Stella Lögfræðingurinn og tálkvendið.
Stella Lögfræðingurinn og tálkvendið.
Þar sem ég er ekki enn farinn að kíkja á Ófærð, sem mér er sagt að gangi afar hægt og rólega fyrir sig, verður önnur íslensk glæpaþáttaröð tekin fyrir í dag. Nefnilega Stella Blómkvist.

Þar sem ég er ekki enn farinn að kíkja á Ófærð, sem mér er sagt að gangi afar hægt og rólega fyrir sig, verður önnur íslensk glæpaþáttaröð tekin fyrir í dag. Nefnilega Stella Blómkvist. Nýja þáttaröðin um þetta ólíkindatól og sérstöku kvenhetju hefur verið aðgengileg hjá Sjónvarpi Símans um nokkurt skeið og málið er að ef maður byrjar á Stellu á annað borð er mjög erfitt að hætta. Þar gerast hlutirnir ekki hægt. Hraðinn og dramatíkin eru í fyrirrúmi. Verst að hástemmd tónlistin á það til að yfirgnæfa hið talaða orð þegar mesti hasarinn stendur yfir svo stundum verður maður að geta í eyðurnar.

Heiða Reed túlkar „andhetjuna, tálkvendið og lögfræðinginn“ Stellu (eins og henni er lýst á vef Símans) afbragðsvel en mín uppáhaldspersóna er þó tölvunördinn ómetanlegi, Gunna, með allar sínar greiningar, snilldarlega leikin af Kristínu Þóru Haraldsdóttur.

Þættirnir eru ekki gerðir nákvæmlega eftir bókunum um Stellu, heldur byggðir á þeim þannig að tvær bækur renna gjarnan saman í eina þáttaröð, og þeir gerast á aðeins öðruvísi Íslandi en því sem við þekkjum í dag. Engin leynd ríkir yfir því hverjir handritshöfundarnir eru, Jóhann Ævar Grímsson, Snjólaug Lúðvíksdóttir, Jónas Margeir Ingólfsson og Dóra Jóhannsdóttir eru skrifuð fyrir þáttunum, en stóra leyndarmálið er þó áfram óupplýst. Hver skrifaði eiginlega bækurnar um Stellu Blómkvist?

Víðir Sigurðsson

Höf.: Víðir Sigurðsson