„Ég hef alltaf haft áhuga á skarti og fallegum hlutum. Þegar ég byrjaði hjá Cartier fann ég strax að ég var kominn á réttan stað. Ég heillaðist um leið af sögunni og las mér mikið til. Ég á gott safn bóka um skartgripi og sögu þeirra,“ segir Ragnar Hjartarson.
„Ég hef alltaf haft áhuga á skarti og fallegum hlutum. Þegar ég byrjaði hjá Cartier fann ég strax að ég var kominn á réttan stað. Ég heillaðist um leið af sögunni og las mér mikið til. Ég á gott safn bóka um skartgripi og sögu þeirra,“ segir Ragnar Hjartarson. — Ljósmynd/Henning Hjorth
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnar Hjartarson hefur lengi hrærst í heimi skartgripa, armbandsúra og annarrar lúxushönnunar.

Ragnar Hjartarson hefur lengi hrærst í heimi skartgripa, armbandsúra og annarrar lúxushönnunar. Eftir níu ár hjá Swarovski í París sneri hann aftur til Georgs Jensens í Kaupmannahöfn í sumar þegar honum var boðið nýtt og spennandi starf listræns stjórnanda. Hans bíður það verðuga verkefni af halda í grunngildi þessa rótgróna risa á silfurmarkaði en róa um leið á ný mið og fanga áhuga yngra fólks. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Það er orðið jólalegt um að litast í kóngsins Köbenhavn. Það staðfestir Ragnar Hjartarson gegnum símann frá skrifstofu sinni hjá Georg Jensen í hinu sögufræga verksmiðjuhúsnæði Royal Copenhagen í Frederiksberg sem reist var í lok 19. aldar. Húsið er í einu horni sjálfs Frederiksbergsgarðsins, þannig að Ragnar finnur vel ilminn af jólunum.

„Það eru svona tvær, kannski þrjár vikur síðan borgin komst í jólaham og hér er mikil ljósadýrð og eftirvænting í loftinu,“ segir Ragnar. „Að vísu hefur kórónuveirusmitum verið að fjölga upp á síðkastið og fyrir vikið þurfti því miður að herða aðgerðir í vikunni. Danir munu því fara varlega í jólaboðin þetta árið og búið er að aflýsa öllu slíku í fyrirtækinu hjá mér. Frumkvæðið að því kom raunar ekki frá okkur stjórnendunum, heldur almennum starfsmönnum. Það er aldrei of varlega farið,“ bætir hann við en ríflega hundrað manns starfa hjá Georg Jensen í Frederiksberg.

Ragnar kom til starfa hjá fyrirtækinu í maí síðastliðnum eftir tæp níu ár hjá öðrum risa í fagurkerabransanum, Swarovski í París. Hann þekkir vel til starfseminnar enda vann hann áður hjá Georg Jensen frá 2005-10 og hefur fylgst grannt með gangi mála þar á bæ síðan.

„Það er voðalega kósí að vera kominn aftur til Kaupmannahafnar enda hefur hún alltaf verið ein af mínum uppáhaldsborgum. Á sínum tíma dreymdi mig um að stunda hér framhaldsnám en heimsókn til Parísar breytti þeim áformum. Það var ást við fyrstu sýn,“ segir hann hlæjandi. „Allar götur síðan hafa mínar höfuðstöðvar verið í París – og eru enn. Ég geri ráð fyrir að starfa hérna í Kaupmannahöfn næstu árin en heimili mitt verður áfram í París. Það mun ábyggilega aldrei breytast.“

