Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Hagræðing sem næst fram með kaupum Seðlabanka Íslands á 7,33% hlut í Reiknistofu bankanna, RB, gæti skilað yfir 500 milljónum króna á ári að sögn Gunnars Jakobssonar varaseðlabankastjóra.

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Hagræðing sem næst fram með kaupum Seðlabanka Íslands á 7,33% hlut í Reiknistofu bankanna, RB, gæti skilað yfir 500 milljónum króna á ári að sögn Gunnars Jakobssonar varaseðlabankastjóra.

„Með tilfærslu ARK- og SWIFT-kerfa til RB auk sameiningar við JCC, seðlaver kerfislega mikilvægu bankanna, næst fram hagræðing strax. Auk þess sem kostnaðurinn af kerfum í útleiðingu hleypur á nokkur hundruðum milljónum á ári. Áætla má því að hagræðingin sem um ræðir gæti skilað yfir 500 milljónum króna ári,“ segir Gunnar.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að miklu máli skipti að ná fram fyrrnefndu hagræði enda fylgi gríðarlegur kostnaður þeim tölvukerfum sem notuð eru í greiðslumiðlun bankanna. Kostnaður sem á endanum lendir á notendum bankaþjónustu.

Skýr markmið

Að sögn Gunnars kemur Seðlabankinn inn í RB með skýr markmið, að nútímavæða innviði og útleiða kerfi á stórtölvu RB, að innleiða staðlaðar reglubækur um uppgjör og tæknistaðla að evrópskri fyrirmynd og að koma á innlendri óháðri smágreiðslulausn (A2A) sem litið er á sem þjóðaröryggismál.

Innleiðing A2A-lausna eflir þjóðaröryggi og dregur úr því að reiða þurfi sig nær eingöngu á greiðslukortainnviði í eigu erlendra aðila, þ.e. Visa og Mastercard, að sögn Gunnars. „Eins og þjóðaröryggisráð hefur bent á er nauðsynlegt að búa til aðra leið samhliða greiðslukortainnviðum. Hún yrði þá um leið varaleið ef hin erlendu fyrirtæki myndu af einhverjum ástæðum hætta að þjónusta Ísland.“

Kaup
» Greiðsluveitan ehf., dótturfélag Seðlabanka Íslands, seldi ARK kerfi sitt gegn 7,33% eignarhlut í RB.
» RB keypti jafnframt SWIFT-þjónustu Greiðsluveitunnar.
» Einnig hafa Mentis, Valitor og Salt Pay selt hluti sína í RB.
» Nú einungis í eigu innlánsstofnana og Greiðsluveitunnar.