Páll Kr. Pálsson
Páll Kr. Pálsson
Eftir Pál Kr. Pálsson: "Ég virði viðhorf hennar sem hönnuðar, en dreg hins vegar í efa að hönnunarverndin sé svo víðtæk að það teljist brot á rétti hennar að vera með mynd af hesti á framleiðsluvöru sem þessari."

Föstudaginn 26. nóvember birtist frétt í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni „ Segir þýska verslun græða á sinni hönnun“. Þar kemur m.a. fram að Hugrún Ívarsdóttir hönnuður hafi í byrjun árs leitað til Myndstefs vegna eftirlíkinga af hönnun sinni, þar á meðal vegna framleiðslu fyrirtækis míns, Glófa ehf./VARMA, fyrir þýskt fyrirtæki. Mér barst póstur frá Myndstefi 23. febrúar sem ég svaraði daginn eftir. Mér barst svo svar frá Myndstefi 21. maí þar sem fram kemur að svar hafi borist frá þýska fyrirtækinu þar sem líkindum með hönnun þeirra og Hugrúnar sé hafnað. Þá kemur fram í bréfi Myndstefs að málinu sé lokið af þeirra hálfu, án málaloka eða sátta.

Fyrirtækið mitt, Glófi ehf./VARMA, framleiðir alls kyns vélprjónaðar ullarvörur fyrir 30 til 50 mismunandi aðila á hverju ári, undir þeirra vörumerkjum. Þar er um að ræða stór og smá fyrirtæki, sem og fjölda hönnuða. Auk þess framleiðum við fjölda vara undir okkar eigin vörumerki, VARMA, sem seldar eru í um 120 verslunum um allt land. Við gætum þess ætíð, þegar við framleiðum VARMA-vörur, að við séum ekki að líkja eftir hönnun annarra og höfum aldrei verið staðin að broti á höfundar- eða hönnunarrétti annarra.

Þegar við framleiðum vörur fyrir aðra, eins og í fyrrgreindu tilviki, koma þeir aðilar með sína hönnun eða hugmyndir að hönnunarlegri útfærslu til okkar og selja vörurnar undir sínu vörumerki. Við brýnum fyrir þessum aðilum að gæta þess að nýta ekki hönnun annarra. Það er því alveg ljóst að þegar við framleiðum fyrir aðra, eftir hönnun sem þessir aðilar koma með til okkar, er hönnunin á þeirra vegum en ekki okkar.

Í fréttinni er haft eftir Hugrúnu að hún hafi fengið þær upplýsingar frá okkur að framleiðsla okkar fyrir þýska fyrirtækið hafi verið fá teppi, en svo hnýtir hún í okkur með því að gefa í skyn að það sé e.t.v. ekki rétt því þau séu alltaf í sölu og svo bætist fleiri vörur við. Það að vara sé í sölu segir ekkert um magnið sem framleitt hefur verið. Greinilega gengur salan ekkert alltof vel miðað við þann fjölda teppa sem við höfum framleitt fyrir þýska fyrirtækið, á rúmu ári.

Umrætt teppi er framleitt eftir hönnun þýska fyrirtækisins, undir þeirra vörumerki, og er með mynd af hesti. Við höfum fundið fjölda áratuga gamalla mynda af teppum með hestamynstri, mörg hver ekki ósvipuð því sem er í teppi Hugrúnar og þýska fyrirtækisins.

Hugrún nefnir líka lundateppi sem sé óheppilega líkt hennar teppi, sem hún geri ráð fyrir að sé líka framleitt af okkur. Það er rétt að við gerðum frumgerð af lundateppi fyrir þýska fyrirtækið, eftir þeirra hönnunarforskrift, en engin framleiðsla hefur átt sér stað á því hjá okkur.

Mér hefði þótt eðlilegt að Morgunblaðið leitaði viðbragða hjá okkur áður en fréttin með fyrrgreindum fullyrðingum í okkar garð birtist, því í því sem Hugrún segir felast ákveðin meiðyrði. Við erum eini aðilinn sem tilgreindur er sem þátttakandi í að brjóta á meintum hönnunarrétti hennar. Ég virði viðhorf hennar sem hönnuðar, en dreg hins vegar í efa að hönnunarverndin sé svo víðtæk að það teljist brot á rétti hennar að vera með mynd af hesti á framleiðsluvöru sem þessari. Ég tel hins vegar mikilvægt að hönnuðir haldi rétti sínum á lofti. Styrkur hönnunarréttar í hverju tilviki fyrir sig ræðst hins vegar öðru fremur af frumleikastigi hönnunarinnar.

Höfundur er framkvæmdastjóri og eigandi Varma/Glófa ehf.