Guðný Þórarinsdóttir fæddist á Blönduósi 1. ágúst 1943. Hún lést á HSN Blönduósi 29. nóvember 2021.

Foreldrar hennar voru Helga Kristjánsdóttir og Þórarinn Þorleifsson, bæði látin.

Maki Guðnýjar er Óskar Sigurfinnsson, foreldrar hans voru Björg Erlendsdóttir og Sigurfinn Jakobsson, bæði látin. Börn Guðnýjar og Óskars eru: 1) Þóranna Björg, f. 12.11. 1960, gift Þorsteini Björnssyni. 2) Hólmfríður Sigrún, f. 31.10. 1961, í sambúð með Vigni Björnssyni. 3) Þorleifur Helgi, f. 13.1. 1963, giftur Þóreyju Guðmundsdóttur. 4) Júlíus Árni, f. 1.12. 1964, í sambúð með Dýrfinnu Vídalín Kristjánsdóttur. 5) Hulda Björk, f. 20.8. 1966, d. 14.10. 1971. Afkomendur þeirra eru á fimmta tug.

Útför Guðnýjar fer fram frá Blönduóskirkju í dag, 11. desember 2021, klukkan 14. Hægt er að nálgast vefstreymi á face

booksíðu Blönduóskirkju.

Ég man það elsku mamma mín,

hve mild var höndin þín.

Að koma upp í kjöltu þér

var kærust óskin mín.

Og ennþá rómar röddin þín,

svo rík í hjarta mér.

Er nóttin kemur dagur dvín,

í draumi ég er hjá þér.

(Jenni Jónsson)

Móðir mín, Guðný Þórarinsdóttir, góð, velviljuð, lífsglöð og hjartahlý kona, er gengin. Í mínum huga er minningin um mömmu fyrst og fremst minning um mannvin sem ekki unni sér hvíldar ef hjálpa þurfti öðrum, ættingjum, vinum eða sveitungum. Mamma bar djúpa virðingu fyrir lífinu og gjöfum jarðar og það sama hefur hún lagt áherslu á við sína nánustu. Hún lagði mikið upp úr að hrósa og hvetja börn og barnabörn og aðra sem hún var í samskiptum við. Gott var að hafa mömmu til að „fletta“ upp í ef muna þurfti afmælisdag eða vita ættartengsl og annað sem tengdist mannlífinu. Hún var ótrúlega minnug og vel upplýst. Þegar stund gafst frá daglegum önnum í sveitinni prjónaði hún og heklaði og nutu ófáir afraksturs þeirrar miklu og vönduðu framleiðslu. Þegar aldur færðist yfir og krankleiki herjaði á var hún endalaust að þakka fyrir alla aðstoð og hlýju sem hún og pabbi fengu frá vinum og ættingjum. Móðir mín var verndari minn, fyrirmynd og vinur. Ég get aldrei nógsamlega þakkað að hafa fengið að eiga hana að allt mitt líf, læra af henni og fá að hafa hana með mér áfram í minningunni til æviloka.

Sigrún Óskarsdóttir.

Í dag kveðjum við góða vinkonu okkar, Guðnýju í Meðalheimi. Manni finnst svo ótrúlega skrítið að hún skuli vera farin frá okkur, svona allt í einu. Við töluðum saman á laugardag og var hún þá glöð og hress. Ég sagði seinast í lok samtals, við tölum svo saman seinna, en það verður vonandi bið á því. Á mánudagsmorgninum eftir samtalið var hún dáin. Guðný var manneskja sem sérlega gott var að þekkja. Hún var alltaf boðin og búin til að rétta hjálparhönd hverjum sem var, ekki síst þeim sem erfitt áttu á einhvern hátt og þurftu á hjálp að halda. Hún var alltaf glöð og tók öllum erfiðleikum og sorgum af stakri rósemi við hlið síns góða manns, Óskars Sigurfinnssonar, en þau voru búin að búa í Meðalheimi allan sinn búskap. Hún og þau öll í Meðalheimi gerðu okkur hjónunum t.d. eitt sinn mikinn greiða er við fluttum til Reykjavíkur 2006 og gátum ekki farið með hann Smala okkar með okkur. Þá hringdum við í Guðnýju og sögðum henni frá vandræðum okkar og nefndum það hvort hún gæti leyst úr þeim. Þá, eins og alltaf, var hennar svar: „Jú, jú, alveg sjálfsagt að lofa honum að vera hjá okkur ef hann vill það, greyið.“ Og það vildi hann svo sannarlega því þar var hann í marga vetur og þar leið honum alltaf vel og fór þaðan í margar heiðargöngur. Ég held að hann hafi verið hættur að vita hvort hann átti frekar heima á Merkjalæk eða Meðalheimi seinustu árin hans og segir það sitt. Guðný ólst upp í stórum systkinahópi á Blönduósi og var gaman að heyra hvað hún hafði mikið samband við þau öll systkinin og fylgdist vel með hvað fjölskyldan stækkaði ört. Hún hugsaði alltaf sérlega vel um börnin sín og barnabörn. Hún var mikil prjónakona og var búin að prjóna mikið á hópinn sinn allan, jafnt á stóra sem smáa. Guðný hafði auðvitað nóg að gera á sínu stóra heimili en samt sem áður unnu þau hjón, Guðný og Óskar, bæði í fjöldamörg haust í sláturhúsinu við sauðfjárslátrun og má segja að þar hafi okkar fyrstu kynni orðið. Í Meðalheimi var alltaf mikill gestagangur og þar var ætíð gott að koma. Móttökur voru þar hlýjar og notalegar og mikið var þar spjallað við eldhúsborðið. Að lokum viljum við þakka Guðnýju innilega fyrir samfylgdina gegnum árin og alla hennar vinsemd og hjálp og vottum Óskari og fjölskyldunni allri innilegrar samúðar.

Ragnhildur og Sigurður,

Merkjalæk.