Samstarf Nemendur í Víkurskóla og gestir frá evrópskum skólum sem taka þátt Emasmus+ verkefninu „Fit for life“ í Leikskálum í Vík í Mýrdal.
Samstarf Nemendur í Víkurskóla og gestir frá evrópskum skólum sem taka þátt Emasmus+ verkefninu „Fit for life“ í Leikskálum í Vík í Mýrdal. — Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Jónas Erlendsson Vík í Mýrdal Þrátt fyrir einhverjar takmarkanir í þjóðfélaginu er ýmislegt að gerast í Mýrdalnum. Ferðamenn hafa verið duglegir að heimsækja svæðið í allt sumar og fram eftir hausti.

Úr bæjarlífinu

Jónas Erlendsson

Vík í Mýrdal

Þrátt fyrir einhverjar takmarkanir í þjóðfélaginu er ýmislegt að gerast í Mýrdalnum. Ferðamenn hafa verið duglegir að heimsækja svæðið í allt sumar og fram eftir hausti.

Víkurskóli fékk heimsókn nú í haust frá samstarfsskólum sínum innan Erasmus+-verkefnisins. Þetta er samstarfsverkefni milli Víkurskóla og fimm annarra skóla frá Þýskalandi, Finnlandi, Póllandi, Grikklandi og Kanaríeyjum. Það eru nemendur úr 9. og 10. bekk sem taka þátt í því ásamt kennurum sínum. Aðaláhersla verkefnisins er heilbrigði og heilsuefling og er það unnið í samstarfi við nærsamfélagið í hverju landi. Hlutverk Víkurskóla í verkefninu er að skoða og styrkja sjálfsmynd nemenda og efla þrautseigju. Einnig fengu erlendu nemendurnir að kynnast íslenskri náttúru og skoða helstu ferðamannaperlur Suðurlands auk þess að kynna sér starfsemi Kötluseturs og Skaftfellingabúðar og svo að sjálfsögðu heimsóttu þeir félagsmiðstöðina OZ í Vík.

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hefur samþykkt leyfi fyrir rekstri á stöðvalausri deilingu fyrir Hopp-rafhlaupahjól, en Hopp hefur rekið starfsemi sína á 10 stöðum í þremur löndum. 10 mínútna ferð á Hopp-hjóli kostar 400 krónur. Fyrirhugað er að opna með 35 hjólum en hægt að fjölga ef eftirspurn verður meiri. Þetta er góð lausn til að minnka bílaumferð innan þorpsins og minnka þar með útblástur.

Steinskipið sem fannst á Fagradalsheiði í sumar hefur haft töluvert aðdráttarafl í sumar, fjöldi fólks farið til að skoða það. Minjastofnun hefur þó ekki enn fundið tíma til að kanna það nánar og vita hvort einhverjar vísbendingar séu um hver tilgangur þess hafi verið, og hvort eitthvað af þeim hugmyndum eru trúlegar sem fram hafa komið í sambandi við það, þ.e allt frá því að vera drykkjarker fyrir búfénað, viti fyrir sjófarendur, lækningaker, naglafar eða vera frá tímum Papanna á Íslandi. Allavega er ljóst að einhver lagði mikla vinnu í að höggva skál í blástein fyrir það löngu að ekki eru einu sinni til munnmælasögur um notkun þess