[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Seðlabanki Íslands hefur gerst eigandi á ný í Reiknistofu bankanna, RB, fyrirtæki sem rekur helstu fjármálainnviði íslenska bankakerfisins.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Seðlabanki Íslands hefur gerst eigandi á ný í Reiknistofu bankanna, RB, fyrirtæki sem rekur helstu fjármálainnviði íslenska bankakerfisins.

Kaupin eru gerð til að treysta rekstur og framþróun innviða greiðslumiðlunar hér á landi, þar með talið millibankakerfi Seðlabankans, eins og Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri útskýra fyrir Morgunblaðinu.

Samhliða kaupunum verða breyttar áherslur í starfsemi fyrirtækisins með það að markmiði að efla öryggi og stuðla að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í rekstri fjármálainnviða, að sögn Gunnars.

Greiðsluveitan seldi ARK

Kaupin fóru þannig fram að Greiðsluveitan ehf., dótturfélag Seðlabanka Íslands, seldi ARK kerfi sitt gegn 7,33% eignarhlut í félaginu. RB keypti jafnframt SWIFT-þjónustu Greiðsluveitunnar.

Einnig hafa Mentis, Valitor og Salt Pay selt hluti sína í RB.

Við kaup og sölu á hlutum var notast við sama verðmat í öllum tilvikum sem byggði á bókfærðu verði RB og þeirra kerfa sem skiptu um eigendur, að sögn Gunnars. Jafnframt verður starfsemi JCC ehf., seðlavers kerfislega mikilvægu bankanna, sameinuð rekstri RB.

Í eigu innlánsstofnana

RB verður eftir breytinguna einungis í eigu innlánsstofnana og Greiðsluveitunnar, sem fer með eignarhlut Seðlabanka Íslands.

Að sögn Gunnars kemur Greiðsluveitan inn í RB með skýr markmið, að nútímavæða innviði og útleiða kerfi á stórtölvu RB, að innleiða staðlaðar reglubækur um uppgjör og tæknistaðla að evrópskri fyrirmynd, og að koma á innlendri óháðri smágreiðslulausn (A2A) sem litið er á sem þjóðaröryggismál. „Aðkoma Greiðsluveitunnar sem hluthafa í RB er hugsuð tímabundin og verður endurskoðuð að þremur árum liðnum með hliðsjón af þeim markmiðum sem stefnt er að,“ segir Gunnar.

Gunnar verður formaður

Gerð verður breyting á stjórn RB og mun Gunnar taka við sem formaður stjórnar. Aðrir stjórnarmenn eru fulltrúar kerfislega mikilvægra banka. Að auki er kosinn einn óháður stjórnarmaður.

Með innkomu sinni telur Greiðsluveitan að betur verði hægt að tryggja forgangsröðun verkefna og virka stefnumótun. Eftirfylgni í þróun og rekstri fjármálainnviða hefur ekki verið sem skyldi hér á landi síðastliðinn áratug vegna ónógs samstarfs um innviði sem standa utan samkeppnisumhverfis, eins og Gunnar útskýrir.

„Með tilfærslu ARK- og SWIFT-kerfa til RB auk sameiningar við JCC næst fram hagræðing strax, auk þess sem kostnaðurinn af kerfum í útleiðingu hleypur á nokkur hundruð milljónum á ári. Áætla má því að hagræðingin sem um ræðir gæti skilað yfir 500 milljónum króna á ári.“

Spurður um í hverju hagræðingin felist segir Gunnar að lögð verði áhersla á að ljúka innleiðingu SOPRA innlánskerfa og útleiðingu kerfa af stórtölvu. „Síðastliðin ár höfum við verið með tvöföld kerfi í rekstri á sumum sviðum og það hefur verið mikil sóun.“

Afleiðing þess að taka upp alþjóðlegar reglubækur og staðla er að sögn Gunnars sú að íslenskir fjármálainnviðir geta tengst erlendum greiðslumiðlunarkerfum með hagkvæmari og skilvirkari hætti til hagsbóta fyrir fyrirtæki og einstaklinga. „Með breytingunni færum við okkur því nær alþjóðlegri þróun í greiðslumiðlun. Hér er bankinn að stíga inn til að hafa meiri og jákvæð áhrif til framtíðar.“

Eflir þjóðaröryggi

Innleiðing A2A-lausna eflir þjóðaröryggi og dregur úr því að reiða þurfi sig nær eingöngu á greiðslukortainnviði í eigu erlendra aðila, þ.e. Visa og Mastercard, að sögn Gunnars. „Eins og þjóðaröryggisráð hefur bent á er nauðsynlegt að búa til aðra leið samhliða greiðslukortainnviðum. Hún yrði þá um leið varaleið ef hin erlendu fyrirtæki myndu af einhverjum ástæðum hætta að þjónusta Ísland.“

Til að útskýra þessa A2A-greiðslumiðlunarleið nánar yrði mögulega um að ræða kerfi sem nýttu sér millifærslur í innláns- og millibankakerfum. „Til dæmis væri hægt að þróa app, eða láta fólk skanna QR-kóða úti í búð. Þessi leið yrði nýr og ódýrari valkostur. Okkur vantar einungis „síðasta metrann“, þ.e. greiðsluviðmótið, svo þessi greiðsluleið verði nothæf og aðgengileg. Þá verður Ísland ekki lengur eins háð innviðum í eigu erlendra stórfyrirtækja.“

Hagræðið skiptir máli

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri ítrekar að það skipti miklu máli að ná fram fyrrnefndu hagræði enda fylgi gríðarlegur kostnaður þeim tölvukerfum sem notuð eru í greiðslumiðlun bankanna. Kostnaður sem á endanum lendir á notendum bankaþjónustu. „Arðsemi félagsins skal vera hófleg og verðlagning gagnsæ. Það er ekki markmið félagsins að greiða arð til hluthafa heldur að verja hagnaði í þróun og uppbyggingu fjármálainnviða,“ segir Ásgeir.

Hann segir að RB geti ekki tekið að sér ný verkefni án þess að nýr vettvangur Seðlabankans um framþróun fjármálainnviða, svokallaður framtíðarvettvangur, beini verkefnum til RB.

„Þetta er gríðarlega jákvætt skref fyrir íslenskan fjármálamarkað, fyrirtæki og fólkið í landinu,“ segir Gunnar að lokum.

Ný stjórn
» Stjórnina skipa Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri, Anna Bjarney Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri rekstrar, fjármála og tækni hjá RÚV, Halldóra G. Steindórsdóttir, hópstjóri í hugbúnaðarlausnum á upplýsingatæknisviði Landsbankans, Riaan Dreyer, frkvstj. upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka, og Styrmir Sigurjónsson, frkvstj. upplýsingatæknisviðs Arion banka.