Ríkey Huld Kristjánsdóttir (Hulda) fæddist 1. desember 1926. Hún lést 14. nóvember 2021. Útför Huldu var 27. nóvember 2021.

Hulda og Hólmi á Vermundarstöðum í Ólafsfirði tóku að sér börn úr kaupstöðum, fæddu þau og fræddu, elskuðu sem sín eigin og tóku aldrei krónu fyrir. Þau kenndu okkur kaupstaðabörnunum að vinna og hugsa. Hulda var kennari af guðs náð. Hún útskýrði og rökræddi og hafði sterka málvitund og réttlætiskennd. Henni var oft heitt í hamsi þegar umræðan barst að illri meðferð á konum og börnum. „Það var ekkert svo ljótt sagt um hann Jóakim í Ásæti að ég tryði því ekki“ sagði hún (nafnabreyting AS). Heil og elskandi við heiminn en stygg sem ljón ef henni fannst brotið á minni máttar. Hún tók okkur að sér eitt af öðru, yfir 30 börn, hlúði að okkur og sagði dæmisögur og lagði fyrir okkur gátur. Hún kenndi okkur vinnubrögð, t.d. að snúa heyi, raka dreifar, sinna kúm og hænsnum og á rigningardögum kenndi hún okkur að prjóna neðan við leista.

Tungutak Huldu og Hólma var í mörgu ólíkt því sem ég átti að venjast á Siglufirði og í Reykjavík. Þau kölluðu mig heillina sína, voru framfrá og sögðu fólk fara vestur á Siglufjörð. Rödduðu samhljóðana og söngur tungumálsins var annar. Mér fannst ég eins og í annarri veröld þegar ég hlustaði á þau hjón tala en hafði þó vanist norðlensku í tveggja fjalla fjarlægð, máli sem hljómaði allt öðruvísi. Þetta var eins og í ævintýri.

Hulda, sem sólbrennd stritaði á túnum og engjum, fóðraði dýr og handmjólkaði, eldaði matinn, bakaði brauðið, þvoði heila þvottadaga í suðupotti sem hún hrærði í, ásamt svo ótalmörgu öðru, þurfti að sætta sig við að líkaminn lét undan í puðinu. Einhver ár liðu og nú voru þau Hólmi flutt í indælt raðhús á Ólafsfirði. Hulda hafði fengið tvö sett af mjaðmaliðum og endurheimt heilsuna og Hólmi smíðaði og skar út í tré. Þau voru komin á bíl, með sjónvarp í stofu og inn í nútímann. Hún sagðist hafa lifað alla Íslandssöguna, fæðst í torfbæ, án rafmagns og véla, eins og fólk hefði gert frá landnámi, lifað iðnbyltinguna og upplifað nútímann og það að sjá ungt fólk fá að menntast. Sjálf fékk hún ekki tækifæri til þeirrar skólagöngu sem hún þráði en það var að verða kennari. Harmaði hún það alla tíð.

En hún naut nútímalífsins, var sjálfstæð, sótti námskeið, fór í sundlaug, útbjó sér heitan pott úr fiskikari við sumarbústaðinn og Hólmi og Skjöldur voru ávallt til taks. Malaði kúmen í kaffið, bauð upp á heimabakað til 94 ára aldurs, heklaði milliverk í rúmföt, vann ýmiss konar bróderí, harðangur og klaustur, bjó til listafalleg jólakort, hafði mjög fallega rithönd og skrifaði pistla og sögur.

Við ræddum bókmenntir, hún las mikið og mundi allt. Setti líf og atburði í samhengi, kunni Íslandssöguna og sá pólitíkina í öllu. Ég mun sakna þessara samræðna og samvistanna með henni.

Við sem nutum dvalar hjá Huldu og Hólma erum þeim ævinlega þakklát fyrir það uppeldi og ástúð sem þau gáfu okkur. Við systkinin sendum innilegar samúðarkveðjur til Skjaldar, Kristínar, Rebekku og fjölskyldna.

Anna Sjöfn Sigurðardóttir.