— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þegar kórónuveiran með öll sín afbrigði gerðist boðflenna um heiminn víðan og endilangan, megi tala svo um hnöttótt fyrirbæri, var stjórnmálamönnum vandi á höndum. Án þess að bera sig saman komust þeir flestir fljótt að þeirri niðurstöðu að best væri og áhættuminnst að færa „vísindamönnum“ allt vald í slíkum efnum. „Við treystum vísindunum“ var þægilegi frasinn.

Þegar kórónuveiran með öll sín afbrigði gerðist boðflenna um heiminn víðan og endilangan, megi tala svo um hnöttótt fyrirbæri, var stjórnmálamönnum vandi á höndum. Án þess að bera sig saman komust þeir flestir fljótt að þeirri niðurstöðu að best væri og áhættuminnst að færa „vísindamönnum“ allt vald í slíkum efnum. „Við treystum vísindunum“ var þægilegi frasinn.

Kosningar fara fram á margvíslegum tímum og varla líða mánuðir, og jafnvel aðeins vikur, án þess að blásið sé til slíkra einhvers staðar. Stjórnmálamenn með lýðræðislegt umboð voru hvarvetna fljótir til að finna áhættulausasta flötinn. Í því fólst sú yfirlýsing, að „vísindamenn“ hefðu næsta óskeikula þekkingu á fyrirbærinu, sem hefur reynst mannkyninu svo dýrkeypt, ekki aðeins í heilsu og lífi, heldur öllum helstu þáttum tilverunnar, mannlegum sem fjárhagslegum. Síðar kom á daginn smám saman að þótt allir gerðu sitt besta var þekking „vísindamanna“ æði brotakennd. Þeir þekktu auðvitað flestir öll undirstöðuatriðin vel og voru vel nestaðir um allt eða flest sem laut að fárinu. En samt gátu menn um margt eingöngu stuðst við getgátur og vonað það besta. En þegar helstu leiðbeiningar breyttust fljótlega í fyrirmæli sem jafnvel voru að viðlögðum refsingum ef út af var brugðið var staðan orðin flókin. Það var ekki endilega ljóst að þessu vel gerða og vandaða fólki með tiltekna þekkingu og reynslu hentaði að leggja mat á aðra þætti. Það orkaði tvímælis að láta umboðslausa aðila og ábyrgðarlausa að formi til, hafa mest um það segja hvort réttlæta mætti að setja einstök þjóðfélög á annan endan, stundum með lítt gagnlegum árangri og það í þeim mæli að fólk og fyrirtæki yrðu mörg ár að jafna sig eftir það. Vissulega voru aðgerðir iðulega í formi tillagna til yfirvalda. Yfirvöldin svöruðu oftast sama daginn, til að verða ekki fyrir áfelli. Þau stærðu sig einnig af því mörg og jafnvel flest að hafa nánast ætíð gert það sem fyrir var lagt án óþarfa tafar. Í raun öxluðu þeir sem ábyrgð báru aðeins sýndarábyrgð.

Þegar að eitt af óteljandi nýjum afbrigðum dúkkaði upp langt að komið nú síðast, vantaði ekki viðbrögðin. Flestu var skellt í lás á ný á meðan „vísindin“ ætluðu að kynna sér hvað væri á ferðinni. Þó hafði læknirinn sem „fann“ afbrigðið bent á það strax að það virtist með eindæmum geðgott og mjúkt afbrigði og jafnvel svo, að ætla mætti að hratt gengi þess gæti verið ein af eftirsóttustu leiðunum út úr veiruvandanum. Loksins væri lykillinn að hjarðónæminu mættur.

Sjálfsagt hefur vísindaheimurinn kíkt á þetta vandlega, en þó ekki fyrr en að drjúgur hluti heimsins var rétt einu sinni orðinn nötrandi og skjálfandi af ótta og niðurdreginn vegna hins ömurlega bakslags. Það var þá það sem heimurinn þurfti!

