Steven Gerrard hefur farið vel af stað með Aston Villa. Hann heldur hvergi aftur af sér á hliðarlínunni.
Steven Gerrard hefur farið vel af stað með Aston Villa. Hann heldur hvergi aftur af sér á hliðarlínunni. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það verður víða kökkur í hálsi og tár á hvarmi í dag, laugardag, þegar Steven Gerrard snýr aftur heim á Anfield í Liverpool.

Það verður víða kökkur í hálsi og tár á hvarmi í dag, laugardag, þegar Steven Gerrard snýr aftur heim á Anfield í Liverpool. Að þessu sinni mun goðið þó ekki vonast eftir góðum úrslitum Rauða hernum til handa heldur gestunum, Aston Villa, en hann stýrir nú því fornfræga félagi Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Steven Gerrard er einn dáðasti leikmaðurinn í sögu knattspyrnufélagsins Liverpool – ef ekki sá allra dáðasti. Hann kom inn í akademíu félagsins níu ára og skrifaði undir sinn fyrsta samning átta árum síðar, 1997. Hann þreyti frumraun sína sem varamaður gegn Blackburn Rovers síðla árs 1998 og þeir sem muna hvern okkar maður leysti af hólmi þann bjarta dag mega gera vel við sig í mat og drykk í kvöld! Jú, jú, góðir hálsar, við erum að tala um Norðmanninn Vegard Heggem. Engan annan.

Gerrard fór rólega af stað fyrsta veturinn en lét meira að sér kveða strax tímabilið eftir. Hann varð fljótt lykilmaður á miðjunni hjá Rauða hernum og flestir þekkja söguna eftir það. Gerrard lék alls 710 leiki fyrir Liverpool í öllum keppnum og skoraði 185 mörk. Hann var óvenju markheppinn af miðvellingi að vera og náði í þrígang þeim mergjaða árangri að skora yfir 20 mörk á tímabili, mest 24 veturinn 2008-09. Sem frægt er varð Gerrard aldrei enskur meistari með Liverpool en vann Meistaradeildina einu sinni, enska bikarinn tvisvar, deildarbikarinn þrisvar og evrópukeppni félagsliða í eitt skipti. 114 sinnum klæddist hann ensku landsliðstreyjunni og gerði 21 mark. Sannarlega einn af bestu leikmönnum sinnar kynslóðar í heiminum.

Vakti Rangers af værum svefni

Snemma varð ljóst að hugur Gerrards stóð til þjálfunar og sparkstjórnunar. Hann lék í tvö tímabil með LA Galaxy í Bandaríkjunum eftir að hann hvarf frá Liverpool og í þann mund sem skórnir voru að fara á hilluna víðfrægu 2016 bar C-deildarlið Milton Keynes Dons víurnar í hann sem knattspyrnustjóra. Gerrard afþakkaði það góða boð, kvaðst ekki alveg klár í slaginn. Í framhaldinu fór hann að þjálfa unglingalið Liverpool og fékk þétt klapp á bakið frá Jürgen Klopp aðalliðsstjóra fyrir framlag sitt.

Það kveikti í Glasgow Rangers sem réð Gerrard til starfa sumarið 2018 og verkefnið var einfalt: Að vekja risann af miklum þyrnirósarsvefni og rjúfa einokun nágrannanna í Celtic. Það tókst honum í þriðju atrennu á liðnu tímabili – og það með glæsibrag, Rangers tapaði ekki deildarleik allan veturinn.

Þrátt fyrir að kunna vel við sig í Glasgow stóðst Gerrard ekki freistinguna þegar Aston Villa bauð honum starf knattspyrnustjóra í byrjun nóvember síðastliðins. Nú væri hann reiðubúinn að færa sig yfir á stóra sviðið. Skær ljósin hafa ekki skorið í augu enn; Gerrard hefur unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum í úrvalsdeildinni og er kominn með liðið upp í 10. sæti eftir þunga byrjun. Eina tapið kom gegn meisturum Manchester City – og það var naumt.

Engum sem á annað borð er með spark í blóðinu dylst að Steven Gerrard stefnir leynt og ljóst að því að stjórna liði Liverpool þegar fram líða stundir. Fyrstu vísbendingar eru á þann veg að hann sé þess umkominn enda þótt lokadómur liggi fráleitt fyrir. Hann þarf meiri tíma til að fóta sig í úrvalsdeildinni, auk þess sem ekkert fararsnið er á Jürgen Klopp – sem sjálfur er ekki langt á eftir Gerrard á listanum yfir dýrlinga á Anfield. En í fyllingu tímans...

Dalglish sá seinasti

Gerrard er ekki fyrsti fyrrverandi leikmaður Liverpool til að leiða annað lið út á Anfield. Frægasta dæmið er án efa þegar Kenny Dalglish, enn eitt félagsgoðið, gerði Blackburn Rovers að enskum meisturum á vellinum vorið 1995, þrátt fyrir tap þann dag. Af öðrum dáðum sonum sem hafa snúið heim með aðrar sveitir má nefna Kevin Keegan og Graeme Souness.

