— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Stöðugar breytingar í rekstrarumhverfinu eru nokkuð sem sjávarútvegurinn hefur þurft að læra að lifa með, hvort sem það eru ákvarðanir stjórnmálamanna, veðurofsi, fiskar sem leita á ný mið, skerðing aflaheimilda eða flöktandi verð á mörkuðum.

Stöðugar breytingar í rekstrarumhverfinu eru nokkuð sem sjávarútvegurinn hefur þurft að læra að lifa með, hvort sem það eru ákvarðanir stjórnmálamanna, veðurofsi, fiskar sem leita á ný mið, skerðing aflaheimilda eða flöktandi verð á mörkuðum.

Hins vegar bárust á dögunum fregnir sem jafnvel komu íslenskum sjávarútvegi á óvart. Tilkynnt var að orkuframleiðendur þyrftu að skerða afhendingu orku til stórnotenda sem þýðir að fiskimjölsverksmiðjur þurfa hugsanlega að auka olíunotkun sína um 20 milljónir lítra.

Atvinnugreinin hefur á undanförnum árum lagt sífellt aukna áherslu á að bjóða umhverfisvænar afurðir til kaupenda sem eru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir þær. Jafnframt hafa stjórnvöld ítrekað lýst því yfir hve mikilvægt er að stuðla að orkuskiptum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Alþingi hefur til þessa reynst ófært um að koma sér saman um að tryggja nægilega framleiðslu og fjármögnun uppbyggingar dreifikerfis raforku svo notendur geti gengið að því vísu að afhending sé tryggð. Með aðgerðaleysi sínu hafa yfirvöld valdið þjóðarbúinu tjóni með því að stuðla að frekari halla á vöruskiptajöfnuði og tekið skref til baka í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Það er óviðunandi að árið 2021 þurfi að brenna olíu svo að undirstöðuatvinnugrein landsins geti starfað.

Þetta gerist á sama tíma og söguleg loðnuvertíð er nýhafin og sýnir kannski það sem sjómenn hafa lengi vitað, að það er ekki sjálfgefið að allt gangi að óskum þótt fiskist vel.

Spurningin nú er hvort ríkisstjórnin hyggst gefa landsmönnum áætlun um afhendingaröryggi í skóinn! gso@mbl.is