Tónlistarkonan „Er auðveldara að rústa jörðinni af því að hún er kvenkyns fígúra í augum mannfólks?“ spyr Sóley þegar hún segir frá efnivið plötunnar Mother Melancholia. Henni voru hugmyndir vistfemínisma hugleiknar.
Tónlistarkonan „Er auðveldara að rústa jörðinni af því að hún er kvenkyns fígúra í augum mannfólks?“ spyr Sóley þegar hún segir frá efnivið plötunnar Mother Melancholia. Henni voru hugmyndir vistfemínisma hugleiknar. — Morgunblaðið/Unnur Karen
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is Hvernig hljómar síðasti dagur mannfólksins, síðasti dagurinn áður en veröldin ferst?

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Hvernig hljómar síðasti dagur mannfólksins, síðasti dagurinn áður en veröldin ferst? Tónlistarkonuna Sóleyju Stefánsdóttur, sem margir þekkja sem Sóleyju, langaði að búa til hljóðheim sem fangaði þennan síðasta dag mannfólksins og úr varð nýjasta plata hennar, Mother Melancholia. Hún kom út í lok október. Platan er innblásin af vangaveltum um heimsendi, sjálfseyðingu mannkyns, kapítalisma og feðraveldi og samspil þessara þátta.

Í miðju ferlinu fór Sóley að velta fyrir sér sambandi femínisma og stöðu jarðarinnar og fór að kafa í það sem á íslensku hefur verið kallað vistfemínismi (e. eco-feminism). „Ég fór að pæla í því hvernig við sjáum jörðina sem kvenkyns fígúru, í þessum orðum „móðir náttúra“ og í tengingunni á milli þess hvernig við tölum um konur og hvernig við tölum um jörðina og hvernig við komum fram við konur og hvernig við komum fram við jörðina.“

Hún segist hafa fengið hugmyndina um samband náttúrunnar og feðraveldisins á heilann. „Ég var mikið að hugsa um hvernig við mannfólkið nýtum okkur jörðina og hreinlega beitum hana ofbeldi. Er auðveldara að rústa jörðinni af því að hún er kvenkyns fígúra í augum mannfólks? Mér finnst þetta allt ótrúlega áhugavert, hvernig við komum fram við jörðina og þessi rómantísering á konum og náttúrunni. Svo hef ég reynt að koma þessu í þetta abstrakt form sem tónlistin er.“

Á umslagi plötunnar, sem eiginmaður Sóleyjar vann út frá ljósmynd eftir Sunnu Ben., rís hvítklædd kvenvera upp úr hvítu landslagi. „Hún er þreytt og buguð en það er mikil reisn yfir henni. Hún er drottningin sem trónir á toppnum sem mun svo kannski á endanum drepa okkur öll,“ segir hún.

„Þetta hljómar allt rosalega dramatískt en á sama tíma finnst mér þessar pælingar svo absúrd. Það er líka mikill húmor í þessu út af absúrdleikanum í þessu öllu saman.“

Frelsi í formleysinu

Sóley segist hafa byrjað að semja plötuna í kringum 2018. „Þá var ég að vinna einhverja harmónikutónlist. Mig langaði að færa mig frá þessum eðlilega poppstrúktúr á lögum. Ég fann mikið frelsi í því að semja formlausa tónlist. Mig langaði að það væri einhver algjör bjögun. Hugmyndafræðin var sú að það væri rosa mikið af hljóðfærum sem eru ekki með þetta fullkomna „pitch“, strengirnir renna mjög mikið svona upp og niður.“ Þetta segir hún ef til vill innblásið af austurlenskri strengjatónlist þar sem tónlistin „er aldrei alveg á réttum tónum“. Hún segist líka hafa leikið sér mikið með þeremín, rafmagnshljóðfæri sem byggist á bylgjum og er stjórnað án snertingar.

„Hugmyndin var að það væri enginn fullkominn dúr-hljómur eða eitthvað, þetta væri allt dálítið erfitt. Það er svona aðalpælingin.“ Hún vann með upptökur af eigin rödd og breytti henni mikið, stundum hljómar hún jafnvel eins og skrímsli.

Sóley hefur verið að fikra sig í átt að tilraunakenndari tónlist. „Mér þykir það alltaf meira og meira spennandi hvernig ég get potað aðeins í popptónlistina.“ Henni þykir áhugavert að gera tilraunir með poppformið, hvernig hægt sé að teygja á því og víkka rammana sem þar eru settir.

„Þetta er fyrsta platan sem ég geri sem er ekki hjá útgáfufyrirtæki og ég fann fyrir miklu frelsi, þótt gamla útgáfufyrirtækið mitt hafi ekki verið að segja mér hvað ég ætti að gera. En bara það að vera ein og gera það sem ég vildi var frelsandi. Vera ekki að reyna að þóknast neinum og reyna að koma þessu til skila eins skýrt og ég gat.“

Ýmsir komu að gerð plötunnar. Albert Finnbogason hjálpaði til við hljóðblöndun og spilaði á gítar og bassa. „Ég pródúseraði sjálf en hann kom með sína listrænu hljóðblöndunarsýn svo hann á alveg stóran þátt í plötunni líka.“ Kristín Þóra Haraldsdóttir útsetti strengi og Jón Óskar Jónsson spilaði á trommur.

Eiginmaður Sóleyjar, sem gengur undir nafninu Íbbagoggur, er ekki tónlistarmaður en þó mikill áhugamaður um verkefnið. Hún segir það hafa verið mjög gott að fá sýn hans á tónlistina. „Hann gerði líka plötuumslagið og allan þann sjónræna heim.“

Margir óvissuþættir

Sóley kom nýlega heim úr tónleikaferðalagi um Evrópu þar sem hún ferðaðist til átta landa. Það voru bæði kostir og gallar við það að ferðast á þessum tíma. „Það var mjög, mjög gaman að spila aftur. Það að spila fyrir fólk á ný var ólýsanleg tilfinning. En Covid er ekki búið. Það var mikið stress og margir óvissuþættir á hverjum degi.“

Hún nefnir sem dæmi að það hafi verið óvissa með takmarkanir í borgunum, stundum hafi þau rétt náð að spila tónleika áður en skellt var í lás. Þau hafi auðvitað þurft að passa vel upp á sóttvarnir, ef einhver hefði orðið veikur hefði lítið orðið úr tónleikahaldi.

„Þannig að þetta var ekkert eðlilegur túr. En við náðum að spila alla tónleikana, sem er eiginlega bara kraftaverk, og við komumst heim. Við bara rétt náðum þessu. Ég hugsa að ég bíði með að fara aftur í svona langan túr.“

Hún er þó ekki alveg hætt ferðalögum. „Ég er á leið til Lettlands að spila með strengjakvintett. Vonandi kemst ég heim fyrir jól. Svo er ég að spila á Myrkum músíkdögum í janúar þar sem ég er einmitt að spila harmónikutónlistina sem varð svolítið uppsprettan að þessari tónlist. Svo ég er svolítið að loka hringnum.“