[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar ég sá að Merking eftir Fríðu Ísberg væri vísindaskáldsaga vissi ég að ég yrði að lesa bókina sem allra fyrst. Ég sé ekki eftir því. Heimsmynd Merkingar er vel smíðuð, nærframtíð þar sem eftirlitssamfélagið er orðið alltumlykjandi og sjálfsagt.

Þegar ég sá að Merking eftir Fríðu Ísberg væri vísindaskáldsaga vissi ég að ég yrði að lesa bókina sem allra fyrst. Ég sé ekki eftir því. Heimsmynd Merkingar er vel smíðuð, nærframtíð þar sem eftirlitssamfélagið er orðið alltumlykjandi og sjálfsagt. Pólarísering er í forgrunni, eins og gagnrýnendur hafa haft orð á, en sagan snertir á svo mörgu öðru: stéttaskiptingu, friðhelgi einkalífsins, lögregluríkinu. Merking býr yfir dýpt, þetta er bók sem mun breytast þegar fram líða stundir. Það er raunin með allar góðar bókmenntir – en vísindaskáldsögur eru einstaklega kröftugar hvað slíkt varðar.

Þökk sé meðmælum Hildar Knútsdóttur byrjaði ég á Temeraire-seríunni eftir Naomi Novik. Verkið greip mig strax, samband manns og dreka er mjög sérstakt og minnir oft á foreldri og barn, bræðralag hermanna, sálufélaga; þó er þetta eitthvað allt annað og meira. Meðmæli Hildar svíkja greinilega engan.

Fang of Summoning eftir Giti Chandra er fyrsta bókin í þríleik hennar þar sem indversk goðafræði rennur saman við Ísland. Ég er bara nýbyrjaður og get ekki annað sagt en að hún lofi góðu. Konseptið er magnað og einstakur samruni í íslenskum bókmenntum. Ég nældi mér í seríuna á furðusagnahátíðinni Icecon, en auðvelt væri að finna eintök í Nexus. Furðusagnaaðdáendur, jafnt sem íslenskir bókaunnendur sem vilja komast í tæri við eitthvað nýtt og ferskt, ættu ekki að láta þennan bókaflokk fram hjá sér fara.

Að lokum má ég til með að mæla með einni af mínum uppáhaldsbókum. Ég les mikið af japönskum skáldsögum og þar finnst mér Hiromi Kawakami bera af. Það er mikill harmleikur að mér tókst ekki að fá áritun þegar hún var gestur bókmenntahátíðarinnar í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Manazuru er dul bók og óræð, þar liggur kraftur hennar grafinn. Hún fjallar um Kei og uppgjör hennar á hvarfi eiginmanns síns fyrir meira en áratugi. Þar blandast einnig inn samskipti hennar við móður sína og dóttur og sjálft kynngimagn sjávarþorpsins Manazuru sem kallar sífellt á Kei. Draugalegir og draumkenndir undirtónar einkenna söguna sem dregur lesandann inn í kunnuglegan en jafnframt óraunverulegan heim.

Sjaldan ræðst ég í endurlestur, en hér er undantekning gerð. Manazuru er einstakt verk sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.