Dalglish er síðasti fyrrverandi leikmaður Liverpool til að stýra liðinu en hann settist eins og menn muna aftur í stólinn í rúmt ár, frá janúar 2011 til maí 2012. Byrjaði ágætlega í það skiptið en síðan varð ljóst að hann væri líklega ekki maðurinn til að leiða Rauða herinn inn í framtíðina. Upphaflega réð Dalglish ríkjum hjá félaginu frá 1985 til 1991 og var þá með 60,91% vinningshlutfall sem var það hæsta í sögunni þangað til að Klopp skaust fram úr honum í vikunni, er kominn í 61%. Dalglish gerði raunar gott betur en að gefa skipanir; hann lék sjálfur með liðinu fram til ársins 1990. Varð síðasti spilandi knattspyrnustjórinn til að gera lið að enskum meistara 1985-86. Hann lék raunar tvo leiki 1987-88 og einn 1989-90 en það dugði ekki til að tryggja honum medalíu sem leikmanni í þau skiptin.

Bill Shankly, sem lagði grunninn að stórveldi Liverpool á sjöunda áratug liðinnar aldar, lék aldrei fyrir félagið sjálfur. Vinningshlutfall hans var 51,98% frá 1959 til 1974 en hafa ber í huga að Shankly tók við mun lakara búi en bæði Dalglish og Klopp; Liverpool hafði barist um á hæl og hnakka í B-deildinni í fimm ár þegar Skotann bar að garði. Það stóð heldur betur til bóta.

Arftaki Shanklys, Englendingurinn Bob Paisley, lék á hinn bóginn yfir 250 leiki fyrir Liverpool. Hann var við stjórnvölinn frá 1974 til 1983 og er langsigursælasti stjóri Liverpool frá upphafi, með sex Englandsmeistaratitla, þrjá deildarbikara og þrjá sigra í Evrópukeppni meistaraliða. Réttið nú upp hönd ef þið getið nefnt hina þrjá stjórana sem gert hafa Liverpool að Evrópumeistara! Já, akkúrat. Joe Fagan, Rafa Benítez og Jürgen Klopp. Þrátt fyrir afburðaárangur sinn er Paisley með lakara vinningshlutfall úr sínum leikjum en bæði Dalglish og Klopp, 57,57%.

Matt McQueen var fyrstur

Fagan, sem stóð vaktina á milli Paisleys og Dalglish á níunda áratugnum, skrýddist aldrei rauðu treyjunni sjálfur en það gerðu á hinn bóginn næstu menn. Dalglish þekkjum við en Ronnie Moran, sem stýrði liðinu í tvígang til bráðabirgða, fyrst 1991 og aftur 1992, var á sinni tíð fyrirliði Liverpool, rétt eins og arftaki hans, Graeme Souness. Roy Evans, sem leysti Souness af hólmi 1994, lék líka fyrir Liverpool enda þótt leikirnir væru ekki margir. Hann hvarf úr brúnni 1998 og síðan hefur enginn fyrrverandi leikmaður Liverpool staðið vaktina þar, að Dalglish undanskildum. Við erum að tala um Gérard Houllier, Rafa Benítez, Roy Hodgson, Brendan Rodgers og Klopp.

Fyrsti fyrrverandi leikmaður Liverpool til að halda um stjórnartaumana á Anfield var Matt McQueen, frá 1923-28. Einnig má nefna Phil Taylor, sem á sinni tíð var líka fyrirliði liðsins, en hann stýrði Liverpool í þrjú ár áður en Shankly reið í hlaðið.

Hvort Steven Gerrard bætist í þennan vaska hóp mun tíminn leiða í ljós.

Áskorunin verður gríðarleg

„Það verður óneitanlega sérstakt að sjá Gerrard leiða annað lið en Liverpool inn á Anfield. Honum verður klárlega tekið með kostum og kynjum enda maðurinn í hávegum hafður í Liverpool,“ segir Sigurður Sverrisson, grjótharður stuðningsmaður Liverpool til áratuga, en hann býr í borginni og verður meðal áhorfenda á leiknum um helgina.

Spurður hvort hann búist við því að Gerrard taki við Liverpool-liðinu með tíð og tíma svarar Sigurður:

„Samningur Klopps rennur út árið 2024 og margir reikna með því að Gerrard taki þá við liðinu. Það fer ekki leynt að Gerrard dreymir um það hlutverk. Hvernig honum tekst upp með Aston Villa verður frekari prófsteinn á getu hans sem framkvæmdastjóra en annars góður tími hjá Rangers.“

Hann telur að margir stuðningsmenn Liverpool séu á báðum áttum um hvort þetta hlutverk henti Gerrard. Kannski ekki síst vegna þess að til hans verða gerðar enn meiri kröfur en sem leikmanns á sínum tíma. „Klopp hefur lyft liðinu á hærri stall en lengi hefur verið og áskorunin fyrir Gerrard verður gríðarleg ef til þess kemur.“