360 gráðu skilningur

Sérsvið Ragnars er munaðarvara á borð við skartgripi og armbandsúr, auk hvers kyns hönnunar fyrir heimilið, en auk Georgs Jensens og Swarovskis hefur hann unnið fyrir Cartier, Boucheron og Hermès. Hann hefur gegnt margvíslegum störfum hjá þessum fyrirtækjum, svo sem á sviði markaðsmála, hönnunar, vöruþróunar, sölumála og listrænnar stjórnunar. Takturinn er sá að hann tekur að sér ákveðin þróunarverkefni en hugsar sér síðan til hreyfings þegar þau eru komin á rekspöl og hlutverki hans lokið. „Það getur komið sér vel að hafa spreytt sig á mörgu og þannig öðlast 360 gráðu skilning á starfseminni. Það eru ekki margir í þessum bransa með eins víðtæka reynslu og ég. Oftast eru þetta tvö til fimm ár hjá mér á sama stað en ástæðan fyrir því að ég var búinn að vera svona lengi hjá Swarovski er sú að eitt verkefni rak annað. Ég er áfram í góðu sambandi við fyrirtækið og fjölskylduna sem á það og hver veit nema ég snúi aftur þangað í framtíðinni. Þetta flakk á mér er ekkert einsdæmi; það er mjög algengt að fólk flytjist á milli fyrirtækja í þessum bransa.“

Hann hefur haft yndi af öllum þeim störfum sem hann hefur tekið að sér en kveðst hafa sérstaka ánægju af því að vera í samskiptum við kúnnana. Það gefur honum mikið. Þá segir hann alltaf jafn gaman að fylgja nýrri hönnun úr hlaði en þá þurfi menn að búa að þolinmæði enda tekur slíkt ferli að jafnaði tvö til þrjú ár þangað til varan er komin í verslanir.

Það var í byrjun ársins að Ragnar fékk símtal frá Georg Jensen og honum boðin spennandi staða listræns stjórnanda. „Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um áður en ég sló til enda hefur mér alltaf liðið eins og starfi mínu hér væri ekki lokið. Það að gera breytingar er mínar ær og kýr og það er gullið tækifæri að fá að koma inn í rótgróið fyrirtæki eins og Georg Jensen með nýja skapandi sýn. Fyrirtækið var stofnað árið 1904 og eins og mörg af fyrirtækjunum í þessum bransa var það brautryðjandi á sínu sviði og hefur haldið þeirri stöðu fram á þennan dag. Sagan er áþreifanleg hér í Kaupmannahöfn sem er algjör veisla fyrir forfallna sögugrúskara eins og mig.“

Að því sögðu þá hefur þróunin ekki verið nægilega mikil undanfarin tíu ár eða svo, að mati Ragnars, og honum fannst því hægt að gera betur. „Þegar tilboðið kom fór ég strax að velta fyrir mér hverju ég gæti bætt við núna; hvernig krydda mætti hönnunina án þess þó að hvika frá grunngildum og stöðlum Georgs Jensens. Það er alltaf spennandi línudans, milli hefða og nýsköpunar. Nauðsynlegt er að sækja fram en halda um leið í DNA fyrirtækisins.“

Eitt af sóknarfærunum sem Ragnar kom strax auga á er að höfða í auknum mæli til yngri kynslóðanna. „Það er eðli starfsemi sem þessarar að viðskiptavinirnir eldast og fyrir vikið þurfum við að geta vakið áhuga yngra fólks. Það gerum við með því að fylgjast betur með straumum og stefnum og kynna okkur hvað á upp á pallborðið hjá yngra fólkinu. Sjálfur er ég með gullarmband frá Georg Jensen en unga fólkið hlær bara að mér; segir það algjörlega „out“ í dag. Nú séu allir strákar með perlufesti.“

Hann hlær.

– Hvernig gengur að ná til yngra fólksins?

„Það gengur bara ágætlega en við gerum það á margvíslegan hátt, meðal annars með auglýsingum og kynningarherferðum.“

Falleg armbandsúr eru, að sögn Ragnars, alltaf klassík og vinsæl vara. Þó séu blikur á lofti. „Í gær var ég á fundi með konu sem sagði að dóttir hennar kynni ekki að lesa á klukku. Sú kynslóð athugar bara tímann í símanum eða tölvunni. Þess vegna eru nýjustu úrin fyrst og fremst skartgripir, þótt maður geti líka fylgst með því hvað tímanum líður.“

Auglýsingaherferðir fyrirtækisins hverfðust lengi vel aðallega um konur og stúlkum með norrænt útlit var gjarnan teflt fram. Það er mikið að breytast, að sögn Ragnars, og fleiri kynþættir og fjölbreytni komin inn til að endurspegla þróun samfélagsins. Og sækja inn á fjarlæga markaði.

