Frá Hellu Íbúar Rangárþings ytra eru opnir fyrir þrengri sameiningu.
Frá Hellu Íbúar Rangárþings ytra eru opnir fyrir þrengri sameiningu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Íbúar Rangárþings ytra hafa ekki áhuga á að sameinast Skaftárhreppi, Mýrdalshreppi og Rangárþingi eystra. Þetta kemur fram í könnun sem sveitarstjórn lét gera.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Íbúar Rangárþings ytra hafa ekki áhuga á að sameinast Skaftárhreppi, Mýrdalshreppi og Rangárþingi eystra. Þetta kemur fram í könnun sem sveitarstjórn lét gera. Hins vegar má lesa út úr könnuninni að meirihluti þátttakenda hafi áhuga á sameiningu, þar sem nágrannasveitarfélagið Rangárþing eystra er með.

Eftir að sameining fimm sveitarfélaga á Suðurlandi féll á því að íbúar Ásahrepps vildu ekki sameiningu óskaði Skaftárhreppur eftir afstöðu sveitarstjórna til þess að taka upp viðræður um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra þar sem sameining var samþykkt.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra var jákvæð til erindisins, sveitarstjórn Rangárþings ytra ákvað að kanna hug íbúanna áður en afstaða yrði tekin en sveitarstjórn Mýrdalshrepps hafnaði málaleitaninni.

43% vilja engar viðræður

Niðurstöður skoðanakönnunar meðal íbúa Rangárþings ytra voru þær að 21,2% þátttakenda vildu hefja viðræður um sameiningu við Skaftárhrepp og Rangárþing eystra, 35,3% töldu rétt að hefja viðræður einungis við Rangárþing eystra og 43,4% þátttakenda vildu hætta frekari viðræðum að sinni.

Sveitarstjórn Rangárþings ytra leit svo á að niðurstöðurnar gæfu til kynna að ekki væri mikill áhugi fyrir því að taka þátt í þeim viðræðum sem Skaftárhreppur lagði til og var erindinu því hafnað.

Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri segir að túlka megi niðurstöður könnunarinnar þannig að fleiri séu meðmæltir því að skoða sameiningu, fremur en að hafa kyrrstöðu í þessum málum. Sömuleiðis megi túlka niðurstöðurnar þannig að 57% þátttakenda séu tilbúin að skoða sameiningu þar sem Rangárþing eystra sé með. Hann tekur fram að framhaldið hafi ekki verið rætt en samsinnir því að ef eitthvað eigi að gera hljóti þrengri sameining, til dæmis Rangárþings ytra og eystra, að koma til greina.