— Morgunblaðið/Unnur Karen
Ertu kominn í jólaskap? Já, heldur betur. Það gerist alltaf þegar ég byrja að æfa. Ég syng þá óeðlilega mikið af jólamúsík og þá gerist það ósjálfrátt að ég fer í jólaskap. Ég fæ alls ekki leið á að syngja jólalög. Hvaða jólalög eru í uppáhaldi?
Ertu kominn í jólaskap?

Já, heldur betur. Það gerist alltaf þegar ég byrja að æfa. Ég syng þá óeðlilega mikið af jólamúsík og þá gerist það ósjálfrátt að ég fer í jólaskap. Ég fæ alls ekki leið á að syngja jólalög.

Hvaða jólalög eru í uppáhaldi?

Ég er rosalega vanafastur og þarf alltaf dálítinn tíma til að taka inn ný jólalög. Lögin sem ég man eftir úr æsku eru alltaf næst hjartanu. Ég held upp á stóru lögin eins og Ó, helga nótt og Ave María Kaldalóns.

Ertu búinn að halda jólatónleika í mörg ár?

Já og þetta er alltaf jafn skemmtilegt. Nánast undantekningarlaust hefur verið uppselt hjá mér hvert sem ég fer um landið sem eru algjör forréttindi.

Hvar ætlar þú að spila í ár?

Þetta árið, vegna aðstæðna og annarra verkefna, fer ég aðallega hringinn í kringum höfuðborgarsvæðið. Ég stekk þó aðeins norður á Dalvík og Akureyri.

Hvaða önnur verkefni eru á döfinni?

Ég er að syngja með Friðriki Ómari, Jóhönnu Guðrúnu, Björgvini Halldórs og á Stöð 2 jólatónleikum. Nú tekur maður allt sem er í boði.

Er best að syngja í heimabænum Dalvík?

Mér þykir alltaf vænt um að fara þangað og þar hófst þetta ævintýri. Svo vatt það upp á sig og úr varð skemmtilegt konsept þar sem ég blanda saman gríni, eftirhermum og músík. Allt frá sprelli yfir í Ó, helga nótt. Þetta hljómar eins og undarlegur kokteill en þetta gengur upp.

Hátíðartónleikar Eyþórs Inga eru einstök upplifun þar sem hann blandar saman hugljúfum tónum, sögum, gríni og jafnvel eftirhermum þess á milli. Eyþór Ingi verður með sjö tónleika í ár. Þeir hófust 9. desember og verða til 23. desember. Miðar fást á tix.is.