Gylfi Þór Gíslason fæddist 20. desember 1949. Hann lést 27. nóvember 2021. Jarðsett var 6. desember 2021

Góður vinur, frændi og skólabróðir fór yfir móðuna miklu síðastliðinn laugardag.

Gylfa Þór kynntist ég fyrst á Laugarvatni haustið 1969. Við urðum strax miklir vinir, hann var einstaklega geðprúður í alla staði. Við áttum mörg sömu áhugamál og bar sönginn þar hæst. Við gátum endalaust tekið lagið saman. Eftir útskrift vorið 1970 hittumst við, bæði fyrir norðan hjá okkur Önnu og á Selfossi hjá honum og Línu. Það var mikið sungið og farið í frábærar gönguferðir. Við gengum t.d. á Esjuna og um Skaftafell og fjöllin í Ólafsfirði. Við áttum góðar stundir þegar Þróttarar '69-'70 hittust á afmælismótum okkar. Ég kom til Gylfa nokkuð oft síðustu árin eftir að hann veiktist.

Vorið 2020 komum við skólafélagarnir saman á Laugarvatni og kom Gylfi þangað og var með okkur í söngnum og brosti mikið. Það var stórkostlegt að hafa hann með okkur á 50 ára afmælinu okkar.

Já, það mætti skrifa margt fleira um vin okkar Gylfa Þór, hann var svo léttur og skemmtilegur félagi. Þar sem Gylfi var var ætíð fjör og gaman. Ég kom til hans nú í sumar í tvígang og auðvitað tókum við lagið saman.

Við söknum góðs vinar og sendum innilegar samúðarkveðjur til allra aðstandenda Gylfa Þórs.

Blessuð sé minning hans.

Hlýjar kveðjur,

Gunnar og Anna, Akureyri.

Elsku hjartans Gylfi minn, nú sit ég fyrir framan tölvuna og skrifa minningargrein um þig. Ég er svo þakklát að hafa fengið að vera í þínu lífi, fyrst sem kærasta þín í rúmlega ár. Við gerðum marga skemmtilega hluti saman, ef þú áttir góða daga skokkuðum við oft 5 km, enda bæði mikið íþróttafólk. Þú íþróttakennari, fótboltamaður og þjálfari, ég keppti í frjálsum íþróttum. Þú varst svo rómantískur, gleymi aldrei þegar þú komst fyrst til mín. Þegar ég opna hurðina stendur þú þar með fallega brosið þitt og risablómvönd sem þú tíndir úti í náttúrunni á leiðinni. En ég bjó þá í Reykjavík. Oft fórum við í Glæsibæ þar sem þú söngst í karókí og það var dásamlegt að geta farið með þig einnig á Vínbarinn, þar sem þér fannst svo gott að fá þér gott viskí eða koníak. Margar ferðir upp í Þrastalund með nesti og gengið út um allt. Elskan mín, þetta gaf okkur báðum svo mikið. Síðan skildi leiðir okkar, þegar ég flutti á Selfoss 2018. Og ég frétti að þú að værir kominn á Fossheima. En þú varst með sjúkdóminn parkinson. Þú varst kominn með hann þegar við vorum saman. Við áttum bæði dásamlega tíma og líka mjög erfiða tíma þegar þú varst slæmur. Ég fann fallegar myndir af þér sem ég hélt að ég væri búin að týna. Ég setti myndirnar í ramma og færði þér upp á Fossheima. Eftir það kom ég til þín einu sinni í viku stundum oftar. Það gaf mér svo mikið að geta komið til þín rifjað upp okkar gömlu tíma. Þú varst þjálfari í Ólafsvík og þjálfaðir Víking Ó. Ég fann myndir frá þessum tíma sem Helgi Kristjánsson hefur sett inn á Facebook. Það var mikil gleði hjá þér – og sjá ljómann í andliti þínu þegar ég sýndi þér þær. Þú þekktir þá alla. Með nafni. Ég veit að þeir minnast þín allir með hlýju og virðingu. Elsku Gylfi minn, nú hefur þú kvatt þetta líf. Það gaf mér mikið að geta komið og kvatt þig og verið með Ólöfu dóttur þinni ásamt tveimur sonardætrum þínum. Þarna áttum við góða klukkutíma saman. Að geta haldið í höndina þína eins og ég var búin að gera síðustu þrjú árin þegar skjálftinn var mikill, alltaf hætti hann um leið og ég hélt í hendurnar þínar. Elsku hjartað mitt, ég kveð þig með miklum söknuði og nú er tómarúm í mínu hjarta. Engar fimmtudagsstundir lengur hjá okkur. En elskan, ég veit að þú varst búinn að þrá að losna frá þessu lífi og þjáningum. Nú syngur þú, ferð í fótbolta, hleypur og kannski þjálfar þú líka í Sumarlandinu. Alltaf þegar þú kvaddir mig sagðir þú: Stattu þig og áfram, Snæfell. Elsku hjartans Gylfi minn, ég er svo þakklát fyrir allar stundirnar sem við áttum saman, það gaf mér svo mikið og þér líka að geta komið til þín á Fossheima og stytt þér stundir hvort sem við horfðum á sjónvarpið, spjölluðum eða bara þögðum saman hönd í hönd.

Þín

Edda Björk Hjörleifsdóttir.