Ragnar segir hlut karla líka vera að aukast. „Karlar eru í auknum mæli farnir að bera skartgripi og þess vegna snúast herferðir fyrirtækja eins og okkar meira um þá en áður var. Kynleysið við kynningu á vörum hefur aukist enda jafnt verið að höfða til kvenna og karla. Öll stóru merkin hafa áttað sig á þessu, Louis Vuitton, Tiffany's og fleiri.“

Annað sem hann nefnir er að framleiðsla fyrirtækisins taki mið af umhverfisvernd og grænum áherslum enda sé mikilvægt að uppfylla ýtrustu skilyrði hvað það varðar til framtíðar. „Allt sem er skilgreint sem sjálfbær framleiðsla nýtur vaxandi vinsælda í dag.“

Á tímum sem þessum þarf að hugsa út fyrir rammann og Ragnar segir það hafa verið óvenjulega en skemmtilega reynslu að setja upp svokallaða „pop-up“-verslun í Lundúnum fyrir skemmstu – rafrænt gegnum netið. „Það er mjög sérstakt að hanna búð án þess að vera á staðnum en þetta gekk merkilega vel og við fengum góðar umsagnir í fjölmiðlum. Núna eru áform um að gera það sama í Japan.“

Að tala um söguna

Georg Jensen (1866-1935) var sjálfur silfursmiður og allar götur síðan hefur fyrirtækið lagt sérstaka áherslu á silfursmíði. Að sögn Ragnars er mikill ávinningur fólginn í því að allir silfursmiðirnir á vegum fyrirtækisins séu í Kaupmannahöfn. „Allar okkar silfurvörur, fyrir utan skartgripina, eru búnar til hér og ég býð reglulega gestum að koma hingað að skoða; blaðamönnum, hönnuðum, áhugafólki um handverk og fleirum. Þetta gerir það að verkum að tilfinning fólks fyrir framleiðslunni og hönnuninni verður sterkari og áhuginn skerpist. Þessu var eins farið hjá Swarovski í París og Týrol, þar sem kristalsverksmiðjurnar eru. Þangað koma margir frægir hönnuðir í heimsókn á ári hverju og þá var ég í essinu mínu – að tala um söguna,“ segir hann hlæjandi.

Ragnar kveðst hafa lært eitthvað nýtt hjá öllum þeim fyrirtækjum sem hann hefur starfað fyrir. Hjá Cartier lærði hann allt um eðalsteina, hjá Hermès allt um handverk og hönnun, hjá Swarovski allt um kristal og liti og hjá Georg Jensen allt um hönnun.

Á 117 árum hefur Georg Jensen gengið gegnum ýmislegt. Það hafa verið heimsstyrjaldir, iðnvæðingin, stafræna byltingin og þannig mætti lengi telja. Allt hefur þetta haft áhrif á starfsemina. Nú er það heimsfaraldur kórónuveirunnar. Ragnar segir hann þó alls ekki hafa komið illa við fyrirtækið. „Það hefur verið merkilegt að fylgjast með þessu en lúxusvörur hafa víða haldið sínum hlut á markaðnum. Fólk kaupir dýrara og vandaðra en í minna mæli. Við finnum líka fyrir því að fólk hugsar betur um heimilið en áður enda er það miklu meira þar en í venjulegu árferði og margir hafa þurft að vinna heima vikum og mánuðum saman. Það hefur aukið söluna hjá okkur í hönnun fyrir heimilið. Það á einnig við um garðvörur enda leggur fólk upp til hópa meiri rækt við garðinn í þessu ástandi, auk þess sem fjöldi fólks hefur verið að krækja svölum utan á íbúðir sínar og svo framvegis. Við hjá Georg Jensen þurfum ekki að kvarta undan samdrætti í heimsfaraldrinum.“