Enn eitt afbrigilegt afbrigði

Eftir að Biden forseti hafði hlýtt fyrirmælum höndlara sinna og undirmanna og stöðvað allt flug til og frá Afríku, rétt eins og og þeir fyrir austan drifu sig einnig í að gera, á meðan þeir hefðu ekkert handfast, sagði forsetinn eins og óvart að ekki væri nein ástæða til að óttast.

Enginn tók mark á því, eins og fyrirsjánlegt var og „panikin“ jókst.

Og í gær tilkynntu svo frönsk yfirvöld frá Marseille að þeir þar hefðu óvænt fundið nýtt afbrigði. En gaman. Eitt af mörgum þúsundum.

Gæti ekki verið rétt að banna þessa yfirlýsingagleði og opinbert kapphlaup um að vekja sem mestan ótta að óþörfu?

Ef að eitthvað hefði verið að marka vísindin í upphafi og tilkynningar þeirra um nýfundin bóluefni, ættum við fyrir löngu að vera komin fyrir vind og reyndar í skjól til áratuga. Síðan hafa boð og bönn blómstrað og hótanir um að merkja óþæga svo allir megi sjá, svo helst minnti á fyrri merkingar sömu þjóða. Almenningur í okkar hluta heims hefur í ótta sínum og ógnum við kórónuveiruna og þúsundir afbrigða hennar hallað sér að vísindamönnum sínum um svör. Og rétt eins og þeir einbjörn og tvíbjörn hafa þeir svo leitað í fróðleikssekki annarra vísindamanna, ekki síst hjá hátimbruðum stofnunum í Evrópu, Bandaríkjunum og hjá Sameinuðu þjóðunum. Reynslan af þessum heilögu þrenningum hefur ekki alltaf verið góð og hvað verst er þó stofnunin sem kennd er við SÞ eins og svo oft endranær.

Lugu með þögninni

Æðstu menn í þessum ranni í Bandaríkjunum, Anthony S. Fauci og smærri stórriddarar þar, voru ekki að flýta sér að upplýsa að þeir hefðu lengi haft putta í veirusetrinu í Wuhan með leðurblökusafnið sitt og fleira góðgæti. Því varð ekki leynt að veiran ætti uppruna í þeirri borg og haldið hefði verið áfram flugi til vesturs alllengi eftir að það rann upp fyrir mönnum.

Dreift var fullyrðingum og látið eins og þær væru áreiðanlegar, að veiran hefði tekið stökkið til vesturs úr leðurblökum úr sölubásum á markaðstorgi í Wuhan.

Dr. Fauci var svo sannarlega ekki að flýta sér að upplýsa um samstarf sitt og sinnar risavöxnu stofnunar við rannsóknarstofuna þar eystra og hvað þá heldur um fjárhagslegan atbeina sem farið hafði leynt.

Forstjóri WHO var á hjólum við það að beina allri athygli frá þessum þáttum og er þó enn í sínu háa embætti, þótt hans trúnaðarbrestur blasti flestum við. Fyrir vikið verður miklu óhönduglegra að komast til botns í uppruna þessarar árásar á heimsbyggðina og hvar sökin liggur og hvort annars eins megi vænta á ný þaðan, með vilja eða án hans.

Framsal er ekki sjálfsagt

Breskur áfrýjunardómstóll ákvað í vikulokin að yfirvöld þar í landi mættu og jafnvel ættu að verða við kröfum um að framselja Julian Assange til Bandaríkjanna.

Þrefið um Assange hefur staðið lengi ekki síst þar sem stjórnandi Wikileaks náði að skjótast inn fyrir dyr sendiráðs Ekvador í Lundúnum, sem aumkaðist yfir hann í mörg ár uns það land hafði fengið nóg af þessu góðverki sínu.

Fyrst stóð til að framselja Assange til Svíþjóðar til að svara til saka vegna ásakana kvenna þar um nauðgun mannkynsfrelsarans. Það var ekki með góðu móti hægt að andæfa framsalskröfum Svía, með vísun til þess að illa yrði farið með hinn framselda í sænskum fangelsum, sem líkjast fremur sæmilegum hótelum að vísu með aðeins skertan útivistartíma. En lögfræðingar Assange höfðu borið fyrir sig í vörn gegn frammsali til Svíþjóðar að þegar lægju fyrir framsalskröfur Bandaríkjanna gagnvart honum hjá sænskum yfirvöldum.

