Ræðan Maria Ressa líkti falsfréttum við veiru.
Ræðan Maria Ressa líkti falsfréttum við veiru. — Morgunblaðið/Atli Steinn Guðmundsson
„Ég stend frammi fyrir ykkur í dag sem fulltrúi hvers einasta blaðamanns í heimi hér, sem færir svo ríkulegar fórnir við að gæta að mörkunum, halda gildum okkar og ætlunarverki til haga: að færa ykkur sannleikann og krefja valdið...

„Ég stend frammi fyrir ykkur í dag sem fulltrúi hvers einasta blaðamanns í heimi hér, sem færir svo ríkulegar fórnir við að gæta að mörkunum, halda gildum okkar og ætlunarverki til haga: að færa ykkur sannleikann og krefja valdið reikningsskila,“ sagði Maria Ressa í ræðu sinni í Ráðhúsi Óslóar í gær, þar sem þeim Dmitrij Muratov voru veitt friðarverðlaun Nóbels árið 2021 fyrir að standa vörð um tjáningarfrelsið, „skilyrði lýðræðis og varanlegs friðar,“ eins og það var orðað í úrskurðarorðum Nóbelsverðlaunanefndarinnar þegar verðlaunahafarnir voru útnefndir í haust.

Ressa og Muratov eru blaðamenn, hún filippseysk, hann rússneskur, og hafa hvor tveggju vakið heimsathygli fyrir skrif sín, Ressa ritstýrir fréttavefnum Rappler , en Muratov óháða blaðinu Novaja Gazeta , sem kemur út tvisvar í viku. Ressa gerði gjörningaveður falsfrétta á lýðnetinu að umtalsefni og kallaði þær veiru lyga, sem dafnaði með lesendum og drægi fram ótta, reiði og hatur. „Ósýnileg kjarnorkusprengja hefur sprungið í upplýsingavistkerfi okkar og heimurinn verður að bregðast við á sama hátt og hann gerði eftir Hiroshima,“ sagði Ressa.

Muratov vitnaði í rússneska kjarneðlisfræðinginn og mannréttindafrömuðinn Andrei Sakharov, friðarverðlaunahafa ársins 1975, sem sagðist sannfærður um að frelsi samviskunnar, í samfloti við önnur borgaraleg réttindi, væri grundvöllur framfara. „Við erum blaðamenn og verkefni okkar er skýrt – að greina staðreyndir frá hindurvitnum,“ sagði Muratov, en nánar er fjallað um athöfnina á mbl.is í dag. atlisteinn@mbl.is