Gamli vinnuveitandi Ragnars, Swarovski, hefur á hinn bóginn farið illa út úr kófinu, eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Endurskipuleggja þurfti reksturinn með tilheyrandi hagræðingu og uppsögnum. Ragnar fór ekki varhluta af því en hann þurfti að segja upp mörgum starfsmönnum á sínu sviði. „Ég missti margt af mínu besta fólki. Það er mjög erfitt að ganga gegnum slíkt en óhjákvæmilega hluti af starfinu. Það gleður mig hins vegar mjög að flestir ef ekki allir eru búnir að koma sér fyrir annars staðar. Ég er í góðu sambandi við allt þetta fólk enda voru þetta ekki bara vinnufélagar mínir, heldur líka vinir. Það er eðli þessara fyrirtækja. Við erum öll ein fjölskylda. Sama gildir hjá Georg Jensen. Ég hef haldið sambandi og vináttu við marga frá því ég var hérna í fyrra skiptið. Það er mikil tilfinning í þessum bransa, ólíkt því sem þekkist í banka- eða bílabransanum, svo dæmi sé tekið. Þetta er miklu persónulegra og nánara – og snýst allt um fegurð og gæði. Þannig lagði Georg heitinn Jensen þetta upp fyrir meira en hundrað árum og þannig hefur það haldist allar götur síðan. Hann vildi gera eins fallega hluti og hægt væri og þeirri forskrift hefur verið fylgt fram á þennan dag. Við erum mjög stolt af sögu okkar.“

Talið berst að þjóðareinkennum og Ragnar viðurkennir að Frakkar og Danir séu um margt ólíkir. „Það er meiri pólitík í Frakklandi. Þeir mæta líka seint í vinnuna og fara seint heim en Danirnir mæta snemma og fara snemma heim til að sinna fjölskyldu sinni og áhugamálum. Eiga sér líf eftir vinnu. Það er varla hægt að segja um Frakkana. Þeir enda oftar en ekki bara á einhverjum veitingastað eftir vinnu, jafnvel með vinnufélögunum. Hvort tveggja á vel við mig. Maður þarf samt að venjast þessu upp á nýtt hérna í Danmörku; stundum finnst mér dagurinn rétt hálfnaður þegar allir eru farnir heim,“ segir Ragnar hlæjandi en sjálfur er hann ekki fjölskyldumaður.

Hann segir eðlismuninn koma vel fram í faraldrinum. Danir séu vanari að virða reglur en Frakkar og taki því bakslagi eins og nú með skilningi og ró. „Danir ganga ekki yfir á rauðu ljósi og taka hlutunum bara eins og þeir eru. Hvað á maður svo sem annað að gera? Þessi veira er ekkert á förum. Við þurfum bara að finna leið til að lifa með henni. Og vera æðrulaus og þolinmóð.“

Eins og fyrr segir kolféll Ragnar fyrir París þegar hann kom þangað fyrst um tvítugt. „Ég ákvað um leið að ég skyldi fara í framhaldsnám í Frakklandi. Markmiðið á þeim tíma var að fara í arkitektúr en það átti eftir að breytast. Ég byrjaði á því að nema frönsku í Suður-Frakklandi enda mikilvægt að hafa vald á málinu áður en lengra er haldið. Ég tók síðan BA-próf í frönsku heima og kynntist mörgum Frökkum á þeim tíma, meðal annars gegnum franska sendiráðið í Reykjavík. Þeir voru meira og minna með gráður í stjórnmálafræði eða hagfræði og lögðu hart að mér að feta sömu braut; þannig myndu margar dyr opnast.“

Hann fór að ráðum vina sinna og lauk námi í stjórnmála- og hagfræði frá Institut d'études politiques í Bordeaux. „Eftir það hafði ég ekki hugmynd um hvað ég ætlaði að gera; sá einna helst fyrir mér starf í utanríkisþjónustunni eða hjá UNESCO. Það var þá sem ég sá auglýsingu frá Cartier, sótti um og fékk starfið. Eftir það varð ekki aftur snúið.“

– Þú kemur þá inn í fagurkerabransann fyrir hálfgerða tilviljun?