Framsalsheimild svindlað inn hér

Íslendingar höfðu lengi í sínum lagabókstaf blátt bann við því að íslenskir ríkisborgarar yrðu framseldir að kröfu annarra ríkja. Það var í góðu samræmi við þá reglu að íslenska ríkið gæti ekki hafnað því að íslenskur ríkisborgari kæmi til landsins erlendis frá, óskað hann þess. Undantekning, sem sjaldan reyndi á, var um það að við sérstök atvik mættu yfirvöld framselja íslenska ríkisborgara til Norðurlanda og gagnkvæmt.

Síðar var því svo breytt, svo lítið bar á, að heimila skyldi að framselja íslenska ríkisborgara til allra landa ESB ef þess yrði krafist og rök færð fyrir því sem stæðust. Þetta var hluti af tilburðum ESB við að draga upp í sífellt ríkara mæli að ESB-löndin væru eitt og sameinað ríkið með engar sérreglur.

Engar forsendur voru fyrir slíkri ákvörðun í samningum um EES.

Við umfjöllun íslenskra yfirvalda, sem fóru ekki hátt, var einkum leitað eftir og horft til sjónarmiða refsiréttarsérfræðinga! Það var mjög sérkennilegt, svo ekki sé meira sagt. Spurningin um stöðu íslenskra ríkisborgara og bann við framsali þeirra er hluti af fullveldisrétti þjóðarinnar og þeirra sem eru hluti af henni. Sáralítil umræða fór fram um þetta og íslenskir stjórnmálamenn jafn steinsofandi og daufir eins og þeir verða um leið og mál sem raunverulega hafa mikla þýðingu koma upp á borðið. Orkupakkasvikin eru dæmi um það. Nauðsynlegt hlýtur að vera að taka mál af þessu tagi aftur til umræðu og snúa taflinu þjóðinni í hag.

Fráleitt að framselja þangað

Þótt bréfritari hafi ekki kynnt sér málstað Assange þessa nægjanlega rækilega til að hafa á því mótaða skoðun, hefur hann mótaða og almenna skoðun á spurningu um framsal manna til Bandaríkjanna. Ætti að vera augljóst að ekkert siðað land getur verið þekkt fyrir það að hafa framsalssamning við Bandaríkin. Áður hefur verið fjallað um það, að þegar mál eru í gangi vestra eru opinberar ógnanir um að setja stóran hluta miðborgarþéttbýlis í rúst verði úrslit máls ekki að skapi „skrílsins“. Nú síðast lýsti Biden forseti opinberlega yfir væntingum sínum um að 17 ára piltur, sem var fyrir rétti, yrði dæmdur fyrir morð og það þótt forsetinn, sem vissi ekkert í sinn haus um einstök atriði málsins, vissi þó hitt að niðurstaðan sem hann mælti með þýddi lífstíðardóm án minnstu vonar um lausn eftir áratuga fangelsun.

Annað dæmi

Ekki fyrir löngu var lögreglumaður vestra dæmdur í rétt tæplega 30 ára fangelsi. Hann hafði handtekið mann og hélt honum með því að setja hné sitt að hálsi hans. Maðurinn kvartaði yfir því að ná ekki andanum. Á meðal þeirra sem fylgdust með þessum átökum var maður sem tók mynd á síma sinn. Rétt er að taka fram að þessi aðferð lögreglumannsins til að hemja stóran og öflugan mann, sem liggur undir grun um lögbrot, er ekki bara heimiluð í handbókum lögreglu víða í Bandaríkjunum heldur beinlínis kennd. Sá grunaði var stór og sterkbyggður. Hann hafði áður verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir vopnað rán á heimili fólks. Upplýst var að hann var, þegar atvikið átti sér stað, búinn að innbyrða mikið magn af sterkum eiturlyfjum. Ekkert benti til að lögreglumaðurinn hafi stefnt að því að deyða manninn í viðurvist fjöldans. Þótt allt þetta lægi fyrir var lögreglumaðurinn dæmur í þriggja áratuga fangelsi. Hins vegar er búið að reisa höggmynd í líkamsstærð af hinum látna heiðursmanni! Lögreglumaðurinn var hvítur og hinn handtekni svartur.

