímabil atvinnuleysisbóta, hækka atvinnuleysisbætur og framlengja tímabundnu hækkunina á bótum vegna barna á framfæri atvinnuleitenda og vinnumarkaðsúrræði á borð við Hefjum störf.

Auka þarf verulega framlög til heilbrigðiskerfisins

Framlög til heilbrigðiskerfisins voru marktækt lægri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum á áratugnum 2010 til 2019 að því er segir í umsögn BHM, sem kallar eftir því að stjórnvöld auki verulega þessi framlög. „Barnabætur geta enn varla talist annað en fátæktarstyrkur. Sé miðað við hjón á meðaltekjum aðildarfélaga BHM, annað í fullu starfi og hitt í hálfu starfi, má sjá að réttur þeirra til barnabóta er enginn,“ segir m.a. í ítarlegri umsögn BHM.

Vilja fá 300 milljóna kr. viðbót

SÁÁ þarf að fá 300 milljóna kr. viðbótarframlag í fjárlagafrumvarpi næsta árs fyrir innlagnir á Vog og lyfjameðferð við ópíóðafíkn. Um þessar mundir eru um 600 manns á bið eftir að komast á Vog.

Þetta kemur fram í umsögn SÁÁ við fjárlagafrumvarp ársins 2022. „Við höfum miklar áhyggjur af fjárlagafrumvarpinu þar sem vantar upp á framlög til SÁÁ. Fólki með fíknsjúkdóm er ekki tryggð heilbrigðisþjónusta sem það á rétt á og nauðsynlega þarf og biður um. SÁÁ veitir sjálfsagða heilbrigðisþjónustu af söfnunarfé, sem ríkið ætti að greiða. Það verður að leiðrétta,“ segir þar enn fremur. Fram kemur að vegna áhrifa faraldurs kórónuveirunnar gat SÁÁ ekki treyst á fjáraflanir og á árinu 2020 gat SÁÁ sinnt 455 færri innlögnum, hundruð einstaklinga hafi farið á mis við þá lögbundnu heilbrigðisþjónustu sem þeir eigi rétt á.

Sóknir komnar að fótum fram

• Skerðing talin 19 milljarðar á 14 árum „Sóknargjaldið skal með öðrum orðum skert verulega fjórtánda árið í röð og raunar að þessu sinni lækkað um 8,8% milli ára eða úr 1.080 kr. á mánuði í 985 kr.,“ segir í gagnrýninni umsögn Biskupsstofu við fjárlagafrumvarpið sem send hefur verið til Alþingis.

Þar segir að áfram eigi að ganga í sjóði trúfélaganna með því að skerða með valdboði lögmæt félagsgjöld þeirra. Þau verði því enn eitt árið fyrir fordæmalausu tekjufalli þar sem tekjurnar verði nú aðeins um 51% af því sem vera ætti skv. lögum.

„Alls nemur uppsöfnuð skerðing sóknargjaldsins á þessum 14 árum 19,05 milljörðum kr. ef fyrirliggjandi fjárlagatillaga fyrir árið 2022 verður samþykkt,“ segir í umsögn Biskupsstofu.

Fá varla lán í bönkum

Þá segir að margar sóknir séu komnar að fótum fram fjárhagslega og lítið eða ekkert viðhald verið á mörgum kirkjum og safnaðarheimilum í rúman áratug, þannig að víða séu komin upp gríðarleg vandamál vegna leka, myglu o.fl.

„Og nú er jafnvel svo komið, að sóknirnar fá varla lán eða aðra fyrirgreiðslu, eins og t.d. skuldbreytingar, í viðskiptabönkunum þar sem söfnuðirnir teljast ekki lengur traustir viðskiptamenn vegna bágs fjárhags.“

Skil ríkisins á innheimtum sóknargjöldum hafi verið skorin þannig niður, að ríkið standi trúfélögunum aðeins skil á rétt rúmlega helmingi þeirra sóknargjalda sem innheimt eru.

Farið ófrjálsri hendi um sjóði

„Sumir vildu jafnvel taka sér í munn mun sterkari orð um þetta framferði og halda því fram, að farið hafi verið ófrjálsri hendi um sjóði trúfélaganna. Núverandi fjármálaráðherra komst m.a. þannig að orði í samtali við undirritaðan árið 2013, að hér væri í raun um ígildi fjárdráttar eða þjófnaðar að ræða,“ segir í umsögninni til Alþingis, sem Pétur G. Markan biskupsritari skrifar undir.