„Já, kannski má segja það. Eftir á að hyggja held ég samt að þetta hafi alltaf átt að verða, ég áttaði mig bara ekki á því sjálfur á þessum tíma. Þetta er einfaldlega í eðlinu. Ég hef alltaf haft áhuga á skarti og fallegum hlutum. Afi minn, Hjörtur Björnsson, var úrsmiður og ég var mikið að sniglast á verkstæðinu hjá honum sem strákur og fylgjast með. Þegar ég byrjaði hjá Cartier fann ég strax að ég var kominn á réttan stað. Ég heillaðist um leið af sögunni og las mér mikið til. Ég á gott safn bóka um skartgripi og sögu þeirra.“

Var í Bazookaklíkunni

Ragnar fæddist í Reykjavík árið 1965 og ólst upp á Ægisíðunni, við sjóinn og innan um endur og grásleppukarla sem voru stór hluti af lífi hans í æsku.

Hann gekk í Haga- og Melaskóla og átti aðild að hinni alræmdu Bazookaklíku, sem nefnd var eftir tyggigúmíinu gómsæta, ásamt Hrönn Marinósdóttur, framkvæmdastjóra RIFF, og fleiri tápmiklum prökkurum. „Það var margt brallað í þá daga,“ segir Ragnar hlæjandi en verst fekari frétta af klíkunni. „Við Hrönn kynntumst þegar við vorum fjögurra ára og höfum verið perluvinir síðan. Ég hygg að það sé ekki algengt.“

Honum eru árin í Melaskóla sérstaklega minnisstæð enda byggingin falleg og andinn góður. „Það var gæfa mín að lenda í tilraunabekk með mörgum góðum krökkum sem margir hverjir eru áberandi í þjóðlífinu í dag. Við höfðum mun meira frelsi en aðrir bekkir og vorum meira að föndra en læra heima. Ég held að það hafi gert mér mjög gott og opnað augu mín fyrir því að möguleikarnir í lífinu eru fleiri en blasir við í fyrstu. Við lærðum til dæmis mikið um Frakkland og ég á ennþá teikningar sem ég gerði af Frakklandsforseta, Sigurboganum og fleiru. Ætli þetta hafi ekki verið í undirmeðvitundinni?“

Síðan lá leiðin í Versló, þar sem enn bættist í vinahópinn. „Þetta er orðinn dágóður hópur af mismunandi fólki,“ segir hann. „Ég átti mjög góða barnæsku og minningarnar eru bara bjartar og ljúfar. Ég verð alltaf mikill Reykvíkingur og Vesturbæingur. Ég á íbúð þar og það tekur mig yfirleitt ekki nema 24 tíma að verða Íslendingur á ný þegar ég kem heim.“

Faðir Ragnars var Hjörtur Hjartarson, lögfræðingur hjá Reykjavíkurborg, og móðir hans Rósa Karlsdóttir, húsmóðir og skrifstofumaður. Þau eru bæði látin. Ragnar á einn bróður, Karl Hjartarson, sem býr í Reykjavík.

Starfið hjá Georg Jensen á hug Ragnars allan um þessar mundir og þegar því verkefni lýkur hefur hann ekki hugmynd um hvað tekur við. „Ég hugsa ekki svo langt; það kemur bara í ljós þegar þar að kemur. Það eru mikil lífsgæði fólgin í því að búa í Kaupmannahöfn; borgin er í stöðugri þróun og stutt í bæði skóginn og ströndina. Ég er svo heppinn að vera með íbúð við höfnina og nýt lífsins alveg í botn hérna enda mikilvægt að vera meðvitaður um að maður hafi það gott. Það er líka meira covid-frelsi hérna en í Frakklandi, þótt það sé því miður að breytast núna.“

Hann viðurkennir þó að hann sakni alltaf Parísar. „Auðvitað fæ ég annað slagið heimþrá; annað væri óeðlilegt eftir 30 ár. Það er líka margs að sakna, ekki síst kaffihúsanna og matarbúðanna. Þær eiga sér hvergi hliðstæðu.“

Við þegjum báðir við tilhugsunina – og fáum vatn í munninn.