Fyrir lágu hótanir um að miðbærinn þarna yrði lagður í rúst ef niðurstaðan yrði ekki í samræmi við vilja múgsins. Atvikið hefði mátt fella undir óhappatilviljun frekar en að um ásetning um morð hafi verið að ræða.

Frelsisskerðingin er refsingin. Pynting er ekki leyfð

Hér áður var ástandið með nokkuð öðrum brag, og ekki betri. Þá var hið kunna orðtak til og ekki að ástæðulausu, um þann sem dreginn var ákærður fyrir dómara: „Saklaus, þar til sannast að hann sé svartur.“ Í sumum efnum virðist þessum þætti hafa verið snúið á haus upp á síðkastið.

Fyrir utan óöryggi bandarísks réttarfars þar sem óþægilega oft virðist geta ráðið úrslitum hvort málsaðili hafi ráð á sæmilega hæfum lögfræðingi eða ekki, þá eru afplánun og refsidómar úr öllu hófi miðað við það sem þekkist og viðgengst í hinu evrópska kerfi.

Afplánun á ótrúlega langri fangelsisvist er iðulega tekin út við algjörlega óboðlegar aðstæður og reglur. Vissulega getur verið nauðsynlegt þegar mjög hættulegir fangar eiga í hlut að fangelsi séu rammgerð. En í mörgum tilvikum fer afplánun fram við aðstæður sem flokkast myndu undir pyntingar í Evrópu. Sem dæmi er eitt helsta öryggisfangelsi landsins þar sem Robert Hanssen fyrrum starfsmaður CIA er geymdur, en hann náðist eftir langan njósnaraferil fyrir Sovétríkin og svo Rússland. Hann náðist og var dæmdur. Hann fékk 15 lífstíðardóma sem afplána á í röð! Hann er geymdur í öryggisfangelsinu ADX Florence. Fangaklefi hans er 7 fermetrar að stærð. Rúmið steypt, borð steypt og stóll steyptur. Gluggi er á klefanum og er hann 10 sentimetra breiður og 120 sentimetra langur. Honum er þannig komið fyrir að úr honum sést ekkert nema upp í himininn. Skýringin á því er sú að koma verði í veg fyrir að fanginn geti áttað sig á umhverfinu og þannig átt auðveldara með að flýja!

Fanginn er geymdur í smáklefa sínum 23 klukkutíma á sólarhring. Þá er hann færður út til hreyfingar. Hún fer fram í sundlaugarbotni steinsteyptum allt um kring og getur fanginn gengið 10 metra beint en tæpa 30 gangi hann í hringi. Hann sér aðeins steinsteypuna og svo upp í himininn ef hann leggur það á sig. Það er gert til þess að hann geti ekki „skipulagt flótta sinn“.

Farið offari í hefndarskyni

Robert Hanssen gerði mikinn skaða með njósnum sínum. Hann hóf þær að eigin frumkvæði fyrir fé og hitti „húsbændur“ sína aldrei að máli og þeir vissu ekki hver hann var fyrr en fréttir bárust af handtöku hans. Á Íslandi má halda mönnum í varðhaldi og einangrun í allt að 20 daga og við mun betri aðstöðu en hér var lýst. Allt umfram það er réttilega litið á sem pyntingar. Njósnarinn sem niðurlægði starfsstöð sína hefur aldrei gert nokkrum líkamlegt mein. Hann var hættulegur sem njósnari. Hann á minni en engan kost á flótta. Og þótt svo ólíklega tækist til væri ekki líklegt að hann gerði flugu mein.

Menn geta haft skömm á Ghislaine Maxwell. En það réttlætir ekki margra ára varðhald við ömurlegar aðstæður í aðdraganda dómsmála.

Bandaríkin eru um margt aðdáunarvert ríki. En það getur ekkert ríki sem virðir mannréttindi leyft sér að framselja menn þangað að þeirra kröfu. Fyrr en það má gerast verða þeir að taka sér rækilegt tak.