Mótmæli Stuðningsmenn Assange söfnuðust saman fyrir utan réttarsalinn í London í gær og mótmæltu því að hann yrði framseldur.
Mótmæli Stuðningsmenn Assange söfnuðust saman fyrir utan réttarsalinn í London í gær og mótmæltu því að hann yrði framseldur. — AFP
Breskum stjórnvöldum er heimilt að að verða við kröfu Bandaríkjastjórnar og framselja Julian Assange, stofnanda Wikileaks, til Bandaríkjanna til að svara þar til saka.

Breskum stjórnvöldum er heimilt að að verða við kröfu Bandaríkjastjórnar og framselja Julian Assange, stofnanda Wikileaks, til Bandaríkjanna til að svara þar til saka. Úrskurður um þetta var kveðinn upp af tveimur breskum dómurum við áfrýjunardómstól í London í gærmorgun. Þeir sneru þannig við fyrri úrskurði í málinu frá því í janúar á þessu ári. Þá var framsalsbeiðni Bandaríkjastjórnar hafnað með þeim rökum að það gæti reynst andlegri heilsu Assange hættulegt að vera í fangelsi vestanhafs. Hætta væri á því að hann myndi reyna að stytta sér aldur. Læknar höfðu sagt andlega heilsu hans slæma.

Ákærður fyrir njósnir

Julian Assange sætir ákæru í Bandaríkjunum fyrir njósnir. Vefsíðan sem hann stofnaði, Wikileaks, birti fyrir um áratug þúsundir leynilegra skjala frá bandaríska hernum. Skjölin vörpuðu nýju ljósi á hernað Bandaríkjamanna í Írak og Afganistan og komu sér mjög illa fyrir Bandaríkjastjórn.

Lögmenn Assange hafa fullyrt að hann geti hlotið fangelsisdóm til allt að 175 ára í Bandaríkjunum ef hann verður framseldur. Vestanhafs er aftur á móti giskað á að dómur yfir honum verði varla meiri en fjögurra til átta ára fangelsi.

Assange hefur verið í einangrunarvist í fangelsi í London frá 2019 þegar hann var gerður brottrækur úr sendiráði Ekvador í borginni þar sem hann hafði dvalist frá 2012. Assange leitaði upphaflega hælis í sendiráðinu eftir að hann var eftirlýstur af Interpol, sakaður um nauðgun í Svíþjóð. Nauðgunarmálið var fellt niður nokkrum árum seinna.

Eftir að framsalinu var synjað af dómara í janúar áfrýjaði Bandaríkjastjórn úrskurðinum og lagði jafnframt fram margs konar tryggingar fyrir því að réttindi og hagur Assange vestanhafs yrðu ekki fyrir borð borin. Dómarar áfrýjunardómstólsins töldu þessar tryggingar nægilegar og heimiluðu því framsalið.