[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ómar Valdimarsson. Skrudda 2021. 240 bls. innbundin.

Ævisaga Gunnars Þórðarsonar, skráð af Ómari Valdimarssyni, er lipurlega skrifuð bók og fróðleg. Þótt hvert mannsbarn þekki lög Gunnars og geti raulað þau á góðum stundum vitum við minna um manninn; gaur með gítar sem í viðtölum segir fátt, en veit hvað hann syngur! Svipurinn er sposkur, en dularfullur.

Já, Gunnar er forvitnilegur maður og mörgu er um manninn svarað í bók Ómars. Ekki fer á milli mála að Ómar þekkir vel til mála og er söguefninu og öllu umhverfinu vel kunnugur. Hvergi er tómarúm í textanum.

Skrásetjari fer þá leið að vinna texta sinn úr mörgum þráðum. Bæði byggir hann á frásögn Gunnars, en bætir svo við lýsingum samferðafólks sem til þekkir. Þar er meðal annars sótt í frásagnir blaða og tímarita fyrr á tíð.

Allt þetta er til fyrirmyndar og eykur heimildagildi bókarinnar, þar sem segir frá vinsælum hljómsveitum, dægursmellum, litríkum persónuleikum og alls konar bralli upp og niður tónstiga tilverunnar. Lífið er alls konar.

Hljómar, Trúbrot, Brimkló, Lónlí Blú Bojs, Lummur, Ríó Tríó. Tónleikar, stórsýningar á Brodway, Eurovision og óperur. Útsetningar á óteljandi lögum og stefjum. Listinn er langur og staðfestir að Gunnar Þórðarson er ótrúlegur maður. Skemmtilegar sögur og góðar myndir, sem hefðu mátt vera fleiri og njóta sín betur. Allur frágangur í bókinni er til fyrirmyndar og hnökralaus; og textinn lesvænn og þægilegur.

„...hann heyrir hvern hljóm innra með sér og getur séð fyrir sér hvernig sá gengur upp með þeim næsta eða þeim á undan“ (bls. 220) segir á einum stað um Gunnar. Listfengi og eljusemi kemur í hugann. Innsæi og tilfinning fyrir því hvað virkar í músíkinni, sem halda mun nafni Gunnars á loft um langa framtíð. En bókin góða bætir mörgu við – í frásögnum um forvitnilegan mann.

Sigurður Bogi Sævarsson

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson