Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Tengja karl og konu má, kannski líka fiska tvo. Tónar streyma tíðum frá. Á töðuvelli eru svo.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Tengja karl og konu má,

kannski líka fiska tvo.

Tónar streyma tíðum frá.

Á töðuvelli eru svo.

Bergur Torfason svarar:

Þótt fast menn hafi bundið bönd,

böndin mörg þau rakna,

þar traustust held ég handabönd,

helst ég þeirra sakna.

Og svo kemur ráðningin:

Í hjónabandi eru Frissi og Fía.

Tvo fiska í spyrðubandi ég sá.

Djassbandið lék áðan lagið nýja.

Menn lögðu í heyband sáturnar þá.

Guðrún B. vísar hér til hins þekkta bands „Mothers of invention“:

Í hjónabandi hangið lengi

sem hrognkelsi í spyrðubandi,

dá Mæður* Zappa, mjúka drengi,

og mörg heybönd á sínu landi.

Þá er það lausnin frá Helga R. Einarssyni:

Kollinum ég kem í stand,

svo kíki á orðin hér.

Sé hjóna-, hey- og spyrðuband

og hljómsveit bandið er.

Sigmar Ingason svarar:

Hjónabandið entist ekki lengi.

Úti hangir spyrðuband á rá.

Bílskúrsbandið býr við erfitt gengi.

Báru hestar heyband klökkum á.

Hér kemur lausnin frá Hörpu á Hjarðarfelli:

Tryggðabandi bundust hjónin.

Með bandi spyrti fiska tvo.

Segulbandið sendir tóninn.

Sást heyband á velli svo.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Hjónabandið hér um ræðir.

Hygg, að spyrðuband sé þá.

Strákabandið gleði glæðir.

Greini heyband velli á.

Þá er limra:

Sælt er á sólarströndum

og sagt er, að hjónaböndum

fjölgi þar ört

og framtíð sé björt

hjá ásthrifnum eldri löndum.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Úti fyrir hamast hríð,

hörð er þessi vetrartíð,

innivið í erg og gríð

ég uni mér við gátusmíð:

Þann á bæjarburst ég sá.

Bunan vellur honum frá.

Montinn er hann ekkert smá.

Einatt má á byssu sjá.

Fleiri lausnir verða í Vísnahorni á mánudag.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is