Bergsveinn Birgisson
Bergsveinn Birgisson — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bergsveinn Birgisson, rithöfundur og doktor í norrænum fræðum, birti í gær yfirlýsingu þar sem hann segir „hryggilegt“ að sjá hve ómálefnalega þeir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Sverrir Jakobsson prófessor hafi svarað ásökunum...

Bergsveinn Birgisson, rithöfundur og doktor í norrænum fræðum, birti í gær yfirlýsingu þar sem hann segir „hryggilegt“ að sjá hve ómálefnalega þeir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Sverrir Jakobsson prófessor hafi svarað ásökunum Bergsveins um að seðlabankastjóri hafi stolið efni úr bók hans án þess að geta heimilda.

Sverrir, sem er prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands, sagðist í samtali við Fréttablaðið í gær ekki hafa lagst í rækilegan samanburð á verkunum tveimur, en að hvorugt ritið væri skrifað sem sagnfræðirit.

Um bók Ásgeirs, sem nefnist Eyjan hans Ingólfs, sagði Sverrir: „Ég verð að segja mér finnist hún ekki minna mikið á Svarta víkinginn, nema að báðir eru mjög trúir á gildi Landnámu sem sögulegrar heimildar, sem er ekki hefðbundin skoðun meðal miðaldasagnfræðinga.“

Segir textann ritrýndan

Bergsveinn segist ekki viss um hvort þessi tilraun þeirra sé gerð til þess að „þyrla ryki í augu siðanefndar Háskóla Íslands“ til þess að málið fái ekki málefnalega meðferð hjá nefndinni. Átakanlegt sé þó að verða vitni að þeirri skoðun að það sé álitið í lagi að stela af alþýðufræðimanni.

Bergsveinn segir ljóst að Sverrir hafi ekki áttað sig á því að hann sé doktor í norrænum fræðum. Áratuga vísindaleg rannsókn liggi að baki bókinni, hún hafi komið út hjá einu virtasta fræðibókaforlagi Noregs og tíu sérfræðingar ritrýnt textann.

Ásgeir sagði í yfirlýsingu fyrr í gær að síðustu dagar hefðu verið afar sérstakir þar sem hann hafi verið þjófkenndur í fyrsta skipti á ævinni.

Sagðist hann ekki hafa viljað bregðast við fyrr en hann hefði fengið ráðrúm til þess að lesa bók Bergsveins. Hann muni því fjalla ítarlega um málið síðar.